Friday, February 26, 2010

Fullkomnar Brúnkur

Það er búið að gera margar tilraunir að uppskriftum að Brownies kökum um dagana og oft allt súkkulaðibókasafnið kallað til. Mér finnst Brownies eiga að vera seigar, dökkar og djúsí og skilja eftir sig langt eftirbragð. Ég hef fundið það út að eitt af því sem skiptir mestu máli, fyrir utan það að nota gott hráefni, er bökunartíminn, það má ekki baka þær of lengi, því þá verða þær verða þurrar. Ég gef hér upp tímann og hitann á mínum ofni en ofnar eru misjafnir og þarf því að fylgjast með kökunum í lok bökunartímans. Þegar þið stingið prjóni í kökuna á smávegis af deigi að loða við hann, ekki blautu deigi heldur mylsnukenndu, ef prjónninn er alveg þurr er hún ofbökuð. Hér kemur mín útgáfa.



Fullkomnar brúnkur
20-24 stk.

120 g pilsburys-hveiti
2 msk. gott kakó
200 g gott súkkulaði td. Green & Black
160 g smjör
1/2 tsk. salt
250 g sykur
50 g púðursykur
4 stór egg
2 tsk. vanilludropar

Hitið ofninn í 160°C á blástur, annars 180°C. Sigtið hveiti og kakó saman í skál. Brytjið súkkulaðið og bræðið það og smjörið saman við vægan hita. Bætið salti og báðum tegundum af sykri út í súkkulaðiblönduna og hrærið vel saman. Bætið eggjum út í, einu í einu ásamt vanilludropum og hrærið vel saman. Bætið nú hveitiblönduni út í deigið og blandið varlega saman við með sleikju, ekki ofhræra. Fóðrið ferkantað form 33x24 cm stórt með bökunarpappír og hellið deiginu í það. Bakið í 18-20 mín og athugið að fylgjast vel með bökunartímanum. Kælið kökurnar og skerið í bita. Þær eru mjög góðar sama dag og þær eru bakaðar, frábærar sem eftirréttur með vanilluís og berjum. Næsta dag breytist áferðin og þær verða seigari, eins og mér finnst þær bestar.

Tuesday, February 16, 2010

Bolludagur
Uppáhalds dagurinn minn. Hugsa sér dagur þar sem allir sameinast um að borða rjómabollur....yummi-yumm. Í fyrsta sinn í sögunni voru blöðin ekki uppfull af fræðslu um hversu margar hitaeiningar eru í bollunum, tókuð þið eftir því ? Það er ekki allt vont í þessum heimi.

Vatnsdeigsbollur (pottþétt uppskrift)

Ef þið viljið gera fleiri bollur er best að margfalda ekki uppskriftina heldur gera hana aftur. Það er viss hætta á að hlutföllin riðlist til og deigið misheppnast frekar ef uppskriftin er margfölduð.

2 dl vatn
50 g smjör
120 g hveiti (pilsbury´s)
3 meðalstór egg eða 4 lítil

1 dl góð sulta
3 -4 dl rjómi, þeyttur
100 g súkkulaði

Hitið ofninn í 200°C. Setjið vatn og smjör í pott og bræðið smjörið. Látið sjóða vel upp á þessu. Takið pottinn af hellunni og bætið hveiti út í, sláið vel saman. Bætið eggjum út í, einu í einu. Það má líka setja jafninginn í hrærivél og bæta eggjum út í þar. Hrærið hvert egg vel saman við þannig að deigið verði samfellt. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og setjið 9-12 bollur á plötuna. Notið 2 matskeiðar til að móta bollurnar. Bakið í miðjum ofni í 20-30 mín. Það má alls ekki opna ofninn fyrstu 15-20 mínúturnar, bollurnar geta þá fallið saman.
Kælið bollurnar og leggið saman með góðri sultu og rjóma. Bræðið súkkulaði og hjúpið ofan á.

Monday, February 8, 2010

Súkkulaðiástríða

Á mínu heimili er súkkulaði ástríða. Leitin að fullkomnu súkkulaðikökunni hefur staðið yfir í mörg ár. Mig grunar reyndar að heimilismeðlimir séu hræddir við að festa eina köku í sessi því vissulega hefur þessi leit haft hvetjandi áhrif og ófáar kökur verið bakaðar. Þessi er ein af þeim sem kemur sterklega til greina sem "númer eitt". Ég skreytti hana með því að klippa út hjarta, setja það á miðjuna og dusta flórsykur ofan á. Athugið að ekta súkkulaðikaka verður alltaf jafn góð súkkulaðinu sem er notað í hana.

Allt sem þarf er ást ....en örlítið súkkulaði við og við skaðar nú ekki.

