Tuesday, April 27, 2010

Ferskt Kóríander

Ferskt kóríander er í miklu uppáhaldi. Það er eitt það besta ferska krydd sem ég get hugsað mér. Hnefafylli út á gott salat breytir salatinu í sælkerasalat. Þetta kóríander-pestó er gott út á bæði kjöt og fisk og er himneskt !!!! Það er best að kaupa ferskt kóríander í asíubúðunum, í Mai-Tai við Hlemm fá þær sendingu einu sinni í viku.

Kóríanderpestó

1 stórt búnt kóríander
1 aðeins minna búnt steinselja eða sleppa og nota bara risabúnt kóríander
50 g afhýddar möndlur
1 -2 hvítlauksrif
1/2 tsk maldonsalt
1 dl góð olía

Setjið allt nema olíu í matvinnsluvél og blandað vel saman. Hellið olíunni út í í mjórri bunu, látið vélina vinna á meðan og blandið sósunni vel saman. Þið getið líka hellt olíunni í 3 skvettum út í ef vélin er lokuð eins og litli blandarinn minn og skafið skálina að innan annars lagið svo allt blandist vel saman. Kælið í 1-4 klst. Geymist í um viku í ísskáp.

Monday, April 26, 2010

Noodle Station

Var á vappi um miðbæinn um helgina og sá að Noodle station,- staðurinn með góðu núðlurnar var búin að opna aftur. Er líklega búin að fá leyfið fyrir staðnum. Mér finnst þetta svo frábær núðlustaður, engin umgjörð bara góðar núðlur á sanngjörnu verði, ekki laust við að manni finnist maður vera kominn til útlanda.

Mæli með honum þessum, er á horninu á Skólavörðustíg og Klappastíg.

Tuesday, April 20, 2010

Súkkulaðikaka á sunnudegi

Þetta er alvöru súkkulaðikaka, ótrúlega bragðmikil og djúsí. Ég sá uppskriftina fyrst í bók eftir franska bakarann fræga Pierre Hermé en hef aðeins breytt henni að mínum smekk. Ef ykkur langar í alvöru súkkulaðiköku fyrir fullorðna sem passar líka með rauðvíni eftir matinn er þetta kakan. Bókin fæst á amazon.com

Súkkulaðiformkaka
100 g þurrkaðar apríkósur
150 g sykur
120 g marsípan
4 stór egg
180 g hveiti, pilsbury´s
40 g kakó
1/2 tsk. lyftiduft
150 g gott súkkulaði, saxað gróft
50 g sykrað engifer, saxað, fæst í heilsubúðum
1 1/2 dl mjólk
180 g smjör, brætt og kælt aðeins

Setjið apríkósur í skál og hellið sjóðandi vatni yfir þær, látið þær bíða í 5 mín. Sigtið þær, þerrið og klippið eða skerið í minni bita.
Hitið ofninn í 180°C, 165°C á blástur. Hrærið saman sykur, marsípan og egg þar til ljóst og loftkennt. Sigtið hveiti, kakó og lyftiduft saman. Blandið apríkósum, súkkulaði og engifer út í hveitiblönduna. Blandið þurrefnum ásamt mjólk og smjöri út í deigið og blandið saman með sleikju. Setjið smjörpappír í botn og með hliðum á stóru jólakökuformi (sjá mynd) og smyrjið endana á forminu með olíu. Hellið deiginu í formið og bakið kökuna neðst í ofni í um klukkutíma eða þar til deig festist ekki við prjón sem er stungið í kökuna miðja. Það er líka gott ráð að "hlusta" á kökuna í lok bökunartímans. Um leið og "hviss" hljóð er hætt að heyrast er kakan bökuð.

Thursday, April 15, 2010

Þessi bók er nýkomin út og er á óskalistanum. Hún er nýjasta bókin hans David Lebovitz
sælkerans sem sneri baki við lífinu sem desertkokkur á fínu veitingahúsi og settist að í París. Hann er með skemmtilegt blogg, uppskriftirnar hans eru skotheldar. Langar í þessa köku.......Mmmmm.........

Wednesday, April 14, 2010

Pakkasósur "nei takk"

Ég vil ekki vera með leiðindi en....mér finnast pakkasósur ekki spennandi, lítið annað en lím og aukaefni og nota þær helst ekki. Með flösku af óáfengu hvítvíni (sem kostar eins og 3 sósupakkar og endist lengi), gróft sinnep, hunang og sýrðan rjóma að vopni er hægt að gera frábæra sósu á grísa eða kálfakjötsneið og kjúkling. Safinn af kjötinu blandast í sósuna og gerir hana ótrúlega góða.


