Sunday, April 1, 2012

Grillaður lax með góðri sósu

Lax er uppáhald allra á mínu heimili sérstaklega svona grillaður. Ég pensla hann ekki með neinu, krydda með salti og pipar og kannski smá chiliflögum og læt hann bara grillast í eigin safa, okkur finnst hann bestur þannig. Hinsvegar erum við veik fyrir þessari sósu "Doria" (gúrkusmjöri). Sósan er að frönskum hætti og var kennd í kokkaskólanum. Hún er "klassiker"og eitt af því sem ég lærði þar og nota enn þann dag í dag.

Grillaður lax "Doria"

fyrir 4

Það er mjög sniðugt að grilla laxinn svona í ofninum. Fitan af laxinum, sem er oft bragðsterk af eldislaxinum, rennur í raufarnar á pappírnum og eftir verður stökkur og bragðgóður laxinn. Það sem betra er að það þarf ekki að þrífa neina pönnu, bara pakka pappírnum saman þegar búið er að grilla.

4 falleg laxastykki
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar,

Setjið rist ofan á ofnskúffu, ristin þarf að vera jafnstór eða þannig að hún hanfi ofan á skúffunni. Leggið tvöfalt lag, á misvíxl svo það verði tvöfalt í miðjunni, af álpappír á ristina. Hafið pappírinn a.m.k. helmingi lengri en ristin er. Setjið pappírinn varlega niður í raufarnar þannig að það myndist rásir, þær þurfa ekki að vera djúpar. Þetta er gert til þess að fitan af laxinum renni af honum. Stillið ofninn á grill. leggið laxinn ofan á pappírinn og kryddið hann. Grillið laxinn í 10 mín, fer þó eftir stærð stykkjana. Fylgist með honum og kíkið inn í hann með hníf. Hann er tilbúinn þegar miðjan er aðeins rauð því hann heldur áfram að eldast í 1-2 mín eftir að hann er kominn út úr ofninum. Hann er bestur og safaríkastur ef næst að ofelda hann ekki.

Sósa Doria
1/2 agúrka
150 g smjör
sjávarsalt
ferskt dill

Afhýðið agúrkuna og takið kjarnann úr. Skerið hana í þunnar sneiðar. Sjóðið agúrkuna í smjörinu í 5-8 mín. Saxið dill og bætið í ásamt smá salti og pipar, látið krauma aðeins. Berið fram með salati og/eða soðnum kartöflum.

Wednesday, February 15, 2012

Ómótstæðileg Naan-brauð

Heimabökuð brauð eru það besta í heimi. Hér er uppskrift að góðu matbrauði sem passar með súpum og allskonar kássum. Það þarf ekki endilega að nota allt sem talið er upp ofan á brauðin. Bara salt og smjör er mjög gott.

Naan brauð
6 -8 stk.

1 1/4 dl fingurvolg mjólk
2 tsk. þurrger
300 g hveiti
1 msk. sykur eða hunang
1/2 tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
2 msk. olía
1 dl jógúrt

ofan á:
maldon- salt
3 msk. brætt smjör, má nota olíu í staðinn
nigellufræ, rifinn hvítlaukur og eða ferskt kóríander

Leysið þurrgerið upp í volgri mjólkinni. Blandið hveiti, sykri, salti, lyftidufti, olíu, jógúrt og mjólkur/gerblöndunni í skál og hnoðið vel saman. Látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í 30 mín. Hitið ofninn í 230°C, 210°C á blástur. skiptið deiginu í 6 -8 hluta og fletjið hvern hluta út í flata köku ca. 1 -2 cm á þykkt. Raðið deigkökunum á 2 ofnplötur, gott að nota bökunarpappír. Látið deigkökurnar lyfta sér aftir í 20-30 mín. Bakið kökurnar í 8-10 mín. Penslið brauðin með smjöri eða olíu, stráið maldonsalti, nigellufræum og rifnum hvítlauk ofan á og klippið kóríander ofan á ef þið notið það.

Tuesday, January 31, 2012


Heimalagað pasta

Pastavél og semolína hveiti er eiginlega nauðsynlegt við pastagerð svo vel takist til. Það má þó rúlla deigið út með kefli en það er seinlegt. Kannski á einhver vinur eða kunningi vél sem hann vill lána til að prófa. Semolínahveiti fæst í Kost.

