Wednesday, December 28, 2011

Jólalegt rauðkál

Heimalagað rauðkál á lítið skylt við það sem er í krukkunum en það á svo sem við um flest það sem er lagað heima frá grunni. Það er mjög fallegt að strá granateplakjörnum ofan á rauðkálið til að gera það ennþá jólalegra.


Heimalagað rauðkál

1 rauðkálshaus, u.þ.bl. 800 g
2 msk smjör eða olía
1 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar
4-5 negulnaglar
1 lítið lárviðarlauf
3-4 msk. rauðvínsedik eða annað gott edik
1/2 dl vatn
1/2 - 1 dl rauðvín, rauðrófusafi eða Ribenasaft
1-2 msk. púðursykur

Skerið rauðkálshausinn í 4 hluta og hreinsið stöngulinn í miðjunni frá, sneiðið fínt niður. Steikið rauðkálið í smjöri eða olíu í 4-6 mín. Bætið öllu út í og sjóðið með lok á pottinum í 20 - 30 mín. Bætið meira vatni í ef það fer að verða of þurrt. Geymist í viku í kæliskáp. Gott að hita aðeins áður en borið fram.

Thursday, December 22, 2011


Jólin á næsta leyti

Hér er uppskrift að fyllingu í kalkún. Ég fékk þessa uppskrift hjá mömmu sem notaði alltaf þessa fyllingu í kalkúninn en uppskriftin er upprunalega úr bækling frá Pottagöldrum. Ég er búin að gera nokkrar tilraunir mað fyllingar en hefur alltaf fundist þessi einföld og mjög góð.

Kalkúnafylling

125 g smjör
2-3 laukar
1 grænt epli
100 g skinka
100 g beikon
1 stöngull af sellerí
1 stk fransbrauð
75 g furuhnetur
1/2 tsk. timian
1-2 msk. kalkúnakrydd
1/2 tsk. nýmalaður pipar
2 egg
4 msk. rauðvín, mjólk eða kalkúnasoð af innmatnum
innmaturinn af fuglinum og hálsinn eða 200-250 g kjúklingalifur, soðið í 20 mín
(soð notað í sósu og innmatur í fyllinguna)
salt eftir smekk

Saxið lauk, epli, skinku, beikon og sellerí smátt niður. Ristið furuhneturnar á heitri pönnu. Takið skorpuna af brauðinu og skerið brauðið í teninga. Bræðið smjörið og steikið laukinn þar til hann verður mjúkur. Bætið kryddi út í og látið brúnast smá stund saman. Blandið öllu saman við og bragðbætið með salti og pipar. Bætið soðnum smátt söxuðum innmat eða soðinni kjúklingalifur saman vuð. Setjið hluta inn í kalkúninn og afganfinn í form og bakið við meðalhita í klukkutíma.

Wednesday, December 14, 2011

Partýstemming !

Þessir snúðar eru fastir liðir í öllum smáréttaveislum á heimilinu. Fljótlegir að laga og ótrúlega góðir. Það má baka þá og frysta. Hita síðan upp í ofnskúffu í 130-140°C heitum ofni í 10-15 mín. Fílódeig eða blaðdeig er í miklu uppáhaldi hjá mér því það er svo fljótlegt og þægilegt að vinna með það. Gerði fílódeigsþátt í klúbbablað Gestgjafans á þessu ári þar sem má finna margar sniðugar hugmyndir.


Fílósnúðar
ca. 28-30 stk.

2-3 msk. olía
1 laukur, smátt saxaður
8-10 stilkar vorlaukur, saxaður
200-250 g ostur, rifinn má vera hvað sem er
1 krukka paprika í olíu, olían sigtuð frá og paprikan skorin í bita
2 msk. fersk steinselja
1 pakki fílódeig, afþýtt
50 - 60 g smjör

Hitið ofninn í 200°C eða 185°C á blástur. Steikið báðar tegundir af lauk í olíu á pönnu. setjið í skál og bætið ost, papriku og steinselju. Smakkið blönduna til með salti og pipar. Setjið 3 blöð af fílódeigi á borðið og smyrjið deigblöðin með smjöri á milli lagana. Breiðið helmingnun af fyllingunni á efsta lagið af deiginu. Rúllið deiginu upp með fyllingunni innan í, rúllið deiginu á lengri hliðinni. Skerið rúlluna í 14 - 16 bita, raðið þeim með sárið upp á bökunarplötu klædda með bökunarpappír. Farið eins að við önnur 3 blöðin. Setjið e.t.v. meira af osti ofan á hvern snúð. Bakið í miðjum ofni í 15 mín eða þar til snúðarnir eru orðnir gullnir og girnilegir.

Thursday, November 10, 2011

Dásamleg fiskisúpa

Það er erfitt að gefa nákvæma uppskrift að fiskisúpu, jafnvel þessi uppskrift sem ég nota oft er aldrei eins þegar ég elda hana. Ég myndi kalla þetta grunnuppskrift sem má leika með. Það er upplagt að nota allskonar fisk, eða það sem er á tilboði hjá fisksalanum í hvert skipti, Keila eða Langa er oft á góðu verði hjá mínum fisksala. Kryddið er líka smekksatriði, sumir vilja hafa súpuna sterka og aðrir milda. En það er gott að eiga góða uppskrift að fiskisúpu í handraðanum, þessi sómir sér vel til að bjóða gestum í.


