Wednesday, June 30, 2010

Eplakaka á rigningardegi

Það er alveg nauðsynlegt að kunna eina uppskrift að góðri eplaköku. Nýbökuð eplakaka getur gert kraftaverk. Hörðustu karlmenni geta breyst í mjúka bangsa, bara við kökuilminn. Þessi uppskrift er frekar hefðbundin og kemur frá vinkonu hennar mömmu minnar. Ég kaupi 1/2 líter af rjóma, nota smávegis í deigið og léttþeyti restina. Það þarf mikinn rjóma með svona góðri köku.

Hnetueplakaka

125 g smjör
1 1/2 dl sykur
2 egg
rifið hýði af einni sítrónu
2 1/2 dl hveiti
1 tsk. lyftiduft
2-3 msk. rjómi
2-3 epli, td. jónagold eða græn

2 msk. sykur
1 tsk. kanill
50 g valhnetur eða pecanhnetur

Stillið ofninn á 180°C. Hrærið smjör og sykur saman. Bætið eggjum út í einu í einu og síðan allt eftir röðinni. Flysjið eplin og skerið í þykka báta. Setjið deigið í 24-26 cm smurt form. Raðið eplum ofan á. Blandið saman sykri og kanel og sáldrið sykrinum og hnetum ofan á. Bakið í 35-40 mín. Berið fram með léttþeyttum rjóma bragðbættum með vanillusykri.

Monday, June 7, 2010

Tómataveisla

Það er svo gaman að koma í Frú Laugu á Laugalæk þessa dagana, búðin er sneisafull af allskonar tómötum. Rauðir, gulir, grænir og allt þar á milli. Það er frábært að baka litlu tómatana í ofni og nota út á salöt, í pasta eða setja þá í krukku og hella smá olíu yfir og geyma í ísskáp. Svona bakaðir eru þeir ótrúlega bragðmiklir.
Pasta með ofnþurrkuðum tómötum
fyrir 4

600 g litlir tómatar, konfekt, heilsu eða aðrir
olía
maldon-salt og nýmalaður pipar
nokkrir kvistir timian eða oreganó

200-300 g pasta, Chicco eða Jamie Oliver er í mínu uppáhaldi

2-3 msk. olía
2-3 hvítlauksrif, sneidd
4-6 sneiðar parmaskinka eða önnur góð hráskinka, skorin í bita

Hitið ofninn í 180°C. Skerið tómatana í tvennt og raðið þeim á bökunarpappír á ofnplötu. Penslið með olíu og malið salt og pipar ofan á. Bakið í um 20-30 mín eða þar til þeir eru vel bakaðir. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkanum.Steikið hvítlauk og parmaskinku í 2-3 msk. olíu. Takið 1 dl pastavatn frá og sigtið síðan pastað. Blandið pasta, tómötum, steiktum hvítlauk og skinku saman í stórri skál og blandið nokkrum skvettum af pastavatninu saman við. Blandið vel saman, setjið á diska og rífið parmaost yfir.