Saturday, October 22, 2011

"Arros Con Pollo" Hrísgrjón með kjúkling

Ég elska svona mat, svona virkilegan kósímat. Minn veikleiki er Risottó og þetta er ekki ósvipaður réttur. Ég hef notað þessa uppskrift þegar ég hef gert Paellu en haft færri kjúklingabita. Þetta er í raun mjög svipað Paellu nema þá bætið maður fisk og skelfisk með. Spánska nafnið á réttinum er bara dásamlegt, borið fram "arros kon pojo" með áherslu á r-in.


"Arros Con Pollo" Hrísgrjón með kjúkling
fyrir 4-6

Í þessum spánska rétti er gott að nota stóra og djúpa pönnu. Ég hef eldar þennan rétt alloft og stundum er eins og vökvamagnið sé og mikið en stundum passlegt. Ég held að þetta sé af því að kjúklingurinn er með mismikið vökvamagn sem skilar sér í grjónin við suðu ( salt og sykursprautað) Mér finnst þó betra að hafa meina en minna af vatni og láta rjúka af pönnunni án þess að hafa lok í restina af suðutímanum.

8 -10 kjúklingabitar, ég nota oftast efri læri
3 msk. olía
1 dl hveiti
salt og pipar

1 laukur, saxaður
2-3 hvítlauksrif söxuð
5 dl Aborio hrísgrjón, þessi stuttu
1 tsk. paprika
1/4 tsk chiliflögur (má sleppa)
1/4 tsk. saffran (má sleppa)
7 1/2 dl vatn
1 kjúklingasoðteningur
1 dós tómatar, saxaðir
1 msk. tómatpúra (má sleppa)

Veltið kjúklingabitunum upp úr hveiti og brúnið þá á báðum hliðum. Ég krydda þá oft með einhverju eins og papriku eða chili eða góðu kjúklingakryddi, bara einhverju sem ég á í skúffunni. Setjið bitana á disk og geymið. Fjarlægið fituna af pönnunni en skiljið 2-3 msk eftir til að steikja laukinn upp úr. Steikið laukinn þar til hann fer að verða gullinn, bætið hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið hrísgrjónum út í ásamt kryddi og steikið í 2-4 mín. Hellið nú vatninu , kjúklingasoðteningnum, tómötum ásamt safanum úr dósinni og tómatpúrrunni á pönnuna, hrærið allt vel saman, saltið og piprið. Raðið kjúklingabitunum ofan á, setjið lok eða álpappír ofan á pönnuna og látið þetta malla við meðalhita í 20-25 mín. Þið getið smakkar grjónin og ef þau eru með harðan kjarna þurfa þau að malla lengur. Takið lokið af og ef enn er mikill vökvi í pottinum er gott að látið rjúka úr honum í 5 mín. Ef þið viljið fá svolítið grillaða skorpu á kjúllan er sniðugt að setja pönnuna aðeins undir heitt grill, ég geri það stundum.

Sunday, October 16, 2011

Frábærar í frystinn

Þessar grófu bollur eru góðar að grípa í í nestispakkann. Þær eru hollar og treftaríkar og þiðna á 10 mínútum á eldhúsborðinu á meðan maður er að taka sig til í vinnu eða skóla.


Hollar bollur
ca. 14 stk.

5 dl volgt vatn
2 tsk. þurrger
1 tsk. salt
1-2 tsk. hlynsíróp eða hrásykur
600 g gróft mjöl, t.d. blanda af grófu og fínu spelti eða fínt spelt og heilhveiti
1 dl graskersfræ
1 dl sólblómafræ

Setjið allt í hrærivélarskál og hnoðið með hnoðaranum í 5-8 mín. Það getur verið mimunandi hvað deigið er blautt eftir því hvaða mjöltegundir þið notið en deigið á að vera seigt og klístrað. bætið aðeins við af mjöli ef það er of lint. Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið á hlýjum stað í klukkutíma eða yfir nótt í ísskáp. Setjið bökunarpappír á 2 ofnplötur og mótið bollur með því að setja kúfulla matskeið af deigi með góðu millibili á plöturnar, um 9 bollur á hverja plötu. Hitið ofninn í 230°C eða 210°C á blástur. Látið bollurnar hefast á meðan ofninn er að hitna, aðeins lengur ef þið hafið látið deigið hefast fyrst í ísskáp.
Bakið síðan bollurnar í 20 mín. Frábærar í frystinn.