Látið deigið fara gegnum vélina nokkrum sinnum og stillið alltaf í minna bil á milli.
Setjið fyllinguna á með jöfnu millibili.
Koddarnir tilbúnir
Fylltir pastakoddar ( Ravioli)

Það er eins og að fara í jógatíma að laga sjálfur sitt eigið pasta. Það borgar sig að hafa tímann fyrir sér og anda ofan í maga allan tímann því þetta er talsvert tímafrekt. Það er þó fyrirhafnarinnar virði og gott að kúpla sig út úr daglegu stressi, einn sunnudag eða svo og njóta þess að gera svona hversdagslegan og undurgóðan pastarétt.

Ferskt pasta

500 g brauðhveiti
5 egg
semolina hveiti til að rúlla út með

Setjið hveiti og egg í matvinnsluvél og látið vélina ganga í 30 sekúndur. Hellið deiginu á borðið og hnoðið áfram í 2 mín. eða þangað til það er komið saman í fallega kúlu. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í kæli í klukkutíma.
Skiptið deiginu í 4 parta. Rúllið einn part í einu út fyrst þykkt og svo þynnra og þynnra, notið semolinahveitið til að fletja út með. Setjið fyllingu með góðu millibili á 2 af lengjunum, klippið eða skerið á milli svo þið fáið ferninga. Bleytið með vatni í kringum fyllinguna. Skerið ferninga úr deiginu sem ekki er með fyllingu og látið ferning af deigi ofan á fyllinguna. Þéttið með fingrum í kring um fyllinguna. Setjið deigkoddana á ofnplötu og stráið ríkulega af semolínahveiti á milli koddana. Sjóðið deigkoddana í ríkulegu magni af saltvatni í 4-6 mín.
Það er mjög gott að borða koddana með bræddu smjöri með ferskri salvíu út í og að sjálfsögðu parmaosti.

Fylling í Ravioli (pastakoddar)

300 g kotasæla
2 msk. ólífuolía
80-100 g parmaostur, rifinn
hnefafylli af basil, saxað
1/2 tsk. oreganó
1/4 tsk. salvía
salt og pipar

Blandið öllu saman og notið til að fylla pastakoddana.

Saturday, January 21, 2012

Grillaður kræklingur

Ferskur kræklingur er mikið lostæti og er nú farinn að fást hér á landi. Hann kemur frá Breiðafirði og fæst í Frú Laugu. Annarstaðar á blogginu er uppskrift að hvítvínssoðnum krækling en hér er hann soðinn og grillaður. Eldaður á þennan hátt er hann flottur sem forréttur.

Grillaður kræklingur
forréttur fyrir 4

1 kg kræklingur
2 brauðsneiðar, allavega dagsgamlar svo auðveldara sé að tæta þær niður
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2 msk. steinselja, söxuð
3 msk. olía

Skolið kræklinginn í ísköldu vatni. Sjóðið hann í potti með botnfylli af vatni í 3-4 mín. Hafið lokið á pottinum. Kræklingurinn er tilbúinn þegar skeljarnar hafa opnast. Hendið þeim sem opnast ekki. Fjarlægið annan skelhluta af hverri skel og raðið skeljunum með krækling í í ofnskúffu. Skerið skorpuna af brauðinu og tætið það smátt niður í skál. Blandið hvítlauk, steinselju og olíu saman við. Stillið ofninn á grill. Setjið smávegis af brauðblöndunni á hvern krækling. Grillið undir heitu grillinu í nokkrar mínútur eða þar til brauðblandan fer að taka lit. berið fram strax.

Thursday, January 12, 2012

Súkkulaðimús.

Þessa súkkulaðimús hef ég gert fyrir familíuna mína á jólum frá því ég var unglingsstelpa. Hún heppnaðist nú misjafnlega fyrstu árin og var það aðallega af því að ég var klaufi að bræða súkkulaðið. Það þarf að passa að súkkulaðið sé ekki of heitt og bræða það í vatnsbaði á mjög lágum hita, það getur tekið allt að 15 mín. Ef það er of heitt klebrast það þegar eggjarauður fara út í og blandan verður eins og sement. Ef þetta er passað er þetta einföld og fljótleg súkkulaðimús og mjög góð.


Súkkulaðimús
fyrir 4-6

300 g gott súkkulaði
3 egg
1 peli rjómi, léttþeyttur

Bræðið súkkulaðið við vægan hita í vatnsbaði ( best) eða í örbylgjuofninum. Passið vel upp á að það sé ekki of heitt. Skiljið eggin í sundur og stífþeytið eggjahvíturnar. Takið súkkulaðið af hitanum, bætið eggjarauðum út í og hrærið þeim saman við. Bætið eggjahvítum varlega saman við súkkulaðiblönduna, fyrst smávegis og svo öllu. Blandið þeytta rjómanum varlega út í og hellið í falleg glös. Þeytið meira af rjóma rétt áður en þið berið eftirréttinn fram og setjið á toppin .

