Saturday, April 23, 2011

Gleðilega Páska !


Ég var með einhverjar hugmyndir um að gera bananabrauð úr þroskuðu banönunum sem ég átti en það var samstundis slegið út af borðinu af fjölskyldumeðlimum sem langaði ótrúlega í bananarúllutertu. Þessi rúlluterta er búin að vera í uppáhaldi í mörg ár. Uppskriftin er frá mömmu eins og svo margt annað sem er vinsælt á heimilinu en ég stækkaði uppskriftina svo hún passar í ofnskúffuna sem fyllir út í ofninn. Það tekst ekki alltaf jafn vel að fletta pappírnum af henni og oft verður smá kökuhúð eftir á pappírnum en þegar búið er að setja rjóma og banana ofan á og strá smá súkkulaði líka er hún alltaf falleg og girnileg.



Bananarúlluterta

fyrir 8

4 egg
160 g sykur
65 g kartöflumjöl
2 tsk. lyftiduft
3 msk. kakó
4 bananar
4 dl rjómi
20 g súkkulaði, saxað eða rifið gróft
sítrónusafi til að kreista yfir bananana

Hitið ofninn í 250°C, 220 á blástur. Þeytið egg og sykur mjög vel saman eða þar til það er létt og loftmikið. Blandið kartöflumjöli, lyftidufti og kakó saman og sigtið út í eggjamassann, blandið varlega saman með sleikju. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, smyrjið pappírinn með matarolíu. Hellið deiginu í formið og bakið kökuna í miðjum ofni í 4 -5 mín. Setjið örk af bökunarpappír á borðið, stráið svolitlum sykri á hann. Hvolfið kökunni á pappírinn, látið kólna smástund og flettið pappírnum síðan varlega af. Ef það reynist erfitt að ná pappírnum af er ráð að setja rakt viskustykki ofan á smástund og fletta kökkunni af pappírnum með hníf. Látið kökuna kólna.
Þeytið rjómann, takið smávegis frá til að skreyta með. Stappið 3 banana og blandið saman við rjómann sem fer í fyllinguna. Smyrjið bananarjómanum á kökuna og rúllið henni upp. Sprautið eða setjið rjóma ofan á rúlluna með skeið og skreytið með banananasneiðum. Kreistið sítrónusafa yfir bananana svo þeir verði ekki brúnir. Stráið súkkulaði ofan á.

Monday, April 11, 2011

Eplakassinn ómótstæðilegi

Það er ekki sjéns að standast að kaupa svona eplakassa sem var í boði í Nettó um helgina, yndislega góð og safarík. Þegar allir voru búnir að fá nóg af ferskum eplum gerðum við múffur úr restinni og settum í frysti.


Það er svo auðvelt að gera múffur, enginn hrærivél og fljótlegt að blanda saman. Til að fá léttar og góðar múffur er atriði að hræra ekki of mikið saman, bara blanda létt með gaffli og leyfa klumpum að vera.

Eplamúffur
12 stk.

220 g hveiti eða blanda af hveiti og heilhveiti
2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
130 g sykur
80 g smjör, kalt

1 1/2 epli, flysjað og skorið í teninga
3 msk. sykur
3/4 tsk kanell
1 stórt egg
2 dl jógúrt, mjólk eða ab-mjólk
1 tsk. vanillusykur

Hitið ofninn í 180°C eða 170°C á blástur. Blandið hveiti, lyftidufti, salti og sykri saman í skál. Skerið smjörið í bita og myljið saman við hveitiblönduna.
Blandið epli, sykri og kanel saman í skál.
Blandið eggi, jógúrt og vanilludropun saman í skál.
Hellið eggjablöndunni út í hveitiblönduna og hrærið saman með gaffli, ekki hræra of mikið bara svo það samlagist, má vera kekkjótt. Bætið eplum út í og blandið lauslega. Setjið pappírsmúffuform í múffuformið. Skiptið deiginu á milli í formið. Bakið kökurnar í 20 mín. Má frysta. Eru mjög góðar upphitaðar við 100°C í 10 mín í ofni eða setja smástund í örbylgjuofn.