Thursday, November 10, 2011

Dásamleg fiskisúpa

Það er erfitt að gefa nákvæma uppskrift að fiskisúpu, jafnvel þessi uppskrift sem ég nota oft er aldrei eins þegar ég elda hana. Ég myndi kalla þetta grunnuppskrift sem má leika með. Það er upplagt að nota allskonar fisk, eða það sem er á tilboði hjá fisksalanum í hvert skipti, Keila eða Langa er oft á góðu verði hjá mínum fisksala. Kryddið er líka smekksatriði, sumir vilja hafa súpuna sterka og aðrir milda. En það er gott að eiga góða uppskrift að fiskisúpu í handraðanum, þessi sómir sér vel til að bjóða gestum í.


Fiskisúpa
fyrir 6

4 msk. olía
2 laukar, smátt saxaðir
6 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 sellerístönglar, smátt saxaðir
1 stór gulrót , smátt söxuð
1 lítill blaðlaukur, saxaður
1/2 -1 tsk. Szechuan pipar með chili og engifer (Jamie Oliver má sleppa)
1/2 -1 tsk. paprika
1-2 tsk. karrý
1 tsk. timian
nokkrir saffranþræðir (má sleppa)
1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir, Cirio finnst mér bestir
1 1/2 dl hvítvín
safi úr 1 appelsínu
safi úr 1 sítrónu
12 dl vatn
2 fiskiteninga
800 g fiskur í bitum
2-3 msk. steinselja
400 g hörpudiskur og humar eða risarækjur
1 dl rjómi

Steikið laukinn og hvítlaukinn í olíunni þar til hann fer að verða glær. Bætið öllu grænmetinu út í og steikið áfram í nokkrar mínútur þar til allt er mjúkt og ilmandi. Bætið kryddi út í og steikið með smástund. Hellið tómötum ásamt safanum í dósinni, hvítvíni, sítrussafa, vatni og fiskiteningum út í og látið allt sjóða rólega í 20 mín. Smakkið nú til og bætið í sem ykkur finnst þurfa, krydd, salt og pipar eða jafnvel teskeið að hlynsírópi ef hún er of súr. Bætið fisk og steinselju út í og sjóðið þar til fiskur er næstum soðinn. Bætið þá hörpudisk og humar eða rækjum í ásamt rjóma og sjóðið smá stund, athugið að hörpudiskurinn má ekki sjóða of lengi. Berið fram með góðu brauði.