Kjúklingabringur með sósu

fyrir 2-3

2 kjúklingabringur, má líka nota grísa eða kálfakjötsneiðar
2 msk. olía
1 tsk. smjör
1/2 -3/4 dl hvítvín, má vera óáfengt
1 kúfuð tsk. gróft sinnep
1 tsk. hunang
100 g sýrður rjómi
1/2 tsk. estragon eða 1 -2 tsk. estragon, (má sleppa)

Skerið hverja kjúklingabringu í tvær steikur með því að leggja lófan ofan á hana og skera þvert í gegnum hana með góðum hníf. Hitið olíu og smjör á pönnu og steikið bringusteikurnar á báðum hliðum þar til þær eru gegnumsteiktar, saltið og piprið. Lækkið aðeins hitann og hellið hvítvíni á pönnuna, bætið sinnepi og hunangi út í og látið malla vel saman. Bætið sýrðum rjóma og estragon út í og hrærið vel saman og látið sjóða 1 mín. Gott að borða ofnsteikt grænmeti með.

Friday, April 9, 2010

Helgarbakstur
Kardimommufræ eru frábært krydd og breytir venjulegu sætabrauðsdeigi í eitthvað alveg nýtt. Það er best að kaupa heil hylki, þau fást í flestum verslunum og örugglega í heilsubúðum og ódýrust í Asíubúðunum. Til að ná fræjunum innan úr er best að setja þau á bretti og merja þau með t.d.hnífsblaði, setja fræin í mortel eða plastpoka og merja vel. Ilmurinn er ómótstæðilegur Ummm..........

Kanelsnúðar

250 g hveiti
120 g smjör, kalt í teningum
1 dl mjólk, fingurvolg
2 tsk. þurrger
3 msk. sykur
1/2 tsk. salt
1/2 -1 tsk. kardimommufræ, steytt

fylling:

100 g marsípan
60 g smjör
3 msk. sykur
2 tsk. kanill

Myljið hveiti og smjör saman. Bætið öllu öðru út í og hnoðið samfellt deig. Setjið deigið í olíuborna skál og látið hefast á hlýjum stað í um 30 mín. Hitið ofninn í 200°C. Fletjið deigið út í ferning um 40x20 cm. Rífið marsípanið og smjörið jafnt yfir deigið. Blandið sykri og kanel saman og stráið yfir líka. Rúllið lengjunni upp eftir lengri hliðinni og skerið hana í 12-14 bita. Raðið þeim á bökunaplötu klædda smjörpappír og látið hefast aftur undir klút í 30 mín. Penslið með mjólk eða eggi og dustið meiri kanel yfir ef þið viljið. Bakið snúðana í um 20 mín eða þar til þeir eru fallega gullnir og girnilegir.

Thursday, April 1, 2010

Kjúklingur á páskum
Það er endalaust hægt að gera góða rétti úr kjúklingabringum. Þessi réttur varð til þegar fullt var til af estragon í ísskápnum og var búin að gera alla uppáhaldsréttina úr þessu frábæra og sérstaka kryddi. Ofan á í staðin fyrir paprikurnar má setja hálfsólþurrkaða tómata frá Sacla, þegar þeir fást eða gott kryddmauk eins og klettakáls, basil eða kóríanderpestó. Eða bara kíkja í búrið eða ísskápinn og láta ímyndunaraflið leiða sig áfram...........


Estragonkjúklingur
fyrir 4

3-4 kjúklingabringur
2 msk. olía
1-2 msk. estragon eða 1-2 tsk. þurrkað
50-80 g smjör
salt og nýmalaður pipar

1/2 krukka paprikur í olíu, sigtað
50 g parmaostur
1-2 msk. ferskt estragon eða 1-2 tsk. þurrkað


Hitið ofninn í 200°C. Leggið lófann ofan á kjúklingabringurnar og skerið þær í tvo hluta. Leggið hverja kjötsneið á plast, leggið annað plast yfir og fletjið bringuna aðeins út með kefli eða flösku svo hún verði stærri um sig og flatari. Steikið kjötið á báðum hliðum í olíunni og leggið í ofnfast fat. Leysið djúsið upp á pönnunni með því að bræða smjör og setja estragon út í, hellið þessu í fatið, hreinsið það sem eftir er á pönunni með 1/2 dl vatni og hellið líka í fatið. Saltið og piprið kjötið. Setjið ferskt estragon, papriku eða tómat ofan á. Rífið ostinn og stráið yfir. Bakið í ofni þar til ðsturinn er bráðinn. Berið fram með ofnsteiktu grænmeti eða fersku salati