Sunday, September 25, 2011

Besta sítrónukakan

Sítrónukökur eru í miklu uppáhaldi hjá nokkrum fjölskyldumeðlimum á okkar heimili og eru bakaðar reglulega. Þessi uppskrift er nokkuð gömul og kemur upprunalega frá meistara Raymond Blanc. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hans. Hann er sjálflærður matreiðslumaður, segist samt hafa lært mest af mömmu sinni sem hann segir vera frábæran kokk. Raymond Blanc hefur í áraraðir rekið frábæran veitingastað í Bretlandi sem heitir Le Manoir Aux Quat'Saison
Ég hef ekki enn borðað hjá honum, á það vonandi eftir.

Sítrónukaka

10 -12 sneiðar
2 1/2 sítrónur, börkur af öllum og safi af einni
5 egg
350 g sykur
smá salt
1 1/2 dl rjómi
270 g hveiti
2 tsk lyftiduft
100 g smjör, brætt og kælt aðeins

glassúr:
safi af 1/2 sítrónu
100 g flórsykur

Hitið ofninn í 180°C, 165 á blástur. Setjið sítrónubörk, egg og sykur í skál og þeytið saman þar til létt og loftkennt, hellið sítrónuberki út í smám saman í restina. Sigtið hveiti og lyftiduft saman. Bætið rjóma, hveiti og lyftidufti út í og blandið saman við með sleikju. Bætið smjöri út í síðast í mjórri bunu og blandið saman við. Smyrjið eða setjið bökunarpappír í 30 cm langt jólakökuform. Hellið deiginu í formið og bakið þetta í miðjum ofni í 50-55 mín. Notið prjón til að athuga hvort kakan er bökuð. Losið kökuna varlega úr forminu og kælið hana á rist. Hrærið glassúrinn saman með því að hræra sítrónusafa og flórsykur saman. Smyrjið glassúrnum yfir kökuna. Skreytið e.t.v. með sítrónu eða límónuberki.

Sunday, September 18, 2011

Frönsk og frábær

Franska lauksúpan á sér langa sögu. Uppruni hennar er sennilega frá tímum Rómverja. Þeir suðu lauk, sem allir gátu ræktað, og vatn saman og þótti þetta vera mettandi fátækramannamatur. Frakkar þróuðu síðan snemma uppskriftina og bættu brauði og glóðuðum osti ofan á og varð þetta vinsæll matur þar í landi. Súpan komst síðan mjög í tísku í Ameríku um 1960 þegar franska matarmenningin varð vinsæl vestra og hefur Julia Child átt þar stóran þátt.
Þetta er sígild súpa, algjör drottning að mínu mati en eins góð og hráefnið sem fer í hana ( eins og allt annað). Gott soð, smá púrtari, vel af pipar og góður ostur ofan á eins og t.d. Ísbúi gerir þessa súpu vel hæfa í matarboðið.


Frönsk lauksúpa
fyrir 6

1 - 1 1/2 kg laukur
3-4 hvítlauksrif, söxuð
80 - 100 g smjör
slatti nýmalaður pipar
40 g hveiti
1 líter gott nautasoð ( fæst t.d. í Kost) má líka nota grænmetissoð
4-5 dl vatn
1-1 1/2 dl púrtvín
sjávarsalt

gott snittubrauð eða Ciabattabrauð
sterkur ostur

Afhýðið laukunn og skerið hann í tvennt, skerið hvern helming í tvo hluta og sneiðið hann niður. Þetta er mikið af lauk og mikið táraflóð. Steikið laukinn og hvítlaukinn í smjörinu í um 15 mín eða þar til laukurinn er glær og aðeins farin að taka lit. Piprið vel í pottinn og látið piparinn steikjast aðeins með, mér finnst piparinn njóta sín vel með þessari aðferð. Stráið hveitinu yfir laukinn og hrærið honum saman við með sleif. Hellið öllum vökva sem á að fara í súpuna út í, fyrst smávegis og svo öllu til að hveitið fari ekki í kekki. Sjóðið súpuna í 30 mín við meðalhita, smakkið til með pipar og sjávarsalti.
Hitið ofninn á grill. Skerið brauðið niður í teninga ( það er auðveldara að borða súpuna þannig) eða sneiðar og stráið rifnum osti yfir. Grillið brauðið þar til það er gullið og girnilegt. Hellið súpunni í skálar og setjið grillað ostabrauð í hverja súpuskál. Berið fram strax.

Sunday, September 11, 2011

Ódýr og fljótlegur

Er það ekki það sem allir vilja kunna, að gera ódýran mat sem er fljótlegt að elda og bragðast eins og besti veislumatur. Þetta er sá réttur á okkar heimili. Allt í ofnskúffu, tími til að kósa sig, sinna skylduverkum.............. eða skreppa í göngutúr og finna matarilminn koma á móti þér þegar inn er komið.


Fljótlegur kjúklingaréttur

3 bökunarkartöflur
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
1 sítróna í sneiðum (má sleppa)
3 msk olía
8-10 bitar af kjúkling, gott að nota efri læri
salt og nýmalaður pipar
gott krydd eftir smekk

Hitið ofninn í 200°C, 180 á blástur. Penslið ofnskúffu með olíu. Skerið kartöflur í sneiðar og raðið þeim í ofnsúffuna svo þær þeki hana. Skerið laukinn í skífur og raðið ofan á kartöflurnar. Raðið sítrónum ofan á ef þið notið þær. Saltið og piprið. Raðið kjúklingabitunum ofan á grænmetið, penslið aðeins með olíu, líka lauk og kartöflur þar sem kjúklingurinn er ekki ofan á. Kryddið kjúklinginn eftir smekk. Bakið þetta í ofninum í um það bil 30-40 mín eða þar til kjúklingurinn er fallega brasaður og kartöflurnar farnar að taka lit.


Thursday, September 8, 2011

Gott nesti !


Vefjur með reyktum laxi

Nesti er ofarlega í huga þessa dagana þegar berjaferðir og sveppaferðir eru í algleymingi. Ikea er með ýmislegt spennandi í matardeildinni, þar kaupi ég þetta þunna flatbrauð með smá anisbragði sem er góð tilbreyting frá venjulegu brauði. Ég smyr það með rjómaosti, set nokkrar sneiðar af reyktum laxi ofan á, smá klettakál, vel af pipar og ferskri piparrót og rúlla upp. Meiriháttar gott.