Friday, January 6, 2012

Girnilegur kjúklingur í sósu

Við erum með dellu fyrir kjúklingaréttuum í sósu á mínu heimili þessa dagana. Okkar skoðun er sú að janúar og febrúar séu mánuður fyrir "comfort food" . Við erum ekki alveg inni á þessari "hreinsun eftir allt jólaátið" enda borðuðum við dásamlegan, hollann og góðan íslenskan mat alla jólahátíðina og ætlum að halda áfram að borða hollann og góðan mat þetta árið og njóta hvers bita. Þessi paprikukjúlli er akkúrat svona kósí-matur, kjarnmikill og í djúsí sósu.


Kjúklingur i paprikusósu
fyrir 4-5

2 msk. smjör
1 msk. olía
6-7 kjúklingabitar, efri læri eru mjög góð í þennan rétt
25 g hveiti ( ca. 3 msk.)
2 msk. paprikuduft
4 -5 dl kjúklingasoð, best að nota tilbúið í fernu t.d. sem fæst í Kost, annars bara tening og vatn
2 msk. rifsberjahlaup
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
smávegis þurrkað timian
nýmalaður pipar
sjávarsalt
1 dl sýrður rjómi eða 1 dl rjómi

Hitið ofninn í 180°C. eða 160 á blástur. Steikið kjúklingabitana á báðum hliðum í blöndu af smjöri og olíu, takið þá upp úr pottinum og geymið. Ef mikið kemur af fitu af kjúllanum er gott að hella mestu af fitunni í pottinum, en skilja eftir smávegis eða sem samsvarar 4 msk. Kraumið paprikuna í því sem er eftir af feiti í pottinum í 1/2 mín, bætið hveiti út í og sláið saman. Hellið soðinu út í smátt og smátt og hrærið í á meðan. Bætið rifsberjahlaupi og sítrónuberki út í og smakkið til með timian, salti og nýmöluðum pipar. Setjið kjúklingabitana út í, veltið þeim í sósunni og látið þetta malla í ofninum í 40-50 mín, takið út úr ofninum og hrærið sýrðum rjóma saman við. Gott að bera fram með brauði hýðishrísgrjónum eða kartöflumús.

Sunday, January 1, 2012

Áramótabomban

Ég smakkaði þessa köku fyrst á gullfallegu tehúsi "Au Coeur Du Rohan" í París fyrir mörgum árum. Þetta tehús var staðsett í passage við Rue St. André des Arts í eldgömlu húsi og var allt í gamaldags ömmustíl, rósótt stell af ýmsum tegundum, borðdúkar úr blúndu niður í gólf og kúnnarnir konur á öllum aldri. Margir kúnnar voru líka eldri parísardömur klæddu sig upp til að fara á þetta tehús, þær voru margar skrautlegir karakterar. Kökurnar voru ótrúlega góðar á þessu tehúsi, þær stóðu á risastórum skenk upp við einn vegginn og voru hver annari girnilegri. Þarna náði ég í nokkrar nýjar hugmyndir, þurfti náttúrulega að fara oft og smakka mikið......
Svona karlottur eru vinsælar í Frakklandi því þær eru samsettar m.a. úr fingurkökum sem hægt er að kaupa tilbúnar (margir parísarbúar eiga ekki ofna í eldhúsunum og geta ekki bakað heima). Kakan er auðveld í samsetningu og hægt að gera hana daginn áður.


Karlotta með perum og súkkulaði

1 pk. fingurkökur (Ladyfingers)
1 ds. perur
2 box sýrður rjómi, hrærður út með 2 tsk. vanillusykri eða sykri og dropum
1 uppskrift góður súkkulaðibúðingur( heimalagaður er best)

Sigtið perurnar. Setjið súkkulaðibúðing á botninn svo auðveldara sé að raða kökunum með hliðunum. Bleytið fingurkökurnar í perusafa og raðið þeim meðfram hliðunum í hátt form. Best er að formið sé hátt og ekki mjög vítt. Setjið sýrðan rjóma, bleyttar fingurkökur og súkkulaðibúðing til skiptis í formið, endið á kökum. Geymið í kæli í a.b.k. 2 klst eða yfir nótt. Hvolfið á fallegan tertudisk og sigtið kakó yfir.
Ekta karlottuform fást í Kokku og Pipar og Salt.