Thursday, January 28, 2010

Frú Lauga á Laugalæk er uppáhalds matvörubúðin mín. Á föstudögum kemur sending af glænýjum krækling frá Hrísey. Það er orðin fastur liður hjá okkur á föstudögum að koma við og sækja skammtinn. Kræklingurinn er svo nýr að það eru aldrei afföll, hver einasti kræklingur er góður. Síðasta föstudag bakaði ég kartöflur í andarfitu og hafði með ásamt brauði til að dýfa í djúsið sem kom af kræklingnum. Fullkomið.- smellpassaði með, hér er uppskriftin....

Gufusoðinn kræklingur
fyrir 2-3
1 kg kræklingur
2 dl hvítvín eða vatn
2 saxaðir skarlottlaukar
slatti steinselja
2 sneidd hvítlauksrif
nýmalaður pipar

Setjið krækling í ískalt vatn. Sigtið. og fjarlægið þá sem eru alveg opnir. Setjið allt nema krækling í stóran pott og látið sjóða í um 5 mín. Setjið krækling út í, látið lok á pottinn og látið sjóða í 4-5 mín eða þar til allar skeljarnar hafa opnað sig. Hendið þeim sem eru lokaðar.

Bakaðar kartöflur
fyrir 2-3

Þessar kartöflur eru hriklega góðar. Passa með allskonar réttum.

800 g kartöflur, tegund eftir smekk
2-3 msk. andarfita, fæst í Frú Laugu og Nóatúni

Hitið ofninn í 200°C. Flysjið kartöflur og skerið í minni bita. Sjóðið í saltvatni í 5 mín og sigtið. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Setjið andarfituna á pappírinn, bregðið plötunni í ofninn og látið fituna bráðna. veltið kartöflunum upp úr andafitunni, saltið og piprið og bakið í 30 mín.


Saturday, January 23, 2010

Matur úr góðu hráefni er mér hugleikinn þessa dagana. Reyndar er það ekkert nýtt en þó alltaf sérstaklega í byrjun árs þegar umræðan í umhverfinu snýst um að "afeitra sig" eftir jólin. Ég hef aldrei getað skilið að fólk sem hugsar um það hvað það lætur ofan í sig og borðar hollan og góðan mat þurfi á slíku að halda. Matur eldaður frá grunni úr góðu hráefni er án efa það besta sem við látum ofan í okkur. Ferskur fiskur, smátómatar frá Akri, klípa af íslensku smjöri, góð olía og tuttugu mínútna nostur við eldamennskuna sem endar með dekri við bragðlaukana hljómar vel, ekki satt !!!!!!!!

Þorskhnakkar með tómötum
fyrir 2

2 þorskhnakkar eða 3-4 stykki annar góður fiskur
2 msk. olía
1 tsk. smjör
1 laukur , skorin í 4 hluta og sneiddur fínt
hnefi smátómatar, skornir í tvennt
nokkrir sólþurrkaðir tómatar í mini bitum
hnefi ólífur, skornar í tvennt
2-3 msk ólífuolía og 2-3 msk. söxuð steinselja til að hella og strá yfir síðast

Hitið olíu og smjör á pönnu. Steikið laukinn við frekar hægan hita, þó það háan að hann brúnist aðeins. Setjið fiskinn á pönnuna hjá lauknum áður en laukurinn fer að taka lit. steikið fiskinn á báðum hliðum. Setjið tómata, sólþurrkaða og ólífur á pönnuna og látið malla aðeins áfram. Hellið olíu og stráið steinselju yfir. Berið fram með kús-kús, hrísgrjónum, kartöflum eða góðu brauði.


Sunday, January 17, 2010

Ég hef ekki getað hætt að hugsa um smjör síðan ég sá myndina um Juliu Child síðustu helgi. Henni fannst smjör vera best af öllu og ég er svoooo... sammála. Allt með smjöri er ómótstæðilegt. Bara ein teskeið af smjöri út í olíuna á pönnuna gerir gæfumuninn og hversdagsmatinn betri. Möndlusteikt klaustursbleikja með brúnu smjöri upp á franska mátann er svo einfalt og auðvelt og algjört sælgæti. Soðnar kartöflur, spergilkál sett út í síðustu mínúturnar og brúnað smjör yfir herlegheitinn er fullkomin upplifun. Ég veit alveg að næringarráðgjafar fá gæsahúð á að sjá smjörið í uppskriftinni en mér finnst að það eigi að skoða allt í samhengi og svo er þetta alltaf spurning um magn og hversu oft............ og .......

