Friday, November 26, 2010

Aðventustemming

Uppskriftin að þessari köku hefur fylgt mér lengi og er í miklu uppáhaldi. Hún er að upplagi af ítölskum ættum og er kölluð "brauð" þar í landi. Í henni eru ristaðar heslihnetur sem er svolítil fyrirhöfn en þegar búið er að rista hneturnar svona eru þær engu líkar og gefa kökunni frábært bragð. Mér finnst hún passa mjög vel sem sunnudagskaka á aðventunnni.

Ávaxtakaka

80 g heslihnetur
250 g smjör, mjúkt
180 g sykur
4 egg
3 msk. sjerrý eða avaxtasafi
1 dl þurrkaðar döðlur, saxaðar
1 dl þurrkaðar fíkjur, saxaðar
1 dl þurrkaðar apríkósur, saxaðar
1 1/2 tsk. vanilludropar
260 g hveiti (pilsbury´s)

Hitið ofninn í 175°C. Setjið heslihnetur í ofnskúffu og bakið í 5-10 mín eða þar til þær eru dökkar( það má líka rista þær á pönnu). Hrærið saman smjör og sykur þar til það er ljóst og létt. Setjið egg út í eitt í einu og hrærið allt vel saman. Bætið sjerrí eða safa út í og hrærið vel saman. Nuddið hýðið af heslihnetunum, gott að nota rakann eldhúspappír, og saxið þær mjög gróft. Það er allt í lagi að hafa nokkrar heilar. Blandið öllu öðru sem fer í kökuna út í og hrærið saman. Setjið bökunarpappír í 25 cm langt jólakökuform eða smyrjið það og jafnið deiginu í það. Bakið kökuna
a neðstu rim í ofni í klukkutíma. Hún er tilbúin þegar prjóni sem er stungið í hana kemur hreinn út og hætt að "hvissa" í henni.

NB: Trixið við að fá formkökur safaríkar er að taka þær úr ofninum á réttum tíma eða rétt eftir að hætt er að heyrast þetta kraumandi hvissandi hljóð í henni. Fylgist því með kökunni í lok bökunartímans.

Saturday, November 13, 2010

Kaldir dagar

Það er gott að eiga uppskrift að nærandi súpu þessa köldu daga. Hér er uppskrift að súpu sem er ódýr, holl og meiriháttar góð. Ég geri gjarnan tvöfalda uppskrift og hita hana upp daginn eftir. Eins og góð kjötsúpa verður hún bara betri upphituð dagana eftir.


Linsubaunatómatsúpa

2 msk olía
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksrif, söxuð
1 dós saxaðir tómatar
150 g grænar linsubaunir
3 dl tómatdjús eða 1 dós tómatar, maukaðir
8-10 dl vatn
2 tsk grænmetiskraftur
1 tsk sjávarsalt
1/2 tsk timian
nýmalaður pipar

Steikið lauk og hvítlauk í olíunni þar til hann er mjúkur og ilmandi. Bætið öllu sem fer í súpuna út í og látið súpuna sjóða í 30-40 mín. Smakkið hana til með salti og pipar. Berið súpuna fram með rifnum parmaosti.