Sunday, April 1, 2012

Grillaður lax með góðri sósu

Lax er uppáhald allra á mínu heimili sérstaklega svona grillaður. Ég pensla hann ekki með neinu, krydda með salti og pipar og kannski smá chiliflögum og læt hann bara grillast í eigin safa, okkur finnst hann bestur þannig. Hinsvegar erum við veik fyrir þessari sósu "Doria" (gúrkusmjöri). Sósan er að frönskum hætti og var kennd í kokkaskólanum. Hún er "klassiker"og eitt af því sem ég lærði þar og nota enn þann dag í dag.

Grillaður lax "Doria"

fyrir 4

Það er mjög sniðugt að grilla laxinn svona í ofninum. Fitan af laxinum, sem er oft bragðsterk af eldislaxinum, rennur í raufarnar á pappírnum og eftir verður stökkur og bragðgóður laxinn. Það sem betra er að það þarf ekki að þrífa neina pönnu, bara pakka pappírnum saman þegar búið er að grilla.

4 falleg laxastykki
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar,

Setjið rist ofan á ofnskúffu, ristin þarf að vera jafnstór eða þannig að hún hanfi ofan á skúffunni. Leggið tvöfalt lag, á misvíxl svo það verði tvöfalt í miðjunni, af álpappír á ristina. Hafið pappírinn a.m.k. helmingi lengri en ristin er. Setjið pappírinn varlega niður í raufarnar þannig að það myndist rásir, þær þurfa ekki að vera djúpar. Þetta er gert til þess að fitan af laxinum renni af honum. Stillið ofninn á grill. leggið laxinn ofan á pappírinn og kryddið hann. Grillið laxinn í 10 mín, fer þó eftir stærð stykkjana. Fylgist með honum og kíkið inn í hann með hníf. Hann er tilbúinn þegar miðjan er aðeins rauð því hann heldur áfram að eldast í 1-2 mín eftir að hann er kominn út úr ofninum. Hann er bestur og safaríkastur ef næst að ofelda hann ekki.

Sósa Doria
1/2 agúrka
150 g smjör
sjávarsalt
ferskt dill

Afhýðið agúrkuna og takið kjarnann úr. Skerið hana í þunnar sneiðar. Sjóðið agúrkuna í smjörinu í 5-8 mín. Saxið dill og bætið í ásamt smá salti og pipar, látið krauma aðeins. Berið fram með salati og/eða soðnum kartöflum.