Möndlusteikt bleikja með brúnuðu smjöri

Margir eru viðkvæmir fyrir beinunum í bleikjunni og sneiða hjá henni þess vegna. Ég hef alltaf plokkað beinin úr með augnabrúnaplokkara,af því ég þoli ekki fiskbein. Ég er nú búin að fjárfesta í þessari líka fínu græju sem tekur mörg bein í einu. Það fást nokkrar gerðir í Kokku bæði ódýrar (1200 kr.)og dýrari. Mér finnst bleikja rosalega góð þannig að græjan á eftir að borga sig fljótt.

4-6 bleikjuflök
20 -30 g möndlur í flögum
4-5 msk. hveiti
salt og nýmalaður pipar
4 msk olía
1 tsk. smjör

100 g smjör
2-3 msk. steinselja eða 1 tsk. þurrkuð
2-3 msk. gott vínedik

Slatti góðar kartöflur soðnar
Slatti spergilkál, sett út í kartöflupottin þegar 5 mín eru eftir af suðutímanum

Beinhreinsið bleikjuna, skafið roðið og skerið í tvo eða þrjá bita (eftir stærð hennar). Blandið hveiti og möndluflögum saman. hitið olíu og smjör á pönnu, veltið bleikjunni upp úr því og steikið hana á pönnu á báðum hliðum. Færið bleikjuna á fat og haldið heitri. Bræðið smjör á pönnunni þar til það fer að brúnast, bætið steinseljunni úr í. Hellið smjörinu í sósukönnu sem hefur verið hituð aðeins. Hellið edikinu á pönnuna, látið svolítið af vökvanum gufa upp og hellið edikinu síðan út í smjörið. Berið fram með bleikjunni og kartöflu-spergilkálblöndunni.
Möndlusteikt bleikja

Monday, January 11, 2010

Kjötbolluspagettí
Þetta er búin að vera algjör "gúrmehelgi". Síðasta laugardag var gala-dinnerinn hjá klúbbi matreiðslumanna og þó hann hafi áður verið flottur sló þessi dinner allt út. Þemað var "íslenskt hráefni" og landsliðið kann þetta alveg. Sunnudag var farið í bíó - Julia and Julia - yndisleg mynd sem allir sem lifa fyrir að borða ættu að sjá. Það var vel við hæfi að fara síðan heim að elda kjötbolluspagettí, hendast úr skónum, berfætt í eldhúsinu með svuntu, sleif og setja ítalska tónlist í spilarann. Þetta er pastaréttur sem gaman er að gera þegar margir hjálpast að í eldhúsinu, hann er ekki fljótlegur en gaman að elda hann, maður fílar sig alveg eins og Sophiu Loren í eldhúsinu.

Kjötbolluspagettí
fyrir 6 svanga

Mér finnst gott að hafa mikið af bollum svo uppskriftin af þeim er rífleg. Það er gott að nota svínahakk með nautinu svo bollurnar verði fastari í sér.

Bollur:
400 g nautahakk
400 g svínahakk
2 egg
4 msk. parmaostur, rifinn (má sleppa)
2 hvítlauksrif, rifin
5-6 msk. brauðrasp
salt og nýmalaður pipar

Blandið öllu saman í skál og mótið litlar bollur á stærð við valhnetur, geymið.

Sósan:
2-3 msk. olía
1 laukur, saxaður smátt
2-3 hvítlauksrif, söxuð
1 -2 tsk. krydd, oreganó, merian eða blandað provence krydd eða blanda af öllu
2 dósir tómatar, Chirio eru bestir (800 g) maukaðir í matvinnsluvél
1/2 msk. púðursykur eða hrásykur
1 msk. tómat-tapernade
1/2 - 1 dl rauðvín (má sleppa)
salt og nýmalaður pipar

500 -600 g spagettí

Steikið laukinn í olíunni þar til hann fer að verða mjúkur, það er best að nota víðan djúpan pott. Bætið hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið kryddi út í og hrærið aðeins í (njótið ilmsins). Hellið tómötum, sykri, tapernade og víni út í, smakkið til með salti og pipar. Látið malla í um 10 mín, ekki hafa lok á pottinum. Bætið bollum úr í, látið lok á pottinn, hristið hann til öðru hverju og látið sjóða í 10 -15 mín. Sjóðið spagettíið á meðan eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Sigtið spagettíið og hellið í stóra skál, hellið kjötsósunni yfir. Berið fram með góðum slatta af parmaosti.