Monday, October 10, 2011

Kjúklingaréttur leikarans Bob Hoskins

Kjúklingaréttir eru vinsælir á heimilinu. Hér er uppskrift að einum slíkum sem ég fékk hjá vinkonu minni, Guðný Þórarinsdóttur prentsmið. Hún er mikil gúrmekona og eldar mjög góðan mat. Hún sá um þátt í Gestgjafanum þar sem hún var með kjúklingarétti og þessi var einn af þeim. Þetta er mikill kósímatur, allt í einum potti, meiriháttar gott.


Bob Hoskins Kjúklingaréttur
fyrir 4

1 heill hvítlaukur
1 msk. Maldonsalt
1 stór kjúklingur, hlutaður niður eða samsvarandi magn af kjúklingabitum
2 msk. olía
12 meðalstórar kartöflur, skornar í 4 bita og forsoðnar í 10 mín
4 stórir tómatar, skornir í bita
2 dl góðar svartar ólífur (fást í Tyrknesku búðinni í Síðumúla)
1 msk. nýmalaður svartur pipar
nokkrar greinar ferskt rósmarin eða 2-3 tsk. þurrkað
3 msk ólífuolía

Hitið ofninn í 190°. Hlutið hvítlaukinn niður, hann á að vera í hýðinu, og setjið salt yfir hann á meðan annað er tekið til í réttinn. Brúnið kjúklingabitana fallega í olíu. Setjið kartöflur, kjúkling, ólífur, tómata og hvítlauksrif lagskipt í ofnfast fat eða pott. Hellið ólífuolíu yfir allt og stráið rósmarin yfir. Setjið lok eða álpappír yfir pottinn og bakið þetta í 30 mín. Takið lokið af og bakið áfram í 10-15 mín í viðbót.


Tuesday, October 4, 2011

Enskar skonsur á morgunverðarborðið

Þær bráðna í munninum þessar ensku skonsur. Ég smakkaði þær fyrst hjá syni mínum, sem er áhugasamur bakari, og mér fannst þær frábærar. Hann skoðar oft vefsíðu sem heitir joy of baking. Þar er mikið af góðum uppskriftum og kennslumyndböndum meðal annars af því hvernig á að gera þessar skonsur. Lykilatriði er að leyfa smjörinu í þeim að verða svolítið grófkornótt ekki blanda þar til það verður mjölkennt og líka að hnoða þær ekki of mikið því þá missa þær léttleikann og verða seigar.


Enskar skonsur (örlítið breytt útgáfa frá vefsíðunni)

260 g hveiti
40-50 g sykur
2 tsk. lyftiduft
80 g smjör, kalt, í litlum teningum
1 egg
1 tsk. vanilludropar
1/2 dl rjómi
3/4 dl mjólk

mjólk til að pensla skonsurnar með

Hitið ofninn í 190°C, 175°C á blástur. Setjið hveiti, sykur og lyftiduft í matvinnsluvél, látið vélina ganga í 1/2 -1 mín til að allt blandist saman. Setjið smjör út í og látið vélina ganga þar til smjörið hefur blandast vel saman við en þó þannig að það sé á stærð við smáar baunir, setjið blönduna í djúpa skál. Blandið eggi, rjóma, mjólk og vanilludropum saman í aðra skál. Hellið eggja/mjólkurblöndunni út í þurrefnin og blandið öllu saman með sleikju þar til deigið er samlagað. Hnoðið létt saman, ekki hnoða of mikið, og fletjið deigið létt út með flötum lófum þannig að það verði 1 1/2 sm að þykkt, notið hveiti til að deigið festist ekki við borðið. Stingið úr kringlóttar skonsur með formi eða glasi sem er um 5 cm í þvermál, hnoðið afskurðinn aftur og mótið skonsur úr öllu deiginu. Raðið skonsunum á bökunarpappír á ofnplötu, penslið ofan á með mjólk. Bakið í 15 -18 mín í miðjum ofni. Kælið á rist. Bestar nýbakaðar með léttum rjómaosti eða rjóma og sultu.