Sunday, January 1, 2012

Áramótabomban

Ég smakkaði þessa köku fyrst á gullfallegu tehúsi "Au Coeur Du Rohan" í París fyrir mörgum árum. Þetta tehús var staðsett í passage við Rue St. André des Arts í eldgömlu húsi og var allt í gamaldags ömmustíl, rósótt stell af ýmsum tegundum, borðdúkar úr blúndu niður í gólf og kúnnarnir konur á öllum aldri. Margir kúnnar voru líka eldri parísardömur klæddu sig upp til að fara á þetta tehús, þær voru margar skrautlegir karakterar. Kökurnar voru ótrúlega góðar á þessu tehúsi, þær stóðu á risastórum skenk upp við einn vegginn og voru hver annari girnilegri. Þarna náði ég í nokkrar nýjar hugmyndir, þurfti náttúrulega að fara oft og smakka mikið......
Svona karlottur eru vinsælar í Frakklandi því þær eru samsettar m.a. úr fingurkökum sem hægt er að kaupa tilbúnar (margir parísarbúar eiga ekki ofna í eldhúsunum og geta ekki bakað heima). Kakan er auðveld í samsetningu og hægt að gera hana daginn áður.


Karlotta með perum og súkkulaði

1 pk. fingurkökur (Ladyfingers)
1 ds. perur
2 box sýrður rjómi, hrærður út með 2 tsk. vanillusykri eða sykri og dropum
1 uppskrift góður súkkulaðibúðingur( heimalagaður er best)

Sigtið perurnar. Setjið súkkulaðibúðing á botninn svo auðveldara sé að raða kökunum með hliðunum. Bleytið fingurkökurnar í perusafa og raðið þeim meðfram hliðunum í hátt form. Best er að formið sé hátt og ekki mjög vítt. Setjið sýrðan rjóma, bleyttar fingurkökur og súkkulaðibúðing til skiptis í formið, endið á kökum. Geymið í kæli í a.b.k. 2 klst eða yfir nótt. Hvolfið á fallegan tertudisk og sigtið kakó yfir.
Ekta karlottuform fást í Kokku og Pipar og Salt.

No comments:

Post a Comment