Monday, March 29, 2010

Súkkulaði-Súkkulaði

Svo það sé alveg á hreinu á þessi heimalagaða súkkulaðisósa nær ekkert sameiginlegt með þeirri sem fæst keypt í sprautuflöskum út í búð. Hún verður samt jafn góð og gæðin á súkkulaðinu sem þið setjið í hana, svo notið eins gott súkkulaði og þið hafið efni á. Sumt er alveg þess virði að borga vel fyrir, við erum að tala um SÚKKULAÐI !!!!!!!!!!!!

Heit súkkulaðisósa

150 g súkkulaði, suðusúkkulaði eða 70%
2 dl matreiðslurjómi, rjómabland eða mjólk
2-4 msk. síróp, venjulegt eða hlynsíróp
30 g smjör

Setjið allt í pott og hitið vel saman. Magnið af sírópi fer eftir því hversu hreint súkkulaði þið notið. Það þarf meira síróp í dökka súkkulaðið. Smakkið samt til, súkkulaði er misjafnt. Sósan geymist í viku í kæliskáp.

Sunday, March 21, 2010

Súkkulaði

Þessar súkkulaðikökur eru með þeim bestu sem ég fæ. Þær eru ekki ódýrar en úr uppskriftinni fást 18 stórar kökur og ein á mann er meir en nóg því þær eru fullar af súkkulaði og mjög bragðmiklar. Það er gott að frysta þær og eiga í eftirrétt með ís eða með afgangnum af rauðvíninu eftir vel heppnaða máltíð.

Stórar Súkkulaðikökur

80 g 70% súkkulaði
150 g suðusúkkulaði, venjulegt
80 g smjör
1-2 tsk. neskaffi, má sleppa
2 egg, stór
140 g sykur
1 tsk. vanilludropar
50 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 g súkkulaði, saxað eða dropar
150 g valhnetur, saxaðar gróft

Hitið ofninn í 180°C eða 160°C blástur. Bræðið báðar tegundir af súkkulaði og smjör saman í örbylgjuofni eða í vatnsbaði við vægan hita, leysið kaffiduftið upp í blöndunni. Þeytið egg og sykur saman þar til ljóst og létt. Blandið hveiti og lyftidufti saman. Blandið öllu saman og blandið saman með sleikju í samfellt deig. Setjið 2 arkir af bökunarpappír á 2 ofnplötur. Setjið deigið með tveim matskeiðum á pappírinn, þið eigið að fá 18 kökur, 9 á hverja plötu. Bakið kökurnar í 10-12 mín, 8-10 mín í blástursofni. Kökurnar má alls ekki ofbaka, þær eiga að vera þurrar að utan en mjúkar innan í. Kökurnar eru unaðslegar nýbakaðar en síðan gott að setja þær í box, setja smá bökunarpappír á milli þeirra og frysta.


Monday, March 15, 2010

Fiskur í matarboðið

Gremolata er kryddmauk sem er gott í allt mögulegt og sérlega gott til að smyrja ofan á fisk. Stórlúða með gremolata er frábær veislumatur en annar hvítur fiskur er líka góður. Hér er spriklandi ferskt lúðuflak notað og með kartöflum soðnum með spergilkáli alveg meiriháttar gott.

Fiskur með Gremolata
fyrir 4

800 g ferskur fiskur
1 sítróna
hnefafylli af ferskri steinselju
100 g grænar ólífur
4-5 msk. olía
1 tsk. maldonsalt
3 hvítlauksrif
smjörklípa

Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið ofnfast form með olíu og leggið fiskflakið í það. Setjið börk af sítrónu, steinselju, ólífur, salt og hvítlauk í matvinnsluvél og blandið vel saman. Bætið safa af 1/2 sítrónu og slatta af olíu út í. Smyrjið þessu á fiskinn. Setjið smávegis af smjöri í litlum klípum ofan á flakið. Bakið í um 15 mín. Lengur ef þið eruð með stórlúðu, svona um 20-25 mín eftir þykkt stykkjana. Berið fram með kartöflum soðnum í saltvatni og sjóðið spergilkálsbrúska með síðustu 3-4 mínúturnar. Setjið kartöflublönduna í skál og smá smjör og nýmalaðan pipar saman við.


