Tuesday, September 28, 2010

Fyrstu skrefinn í bakstri
Þetta er uppskrift sem Jóhönna vinkona mín gaf mér fyrir mörgum árum síðan. Við bökuðum hana stundum saman þegar við vorum unglingsstelpur. Þetta er algjör nammikaka karamellan djúsí og lekur út um allt............
Jóhönnukaka

240 g smjör
150 g sykur
4 egg
150 g hveiti
2 tsk. lyftiduft

Hitið ofninn í 175°C. Hrærið smjör og sykur mjög vel saman eða þar til ljóst og kremkennt. Bætið eggjum út í einu í einu og hrærið vel saman. Bætið hveiti og lyftidufti út í og blandið vel. Jafnid deiginu í smurt form og bakð kökuna í 50-60 mín. Látið kökuna kólna aðeins, losið hana úr forminu og hvolfið á disk.

Karamellukrem:

2 dl rjómi
2 msk. síróp
120 g sykur
30 g smjör
1 tsk. vanilludropar

Sjóðið rjóma, síróp og sykur saman við vægan hita þar til það verður karamellukennt, það tekur um 8-10 mín. Bætið smjöri og vanillu út í. Hellið karamellunni yfir kökuna.

Tuesday, September 21, 2010

Sardínuveisla
Ég rakst á mynd af sardínuúrvali á netinu. Þessar með virgin-ólífuolíunni og sítrónu eru mitt uppáhald og ég fjárfesti alltaf í nokkrum dósum þegar ég fer til útlanda ( sem er nú því miður ekki oft þessa dagana). Það væri gaman að geta keypt svona góðar sardínur í dós hér á landi (tala kannski við þau í Laugu). Ristað súrdeigsbrauð, svona góðar sardínur og hvítvínsglas .......engin smá veisla.

Monday, September 13, 2010

Súkkulaðikaka án samviskubits ?

Við erum mjög veik fyrir súkkulaði og súkkulaðikökum á mínu heimili (vægt til orða tekið). Mig grunar að það eigi við um ansi marga. Þessi uppskrift kom til í ljúfri tilraun til að leyfa sér súkkulaðiköku en hafa hana aðeins hollari og næringaríkari. Ég hef bakað hana margoft og hún er sjaldnast eins því úrvalið af þurrkuðu ávöxtunum er mismunandi í skápunum mínum. Trönuber, apríkósur, ljósar rúsínur, döðlur, epli, perur, mangó eða gráfíkjur er til dæmis gott að nota. 2-3 tegundir er gott. Trönuber passa rosa vel með súkkulaði. Stundum set ég 1-2 msk. sultað engifer sem fæst í heilsubúðum, það er mjög gott. ....djúsí súkkulaðikaka sem er allra uppáhald.


Hollari súkkulaðikaka


4 stór egg eða 5 lítil
80 g hrásykur
40 g kókosmjöl
60 g fínt spelt
1/2 tsk. lyftiduft
200 g þurrkaðir ávextir og/eða hnetur
100 g 70% súkkulaði, saxað gróft
40 g smjör, mjúkt

Hitið ofninn í 170°C. Hrærið egg og sykur saman þar til það er ljóst og loftkennt. Blandið kókosmjöli, spelti og lyftidufti saman í skál. Saxið eða klippið ávextina niður og saxið hnetur gróft ( ef þið notið þær). Blandið þessu ásamt súkkulaðinu út í hveitiblönduna. Blandið hveitinu með ávöxtunum út í eggjahræruna og blandið saman með sleikju. Passið að hafa smjörið vel mjúkt, næstum bráðið og bætið því út í deigið. Það fellur aðeins en það er allt í lagi, það gerir hana klesstari. Setjið smjörpappír í botninn á 24 cm smelluformi og hellið deiginu í það. Bakið kökuna í 15-20 mín. Hún er tilbúin þegar hættir að "hvissa" í henni. Losið um barmana á kökunni og takið hana úr forminu, látið hana kólna aðeins á tertudisk.

Krem:

100 g súkkulaði 70 %
2 msk. smjör
1 msk. hlynsíróp

Bræðið allt saman í vatnsbaði eða í örbylgjuofni hellið yfir kökuna.

Sunday, September 5, 2010

Franskt er það !

Þessi karamellubúðingur er í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Við kynntumst þessum flauelsmjúka og sæta búðing þegar við bjuggum í Frakklandi. Þar í landi er hann jafnalgengur á eftirréttaseðli á veitingahúsum og súkkulaðikaka hér á landi ( sem sagt... alltaf). Í stórmörkuðum þar er síðan hægt að fá allskonar útgáfur.
En.......það jafnast ekkert á við heimalagaðann........að sjálfsögðu. Það má gera búðinginn í litlum formum til dæmis hvítu leirformunum sem eru oft notuð undir mjúka súkkulaðiköku eða í einu djúpu formi leir eða ál um 18-20 cm í ummál. Uppskriftin virkar löng en eftir að hafa gert búðinginn einu sinni er þetta með fljótlegri eftirréttum og hægt að hafa formin tilbúin í ísskáp eða hvolfa honum á diska eða fat og hafa hann tilbúinn þannig. Karamellubúðingurinn er bestur sama dag og hann er lagaður.




Franskur karamellubúðingur (Creme caramel)
fyrir 6-8

200 g sykur
6 dl mjólk
80 g sykur
1 vanillustöng
3 egg
3 eggjarauður
1 tsk. vanilludropar

Hitið ofninn í 180°C (170°C blástur). Setjið upp ketil af vatni til suðu ( til að hella í ofnskúffuna). Hellið sykrinum á pönnu og hitið hann þar til hann verður dökkbrún og fljótandi. Hellið sykrinum í ofnföst form annaðhvort 6-8 lítil eða eitt sem er djúpt og um það bil 20 cm að ummáli. Notið pottaleppa eða handska og veltið forminu þannig að sykurinn nái upp með formunum til hálfs.
Skerið vanillustöngina í tvennt eftir endilöngu og skafið kornin úr. Hitið mjólkina að suðu með kornum úr vanillustönginni og stönginni sjálfri, látið þetta standa með lokið á pottinum í 10 mín. Setjið egg, eggjarauður og sykur í skál og þeytið létt saman. Hellið mjólkinni út í í gegn um sigti og þeytið þar til samlagað. Bætið vanilludropum út í og hellið blöndunni í sykurklæddu formin.
Finnið ofnskúffu eða fat sem rúmar formin vel og raðið formunum í það. Setjið formin í ofninn og hellið vatni í ofnskúffuna svo nái upp á formin til hálfs. Bakið í 5 mínútur og lækki þá hitann í 160°C (150°C blástur). Bakið í um það bil 40 mínútur eða þar til búðingurinn er stífur viðkomu. Kælið vel og hvolfið síðan á diska. Það er gott að bera rjóma með og þá er gott að hella smá af karamellunni sem kemur af búðingnum út í hann.