Ekta Frönsk

250 g súkkulaði, 70 %
250 g smjör
6 eggjahvítur
6 eggjarauður
140 g sykur

Hitið ofninn í 160 (ekki blástur) og setjið litla ofnskúffu með vatni á botninn. Setjið bökunarpappír í botninn á 26 cm breiðu smelluformi og penslið inn á hliðarnar með olíu. Bræðið súkkulaði og smjör saman við vægan hita. Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að verða stífar og setjið helminginn af sykrinum ( 70 g) út í mjórri bunu, þeytið saman í um í 2-3 mín. Setjið eggjahvítumassann í skál, notið sleikju til að hreinsa skálina, það þarf ekki að skola hana. Setjið eggjarauður og afganginn af sykrinum í skálina og þeytið saman þar til ljóst og létt. Blandið súkkulaðiblöndunni saman við það. Blandið eggjahvítumassanum varlega út í með sleikju. Setjið deigið í formið. Bakið á neðstu rim í ofninum í 50 mín. Kælið aðeins og takið síðan úr forminu. Berið fram með léttþeyttum rjóma eða vanillusósu.

Sunday, February 7, 2010

Lífræni osturinn frá Skaftholti við Heklurætur er nýjasta sælkerauppgvötunin. Hann er algjört nammi þessi ostur. Hann fæst í Brauðhúsinu í Grímsbæ. Osturinn fékkst ekki síðasta föstudag, greinilega margir búnir að uppgvöta hvað hann er frábær. Ég verð alltaf svolítið glöð þegar gæðavara selst upp, eins og bara þegar uppáhaldssúkkulaðið mitt Green & Black með möndlum klárast. Það segir mér að fleiri en ég hafa fallið fyrir því og kaupa það þó það sé rándýrt. Fleiri sælkerar á sveimi.

Það fæst ýmislegt annað gott í Brauðhúsinu eins og þetta hrökkbrauð sem er bakað úr lífrænt ræktuðu steinmöluðu rúgkorni. Kökurnar eru risastórar, pakkinn kostar um 750 kr. Hrökkbrauð er búið að slá í gegn á heimilinu, það þarf oft ekki mikið til að gleðja sælkerahjartað.

Wednesday, February 3, 2010

Heimalagað mæjónes á lítið skylt við bragðlausu mæjónesdrulluna sem fæst í boxum í verslunum. Þetta snýst, eins og alltaf ,um gæðahráefni. Góð olía, eggjarauða, Dijon-sinnep og sítróna er allt og sumt sem þarf og smá handafl.
Það er lítið mál að gera stóran skammt af mæjónesi en að gera lítinn skammt er allt annað. Flestar uppskriftir sem ég hef rekist á gera ráð fyrir því að maður noti matvinnsluvél en ég hef aldrei getað séð hvernig hægt er að þeyta eina eggjarauðu í þessari stóru könnu sem er á vélinni. Góð skál og pískur eða mortel er málið. (Það má líka nota handþeytara og nota minnsta hraða).Gott ráð er að nota 1/4 teskeiða málið á skeiðamálunum til að byrja með eða þegar fyrsti dl af olíunni er þeyttur út í eggjarauðuna því það er mikilvægt að setja olíuna hægt út í til að byrja með. Síðan er hægt að bragðbæta tilbúið mæjónesið með meiri sítrónu, hvítlauk og/eða fersku kryddi eins og söxuðu fáfnisgrasi. Svona mæjó er algjört gúrm..og svo ríkulegt í bragði að maður þarf ekki að nota nema örlítið af því. Örþunnt lag á grófa samloku með grænmeti gerir hana að upplifun og allskonar grænmeti skorið í stafi dýft í flauelsmjúka sósuna rennur ljúflega niður.

Mæjónes

1 eggjarauða
smá sítrónusafi
smá Maldon-salt
1/2 - 1 tsk. Dijon-sinnep
2 dl góð olía ( td.1 dl extra virgin og 1 dl venjuleg eða hvaða olía sem ykkur finnst holl og góð)

Setjið rauðu, sítrónusafa, salt og sinnep í skál eða mortel og þeytið saman í um 30 sek. Það er gott að nota þunga skál og setja rakt stykki undir svo skálin verði stöðug eða fá góða hjálp hjá einhverjum sem er flinkur við að setja olíuna út í. Notið 1/4 teskeiðamál og setjið eina skeið í einu,( í þrem áföngum fyrstu skeiðarnar, út í rauðuna á meðan þið hrærið stöðugt í. Þegar annar desilíterinn af olíunni er kominn úr í er í lagi að láta olíuna leka í bunu út í, þeytið stöðugt í. Bragðbætið með sítrónu og nýmöluðum pipar og eða ferskum kryddjurtum.