Saturday, January 2, 2010

Spínatbaka

Bökur eru eitt af uppáhaldsréttunum á heimilinu, nokkur sem öllum finnst frábært. Galdurinn felst í bökubotninum, stökkur og vel bakaður botn er lykilatriði í að bakan sé góð. Baka með þurrum og þykkum botni er aldrei góð. Aðferðin sem ég nota er einföld en aðalatriðið er að smjörklumparnir í deiginu séu það stórir að þegar þeir bráðna í hveitinu við bakstur myndist loftrými, það er það sem gerir deigskelina stökka og brakandi. Þetta hljómar eins og efnafræði en bakstur er hálfgerð efnafræði og þessi aðferð virkar. Annað sem þarf að passa er að hnoða ekki deigið of mikið í lokin, þá mýkist deigið upp, verður seigt og smjörklumparnin eyðileggjast. Þetta sýnist vera löng uppskrift en hér er skotheld aðferð að fullkominni bökuskel.


Bökuskel

260 g hveiti
1 tsk. salt
180 g kalt smjör í 3x3 cm bitum
3/4 dl ískalt vatn


Best er að laga bökudeig í matvinnsluvél því þá helst deigið kalt og smjörið verður jafnara í stærðinni. Setjið hveiti, salt og smjör í vélina og látið hana vinna í 30 sek.-1 mín, eða þar til smjörbitarnir eru á stærð við grænar baunir, sjáið myndina. Bætið vatninu út í og látið vélina vinna áfram í 30 sek. -1 mín á hægum hraða. Hvolfið úr skálinni á borðið, það er ennþá laust í sér, sjá myndina, og hnoðið deiginu saman. Ekki hnoða of mikið, þetta eru um 20 handtök, deigið á rétt að loða saman í klump og má alveg vera óreglulegt með smjörklumpum í. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í kæli í 20 mín. Það má líka hnoða deigið saman í höndunum, þá er sama aðferð notuð en siðugt er að skera smjörið í 2x2 cm teninga og passa að mylja deigið saman þannig að smjörið verði í baunastærð og hafa hraðar hendur svo smjörið verði ekki mjúkt..

Hitið ofninn í 180C°. Rúllið deigið út á hveitistráðu borði og setjið í bökuform, skerið afgangsdeig utanmeð en látið það helst vera upp á brúnum á forminu því deigið skreppur saman við bakstur. Pikkið í botninn og upp með hliðunum með gaffli. Forbakið bökuskelina í 10-15 mín eða þar til hún er gullin. Hér er uppskrift af einni af uppáhalds bökufyllingunni minni. Ég nota stundum fetaost, um 200 g í staðin fyrir paprikuna en þá þarf minna salt eða jafnvel ekkert.

Fylling

400 g spínat (þetta fíngerða sem fæst í pokunum)
4 dl matreiðslurjómi
2 egg
1 eggjarauða
3 msk. parmaostur, rifinn
1 hvítlauksrif, saxað
1 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar
200 g kirsuberjatómatar skornir í tvennt
1 lítil krukka afhýdd paprika í olíu, olía sigtuð frá og skorin í bita
smá parmaostur til að strá ofan á

Setjið upp fullan ketil af vatni. Setjið spínat í rúmgott sigti og hellið sjóðandi vatni yfir. Kreistið vatnið úr því þegar það hefur kólnað nóg til að höndla það, saxið það síðan gróft niður. Setjið allt hráefni nema tómatana saman í skál og þeytið létt saman með gaffli. Raðið tómötum í bökuskelina og hellið fyllingunni yfir. stráið parmaost yfir og malið smá pipar yfir líka. Bakið í 35-40 mín. berið fram með góðu salati.