Sunday, May 15, 2011

Veisla í húsinu

Ferskur aspas er veisla í mínum huga. Þennan aspas keypti ég í Kost í síðustu viku og hann bragðaðist unaðslega ! Kostur fær sendingu af fersku grænmeti frá Ameríku á fimmtudögum og ýmislegt spennandi í boði. Það er hægt að matreiða aspasinn á ótal vegu en þegar maður fær hann svona sjaldan eins og hér á landi ( og hann er ekki ódýr) finnst mér best að njóta hans svona á einfaldan hátt með feitri og fitandi smjörsósu. Mmmmmm............


Aspas með hollandaise sósu
aðalréttur fyrir 2

800 g ferskur aspas
vatn, salt

Skerið um 1 cm af á neðsta partinum af stönglinum. Flysjið aspasinn upp á hálfan stöngul (sjá mynd). Sjóðið vatn með salti, setjið aspasinn út í sjóðandi vatnið og sjóðið hann í 4-5 mín.

Hollandaise sósa

120 g smjör, brætt og kælt aðeins
3 eggjarauður
1 1/2 msk. vatn
1 msk. sítrónusafi
salt og nýmalaður pipar

Setjið eggjarauður og vatn í skál og þeytið saman yfir vatnsbaði þar til það er þykkt og freyðandi. Hellið smjörinu í mjórri bunu út í og þeytið í á meðan. Passið að sósan hitni ekki of mikið, takið hana af hitanum ef hún fer að verða of heit. Bætið sítrónusafa út í og smakkið til með salti og pipar. Berið fram strax.


Sunday, May 8, 2011

Bakaðir bananaskalotlaukar
forréttur fyrir 4-6

12 stk. bananaskalotlaukur
smá olía til að pensla laukinn
olía til að hella í laukinn eða 1/2 krukka fetaostur
sjávarsalt og nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 200°C. Penslið laukinn með olíu og setjið í ofnskúffu. Bakið hann í 30 -40 mín. Skerið rauf ofan í hvern lauk með beittum hníf. Hellið olíu eða fetaost í raufina og saltið og piprið yfir. Berið gott brauð með.


Einfalt og gott

Það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að gera góðan mat á einfaldan hátt. Þessir bananaskalotlaukar sem nú fást í flestum stórmörkuðum eru algjört sælgæti bakaðir í ofni. Eina sem þarf að gera er að setja smá sjávarsalt og góða olíu og veislan er tilbúin.