Wednesday, February 15, 2012

Ómótstæðileg Naan-brauð

Heimabökuð brauð eru það besta í heimi. Hér er uppskrift að góðu matbrauði sem passar með súpum og allskonar kássum. Það þarf ekki endilega að nota allt sem talið er upp ofan á brauðin. Bara salt og smjör er mjög gott.

Naan brauð
6 -8 stk.

1 1/4 dl fingurvolg mjólk
2 tsk. þurrger
300 g hveiti
1 msk. sykur eða hunang
1/2 tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
2 msk. olía
1 dl jógúrt

ofan á:
maldon- salt
3 msk. brætt smjör, má nota olíu í staðinn
nigellufræ, rifinn hvítlaukur og eða ferskt kóríander

Leysið þurrgerið upp í volgri mjólkinni. Blandið hveiti, sykri, salti, lyftidufti, olíu, jógúrt og mjólkur/gerblöndunni í skál og hnoðið vel saman. Látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í 30 mín. Hitið ofninn í 230°C, 210°C á blástur. skiptið deiginu í 6 -8 hluta og fletjið hvern hluta út í flata köku ca. 1 -2 cm á þykkt. Raðið deigkökunum á 2 ofnplötur, gott að nota bökunarpappír. Látið deigkökurnar lyfta sér aftir í 20-30 mín. Bakið kökurnar í 8-10 mín. Penslið brauðin með smjöri eða olíu, stráið maldonsalti, nigellufræum og rifnum hvítlauk ofan á og klippið kóríander ofan á ef þið notið það.