Monday, August 29, 2011

Sunnudagsmorgun


Morgunmatur á sunnudegi

Sunnudagsmorgnar eru alltaf sérstakir og gaman að útbúa eitthvað gott og dekra svolítið við sig. Þetta er það sem mér finnst ómótstæðilegt. Steiktir brauðteningar (gott að nota gróft brauð) með smá hvítlauk og steinselju, góð parmaskinka, 4 mínútna egg sem leka yfir diskinn og steiktir konfekt tómatar.....Mmmmm...........

Monday, August 22, 2011

Bomban !!

Æskuminningar um mat og kökur fylgja manni oft langt fram á fullorðinsár og eru mikilvægur þáttur í daglegu lífi. Kökurnar sem ég bakaði fyrir afmæli hér á árum áður er það sem kemur upp í hugann hjá mínum börnum þegar þau eiga afmæli, jafnvel þó þau séu flutt að heiman. Sonur minn fékk þessa köku í afmælisgjöf á 25 ára afmælisdaginn, hann óskaði einskins frekar en eiga hana einn í sínum ísskáp.


Baby-Ruth kaka

Kakan:
3 eggjahvítur
3 dl sykur
2 1/2 dl saltmöndlur
20 stk. Ritz kex
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar

Hitið ofninn í 200°C, 180°C á blástur. Þeytið eggjahvítur og sykur saman í tandurhreinni skál þar til það er hvítur massi. Malið salthnetur gróft í matvinnsluvél og myljið Ritz kexið út í. Blandið lyftidufti saman við kexblönduna. Blandið kexblöndunni út í eggjahvíturnar og blandið saman ásamt vanilludropunum með sleikju. Skiptið deiginu í tvö 24 cm smurð form og bakið þetta í 20 mín. Kælið aðeins og hvolfið síðan á bökunarpappír.

Krem:
50 g smjör
100 g súkkulaði
3 eggjarauður
60 g flórsykur

Bræðið smjör og súkkulaði saman við vægan hita annað hvort í vatnsbaði eða í örbylgjuofninum. Þeytið eggjarauður og flórsykur mjög vel saman eða þar til það er ljóst og loftkennt. Blandið súkkulaðiblöndunni út í eggjamassann og hrærið vel saman.

Á milli:
4-5 dl rjómi, þeyttur

Setja saman:

Leggið kökuna saman með þeyttum rjóma. Smyrjið kreminu ofan á. Ef kremið er of mjúkt sem það getur orðið ef súkkulaðiblandar er of heit er ráð að kæla það þar til það er passlega stíft. Það er samt flott ef það lekur aðeins meðfram hliðunum.