Monday, May 31, 2010

Súkkulaðikaka sem tekur sig alvarlega.

Dökk mjúk súkkulaðikaka, lekandi súkkulaði......ummmm.....hvað er betra á rigningardegi þegar rignir meira að segja ösku. Þetta er stór og drjúg kaka, er með formkökudellu þessa dagana.



Alvöru súkkulaðiformkaka

250 g smjör, mjúkt
250 g sykur
3 egg, stór
2 eggjarauður
320 g hveiti
30 g kakó
1 1/2 tsk. lyftiduft
1 1/2 dl mjólk
2 tsk. vanilludropar
100 g súkkulaði, saxað gróft
100 g súkkulaði, brætt til að smyrja ofan á

Hitið ofninn í 175°C. Hrærið saman smjör og sykur í 5 mín. Bætið eggjum út í einu í einu. Bætið rauðunum í og hrærið smástund áfram. Sigtið hveiti, kakó og lyftiduft saman og bætið í deigið ásamt mjólk og vanillu. blandið vel saman. Smyrjið botn og hliðar á 30 cm jólakökuform með olíu eða smjöri. Jafnið deiginu í formið. Bakið kökuna, á neðstu rim í ofninum,í um klukkutíma. Kælið aðeins og takið síðan varlega úr forminu. Smyrjið kökuna með súkkulaði þegar hún hefur kólnað aðeins.

Monday, May 24, 2010

Salat á sumardegi

Það er algengt að sjá þetta salat á matseðlum léttari veitinga og kaffihúsa enda uppáhald margra. Heimalagaðir brauðteningar eru málið í þessu salati og Romanie-salatið stökka sem hefur fengist undanfarið í Bónus og víðar. Það er fátt betra en gott kjúklingasalat og ískalt hvítvín eða sódavatn á fallegum sumardegi eins og núna.


Cesar-salat
fyrir 4

1/2 snittubrauð, ciabatta-brauð eða 6 sneiðar fínt ítalskt brauð
3 msk. ólífuolía
maldon salt
steinselja
smá olía
2-3 kjúklingabringur
1-2 stk. Romanie-salat, fer eftir stærð
parmaostur í flögum
steinselja, söxuð

salatsósa:

1 hvítlauksrif, marið
1/2 tsk. maldonsalt
5 msk. mæjones
1 msk. hvítvínsedik
1 dl parmaostur, rifinn

Hitið ofninn í 200°C. Setjið örk af bökunarpappír í ofnskúffu. Skerið brauðið í teninga og setjið á pappírinn ásamt 3 msk. olíu, maldonsalti og steinselju, blandið þessu saman. Bakið brauðið þar til það er gullið og girnilegt. Kljúfið kjúklingabringurnar í tvo hluta og steikið kjúklingabringurnar í smá olíu, látið kólna aðeins á bretti. Hrærið allt saman sem á að fara í salatsósuna, þynnið hana með smá vatni. Skolið salatið og setjið í skál. Brytjið kjúklinginn niður og setjið út á salatið ásamt brauðteningum. Hellið salatsósuni út á og blandið létt saman. Sáldrið parmaostaflögum og saxaðri steinselju út á salatið. Nammi-namm !!!!!

Thursday, May 13, 2010

Afturhvarf til fortíðar

Vinkona mín fór að segja mér frá bestu brúnköku sem hún hafði nýlega smakkað. Kakan fékk hana til að hugsa um æskuna, sveitina og einhverjar frænkur sem hún hafði greinilega einhverja matar- og kökuást á. Ég á sjálf góðar minningar um svona köku en hef ekki bakað hana í mörg ár. Mér datt í hug að sjá hvort ég fyndi uppskrift í bók eftir Helgu Sigurðardóttir. Bókin heitir Bökun í heimahúsum og er gefin út 1930. Að sjálfsögðu var hún þar, og frábær uppskrift. Ég minnkaði sykurinn aðeins og breytti uppskriftinni örlítið að mínum smekk en finnst meiriháttar gott að setja sítrónubörk í hana. Nýbökuð með ískaldri léttmjólk sló hún algjörlega í gegn.


