Wednesday, December 28, 2011

Jólalegt rauðkál

Heimalagað rauðkál á lítið skylt við það sem er í krukkunum en það á svo sem við um flest það sem er lagað heima frá grunni. Það er mjög fallegt að strá granateplakjörnum ofan á rauðkálið til að gera það ennþá jólalegra.


Heimalagað rauðkál

1 rauðkálshaus, u.þ.bl. 800 g
2 msk smjör eða olía
1 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar
4-5 negulnaglar
1 lítið lárviðarlauf
3-4 msk. rauðvínsedik eða annað gott edik
1/2 dl vatn
1/2 - 1 dl rauðvín, rauðrófusafi eða Ribenasaft
1-2 msk. púðursykur

Skerið rauðkálshausinn í 4 hluta og hreinsið stöngulinn í miðjunni frá, sneiðið fínt niður. Steikið rauðkálið í smjöri eða olíu í 4-6 mín. Bætið öllu út í og sjóðið með lok á pottinum í 20 - 30 mín. Bætið meira vatni í ef það fer að verða of þurrt. Geymist í viku í kæliskáp. Gott að hita aðeins áður en borið fram.

Thursday, December 22, 2011


Jólin á næsta leyti

Hér er uppskrift að fyllingu í kalkún. Ég fékk þessa uppskrift hjá mömmu sem notaði alltaf þessa fyllingu í kalkúninn en uppskriftin er upprunalega úr bækling frá Pottagöldrum. Ég er búin að gera nokkrar tilraunir mað fyllingar en hefur alltaf fundist þessi einföld og mjög góð.

Kalkúnafylling

125 g smjör
2-3 laukar
1 grænt epli
100 g skinka
100 g beikon
1 stöngull af sellerí
1 stk fransbrauð
75 g furuhnetur
1/2 tsk. timian
1-2 msk. kalkúnakrydd
1/2 tsk. nýmalaður pipar
2 egg
4 msk. rauðvín, mjólk eða kalkúnasoð af innmatnum
innmaturinn af fuglinum og hálsinn eða 200-250 g kjúklingalifur, soðið í 20 mín
(soð notað í sósu og innmatur í fyllinguna)
salt eftir smekk

Saxið lauk, epli, skinku, beikon og sellerí smátt niður. Ristið furuhneturnar á heitri pönnu. Takið skorpuna af brauðinu og skerið brauðið í teninga. Bræðið smjörið og steikið laukinn þar til hann verður mjúkur. Bætið kryddi út í og látið brúnast smá stund saman. Blandið öllu saman við og bragðbætið með salti og pipar. Bætið soðnum smátt söxuðum innmat eða soðinni kjúklingalifur saman vuð. Setjið hluta inn í kalkúninn og afganfinn í form og bakið við meðalhita í klukkutíma.

Wednesday, December 14, 2011

Partýstemming !

Þessir snúðar eru fastir liðir í öllum smáréttaveislum á heimilinu. Fljótlegir að laga og ótrúlega góðir. Það má baka þá og frysta. Hita síðan upp í ofnskúffu í 130-140°C heitum ofni í 10-15 mín. Fílódeig eða blaðdeig er í miklu uppáhaldi hjá mér því það er svo fljótlegt og þægilegt að vinna með það. Gerði fílódeigsþátt í klúbbablað Gestgjafans á þessu ári þar sem má finna margar sniðugar hugmyndir.


Fílósnúðar
ca. 28-30 stk.

2-3 msk. olía
1 laukur, smátt saxaður
8-10 stilkar vorlaukur, saxaður
200-250 g ostur, rifinn má vera hvað sem er
1 krukka paprika í olíu, olían sigtuð frá og paprikan skorin í bita
2 msk. fersk steinselja
1 pakki fílódeig, afþýtt
50 - 60 g smjör

Hitið ofninn í 200°C eða 185°C á blástur. Steikið báðar tegundir af lauk í olíu á pönnu. setjið í skál og bætið ost, papriku og steinselju. Smakkið blönduna til með salti og pipar. Setjið 3 blöð af fílódeigi á borðið og smyrjið deigblöðin með smjöri á milli lagana. Breiðið helmingnun af fyllingunni á efsta lagið af deiginu. Rúllið deiginu upp með fyllingunni innan í, rúllið deiginu á lengri hliðinni. Skerið rúlluna í 14 - 16 bita, raðið þeim með sárið upp á bökunarplötu klædda með bökunarpappír. Farið eins að við önnur 3 blöðin. Setjið e.t.v. meira af osti ofan á hvern snúð. Bakið í miðjum ofni í 15 mín eða þar til snúðarnir eru orðnir gullnir og girnilegir.