Monday, March 8, 2010

Ítalskar Biskottí

Þær eru rosa góðar þessar Biskottí-kökur. Uppskriftin er með próteinríku hveiti sem er mjög gott að nota. Það er auðveldara að eiga við deigið og áferðin verður svo flott. Þessar kökur eru ekki mjög sætar, mér finnast þær betri þannig en súkkulaðið bætir það síðan upp.

Biscotti kökur
24-26 stk.

300 g hveiti, ítalskt 00 eða brauðhveiti frá Kornax
120 g sykur
50 g 3 tegundir af hnetum, samtals 150 g
2 stór egg
1 eggjarauða
2 tsk. vanilludropar

150 g súkkulaði til að hjúpa með.

Hitið ofninn í 180°C eða 160°C á blæstri. Setjið öll þurrefni í skál og sláið eggin saman með vanillunni í annari. Blandið þessu saman og hnoðið í samfellt deig. Setjð bökunarpappír á ofnplötu og mótið hleif um 10x35 cm stóran. Það er gott að nota blauta fingur. Bakið hleifinn í 25-30 mín, hann á að vera bakaður í gegn. Setjið hann á skurðarbretti og skerið hann í þunnar sneiðar, rúmlega 1 cm þunnar. Raðið þeim á bökunarplötuna og bakið aftur í um 10-15 mín eða þar til þær eru farnar að taka lit. Bræðið súkkulaði og dýfið neðri helmingnum á kökunum í það. Látið kólna, gott að láta þær standa við glugga.

Wednesday, March 3, 2010

Sandkaka Sigríðar í Holti


Sandkakan hennar ömmu minnar er sú besta sem ég hef smakkað. Minningar um að sitja í hlýju eldhúsi maulandi nýbakaða kökuna eru dýrmætar. Í minningunni heyrðist alltaf svona "hviss" hljóð þegar bitið var í hana hún var svo safarík og full af eggjum. Einu sinni vorum við amma, sem bjó á Skólavörðustígnum, á leið í lautarferð og vorum að hlaða nestinu (sandkökunni) í skottið á Cortínunni. Við skruppum inn eftir einhverju sem vantaði og á meðan var nestinu stolið. Amma, þessi kjarnakvenmaður, tók á rás eftir þjófunum og náði þeim upp á Lokastíg, þar sem þeir voru byrjaðir að gæða sér á kökunni, gátu greinilega ekki hamið sig. Í barnsminni var þetta ægilegt og var oft rifjað upp síðar.
Amma skrifaði aldrei upp uppskriftina að þessari köku en ég lærði hana sem unglingur og hér er hún.

Sandkakan
250 g smjör, mjúkt
250 g sykur
5 egg
250 g hveiti, pilsbury´s
1/2 tsk. lyftiduft

Hitið ofninn í 175°C. Fóðrið botn og hliðar á stóru sandkökuformi með bökunarpappír og penslið inn í endana á forminu með olíu. Hrærið saman smjör og sykur þar til það er ljóst og létt. Bætið eggjum út í einu í einu og hrærið vel saman. Ef blandan skilur sig, sem gerist oft, er ráð að setja smávegis af hveitinu út í og hræra áfram. Sigtið hveiti og lyftiduft saman og bætið út í. Hrærið saman í 2-3 mín. Jafnið deiginu í formið og bakið kökuna í um klukkutíma. Fylgist með í lok bökunatímans og takið kökuna út þegar prjóni sem stungið er í hana er hreinn og kakan farin að losna í forminu. Passið að ofbaka ekki, það heyrist svona hvisshljóð í kökum sem eru í bakstri, það er best að taka formkökur út úr ofninum þegar þetta hljóð er nýhætt að heyrast.