Brúnkaka

250 g smjör
320 g púðursykur
2 egg
500 g hveiti
1 full tsk. kanell
1 full tsk. negull
1 tsk. matarsódi
100 g kúrenur
rifið hýði af 1 sítrónu
2 1/2 dl mjólk

Hitið ofninn í 170°C. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og loftkennt, það skiptir miklu máli í formkökubakstri að hræra smjör og sykur mjög vel saman. Bætið eggjum út í einu í einu, hrærið vel saman. Sigtið hveiti, kanel, negul og matarsóda saman og bætið út í ásamt öllu öðru sem er í uppskriftinni. Hrærið saman þar til allt er vel samlagað. Smyrjið 30 cm langt jólakökuform með smjöri eða olíu og jafnið deiginu í formið. Bakið kökuna í um það bil klukkutíma. Kakan er tilbúin þegar prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn út.

Friday, May 7, 2010


Góðar ólífur
Þessar ólífur eru nýjasta sælkerauppgvötunin. Það er kominn ólífubar í Hagkaup í Kringluna og hægt að velja um nokkrar sortir. Eftir nokkrar ferðir og nákvæma smökkun komu tvær tegundir lang-lang best út. Þessar á myndinni sem eru með jalapeno-pipar innan í og önnur tegund af grænum sem eru með sítrónuberki innan í, nammi-namm......

Þetta er ekki það ódýrasta í bænum en það hefur ekki verið auðvelt að fá góðar ólífur undanfarið og góðar ólífur eru bara svo góðar.

Monday, May 3, 2010

Afmæliskakan ! Þetta er súkkulaðikakan sem var og er bökuð fyrir öll afmæli í fjölskyldunni. Ég hef notað sömu uppskriftina, sem var í smjörlíkisbækling sem mamma mín átti, síðan ég byrjaði að baka alvöru súkkulaðiköku með kremi. Það rifjast oft upp þegar ég set kremið á kökuna hvað mér þótti erfitt að gera það fyrst og ánægjan þegar það heppnaðist vel. Núna er sonur minn búin að halda upp á afmæli eins árs sonar síns og notaði að að sjálfsögðu sömu uppskrift, gaman þegar uppskriftir ganga til næstu kynslóðar.
Kremið á kökuna er ljóst súkkulaðikrem og það finnst öllum algjört "must" að hafa það.



Afmæliskaka
Ef þið viljið hafa kremið ljóst eins og hér verður að nota smjörlíki. Kremið er líka gott með smjöri er verður dekkra og þykkara. Í upprunalegu uppskriftinni eru notuð amerísk bollamál.
Botnar:
2 bollar hveiti
1 1/2 bolli sykur
4 msk. dökkt kakó
130 g smjör, mjúkt
1 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1 bolli mjólk
2 stór egg eða 3 minni

Hitið ofninn í 175°C, 165 á blástur. Setjið allt nema egg í hrærivélarskál og hrærið í 2 mín. Bætið eggjum út í, einu í einu og hrærið aðrar 2 mín. Setjið deigið í 2 smurð 26 cm breið kringlótt kökuform og bakið botnana í 25 mín ( um 20 á blæstri) kakan er tilbúin þegar hún losnar frá börmunum og prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn út. Kælið kökubotnana.

Krem:
300 g flórsykur
200 g smjörlíki
2 msk. vatn
3-4 msk. dökkt kakó
1 eggjarauða
1 tsk. vanilludropar

Sigtið flórsykur í hrærivélarskál. Takið 100 g af smjörlíkinu og setjið í pott með vatni og kakó þar til vel samlagað. Hellið út í flórsykurinn og hrærið vel saman. Bætið restinni af smjörlíkinu út í litlum bitum og hrærið þar til kalt. Kremið er fyrst dökkt en verður ljósara þegar það kólnar. Bætið eggjarauðu og vanillu út í. Smyrjið kreminu á kökuna og skreytið hana með nammi eða kókosmjöli.