Friday, March 25, 2011

Er vorið að koma ?

Þetta girnilega salat er alveg til þess fallið að bræða hjarta elskunnar þinnar og öll höfum við löngun til þess að dekra við hann eða hana. Nú þegar vorið er á næsta leiti, jú jú það er að koma, er góð stemming í því að hafa þetta djúsí salat í helgarmatinn.



Salat með lambafille
fyrir 2

1/2 eggaldin, skorið í fingurþykkar sneiðar
3 msk. olía
300 g lambafille, 1 stórt eða tvö minni
1 poki blandað salat, gjarnan með spínati og klettakáli saman við
3 msk. furuhnetur, þurrristaðar (nb. ekki kúlulaga heldur ílangar td. frá Náttúru)
1 -2 dl sólkysstir tómatar (frá Ítalía)
1/2 granatepli, kjarnar úr því (má sleppa)
6 msk. góð olía
2 msk hindberjaedik eða balsamsdik
Maldonsalt og nýmalaður pipar


Hitið ofninn í 180°C. Steikið eggaldinsneiðarnar á báðum hliðum í olíu, Geymið á disk. Það er smávandi að steikja eggaldin best er að nota teflohúðaða pönnu og pensla sneiðarnar með olíunni áður er þið byrjið að steikja, pensla svo aftur á miðri leið. Ekki bæta meiri og meiri olíu á pönnuna eins og virðist þurfa.
Steikið lambafille á pönnu með fituhliðina niður fyrst og síðan á öllum hliðum þar til þær eru brúnaðar. Setjið í ofninn í 10-15 mín, tími fer eftir stærð. Hrúgið salatinu á fat. Rífið eða skerið eggaldinsneiðar í tvennt og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið líka ofan á. Dreifið sólkysstum tómötum, furuhnetum og granateplakjörnum ofan á og hellið olíu og hindberjaediki yfir. Saltið og piprið. Berið fram með góðu brauði og rauðvíni.

Monday, March 21, 2011

Frábær eftirréttur með lítilli fyrirhöfn

Það er ekki mikil fyrirhöfn að gera þennan flotta og ljúffenga eftirrétt. Það er meira að segja minnsta mál að gera hann í sumarbústað.........og slá í gegn.


Tiramisu í glösum
fyrir 2

100 g rjómaostur
1 msk. hrásykur
1 eggjarauða
1 -1 1/2 dl rjómi, léttþeyttur
6 fingurkökur
3 msk. sterkt lagað kaffi
3 msk. kaffilíkjör
50 g súkkulaði 70%, saxað mjög fínt

Hrærið rjómaost þar til hann fer að verða mjúkur. Hrærið eggjarauðu og hrásykur þar til blandan verður létt og loftkennt. Blandið þessu saman með sleikju. Blandið næstum öllum rjómanum saman við, geymið smávegis til að skreyta með. Brjótið 3 fingurkökur í hvort glas. Hellið jafnt af kaffi og kaffilíkjör ofan á kökurnar, ef ég á ekki kaffi læt ég bara líkjör, nammi-namm. Bíðið smástund meðan vökvinn er að blandast kökunum. Hellið rjómakremi varlega ofan á kökurnar. Stráið vel af söxuðu súkkulaði ofan á rjómakremið. Skreytið með rjómatopp og smá af súkkulaði. Kælið.

Saturday, March 12, 2011

Helgarbaksturinn

Mamma mín var mikill sælkeri og var svolítið veik fyrir döðlubrauði. Hún prófaði sig áfram með nokkrar uppskriftir og fannst þessi koma best út. Þetta sætabrauð er mikið uppáhald á okkar heimili og er oft bakað.


Döðlubrauð

Hér er notað amerískt bollamál.

1 bolli púðursykur
1 1/2 bolli hveiti
1 msk. brætt smjör
2 bollar saxaðar döðlur
1 bolli saxaðar hnetur eða möndlur
1 bolli sjóðandi vatn
1 tsk. matarsódi
2 egg

Hitið ofninn í 170°C. Setjið allt í hrærivélaskál og hrærið saman í 3-5 mín. Setjið deigið í stórt smurt jólakökuform, líka gott að setja bökunarpappír meðfram hliðunum á forminu. Bakið brauðið í 50 mín. Athugið hvort það sé bakað með því að stinga prjóni í það. Ef hann kemur hreinn út er það bakað. Borðið smurt með smjöri.

Monday, March 7, 2011

Bolludagur !!

Skotheld uppskrift og góð ráð eru á blogginu síðan í fyrra, í dálkinum um bakstur. Myndina af þessum bollum tók Rakel Ósk http://rakelosk.com/ einn af okkar frábæru ljósmyndurum á Gestgjafanum.


Frábært, einn dagur á ári þar sem allir borða rjómabollur, góður siður. Vinkona mín sem á sykursjúka dóttir segir að maður eigi að borða fersk ber með sætindum. Berin eru ekki bara gómsæt heldur hjálpa líkamanum að vinna úr sykrinum. Gott að vita á bolludaginn.

Saturday, March 5, 2011

Vænt og grænt

Hér er annar réttur úr fallega graskerinu sem ég keypti um daginn.


Graskers eggjabaka
fyrir 4-6

2-3 msk. olía
600 g grasker í bitum, munnbitastærð
300 g kartöflur, í bitum, svipuð stærð
sjávarsalt og nýmalaður pipar
6 egg
1 paprika, skorin í litla bita eða 1 krukka papprikur í olíu, saxaðar
100 g spínat
100 g fetaostur
100 g rifinn ostur
1 tsk. sjávarsalt

olía til að smyrja formið með

Hitið ofninn í 180°C. Dreifið graskers og kartöflubitum á smjörpappír í ofnskúffu, veltið upp úr olíu, saltið og piprið. Bakið í um 25 mín. Sláið eggin létt saman í skál. Setjið allt út í skálina, grasker og kartöflur líka, og blandið saman. Smyrjið ofnfast form með olíu og hellið blöndunni í það. Bakið í 40 mín. Berið gott salat með.