Fiskisúpa
fyrir 6

4 msk. olía
2 laukar, smátt saxaðir
6 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 sellerístönglar, smátt saxaðir
1 stór gulrót , smátt söxuð
1 lítill blaðlaukur, saxaður
1/2 -1 tsk. Szechuan pipar með chili og engifer (Jamie Oliver má sleppa)
1/2 -1 tsk. paprika
1-2 tsk. karrý
1 tsk. timian
nokkrir saffranþræðir (má sleppa)
1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir, Cirio finnst mér bestir
1 1/2 dl hvítvín
safi úr 1 appelsínu
safi úr 1 sítrónu
12 dl vatn
2 fiskiteninga
800 g fiskur í bitum
2-3 msk. steinselja
400 g hörpudiskur og humar eða risarækjur
1 dl rjómi

Steikið laukinn og hvítlaukinn í olíunni þar til hann fer að verða glær. Bætið öllu grænmetinu út í og steikið áfram í nokkrar mínútur þar til allt er mjúkt og ilmandi. Bætið kryddi út í og steikið með smástund. Hellið tómötum ásamt safanum í dósinni, hvítvíni, sítrussafa, vatni og fiskiteningum út í og látið allt sjóða rólega í 20 mín. Smakkið nú til og bætið í sem ykkur finnst þurfa, krydd, salt og pipar eða jafnvel teskeið að hlynsírópi ef hún er of súr. Bætið fisk og steinselju út í og sjóðið þar til fiskur er næstum soðinn. Bætið þá hörpudisk og humar eða rækjum í ásamt rjóma og sjóðið smá stund, athugið að hörpudiskurinn má ekki sjóða of lengi. Berið fram með góðu brauði.

Saturday, October 22, 2011

"Arros Con Pollo" Hrísgrjón með kjúkling

Ég elska svona mat, svona virkilegan kósímat. Minn veikleiki er Risottó og þetta er ekki ósvipaður réttur. Ég hef notað þessa uppskrift þegar ég hef gert Paellu en haft færri kjúklingabita. Þetta er í raun mjög svipað Paellu nema þá bætið maður fisk og skelfisk með. Spánska nafnið á réttinum er bara dásamlegt, borið fram "arros kon pojo" með áherslu á r-in.


"Arros Con Pollo" Hrísgrjón með kjúkling
fyrir 4-6

Í þessum spánska rétti er gott að nota stóra og djúpa pönnu. Ég hef eldar þennan rétt alloft og stundum er eins og vökvamagnið sé og mikið en stundum passlegt. Ég held að þetta sé af því að kjúklingurinn er með mismikið vökvamagn sem skilar sér í grjónin við suðu ( salt og sykursprautað) Mér finnst þó betra að hafa meina en minna af vatni og láta rjúka af pönnunni án þess að hafa lok í restina af suðutímanum.

8 -10 kjúklingabitar, ég nota oftast efri læri
3 msk. olía
1 dl hveiti
salt og pipar

1 laukur, saxaður
2-3 hvítlauksrif söxuð
5 dl Aborio hrísgrjón, þessi stuttu
1 tsk. paprika
1/4 tsk chiliflögur (má sleppa)
1/4 tsk. saffran (má sleppa)
7 1/2 dl vatn
1 kjúklingasoðteningur
1 dós tómatar, saxaðir
1 msk. tómatpúra (má sleppa)

Veltið kjúklingabitunum upp úr hveiti og brúnið þá á báðum hliðum. Ég krydda þá oft með einhverju eins og papriku eða chili eða góðu kjúklingakryddi, bara einhverju sem ég á í skúffunni. Setjið bitana á disk og geymið. Fjarlægið fituna af pönnunni en skiljið 2-3 msk eftir til að steikja laukinn upp úr. Steikið laukinn þar til hann fer að verða gullinn, bætið hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið hrísgrjónum út í ásamt kryddi og steikið í 2-4 mín. Hellið nú vatninu , kjúklingasoðteningnum, tómötum ásamt safanum úr dósinni og tómatpúrrunni á pönnuna, hrærið allt vel saman, saltið og piprið. Raðið kjúklingabitunum ofan á, setjið lok eða álpappír ofan á pönnuna og látið þetta malla við meðalhita í 20-25 mín. Þið getið smakkar grjónin og ef þau eru með harðan kjarna þurfa þau að malla lengur. Takið lokið af og ef enn er mikill vökvi í pottinum er gott að látið rjúka úr honum í 5 mín. Ef þið viljið fá svolítið grillaða skorpu á kjúllan er sniðugt að setja pönnuna aðeins undir heitt grill, ég geri það stundum.

Sunday, October 16, 2011

Frábærar í frystinn

Þessar grófu bollur eru góðar að grípa í í nestispakkann. Þær eru hollar og treftaríkar og þiðna á 10 mínútum á eldhúsborðinu á meðan maður er að taka sig til í vinnu eða skóla.


Hollar bollur
ca. 14 stk.

5 dl volgt vatn
2 tsk. þurrger
1 tsk. salt
1-2 tsk. hlynsíróp eða hrásykur
600 g gróft mjöl, t.d. blanda af grófu og fínu spelti eða fínt spelt og heilhveiti
1 dl graskersfræ
1 dl sólblómafræ

Setjið allt í hrærivélarskál og hnoðið með hnoðaranum í 5-8 mín. Það getur verið mimunandi hvað deigið er blautt eftir því hvaða mjöltegundir þið notið en deigið á að vera seigt og klístrað. bætið aðeins við af mjöli ef það er of lint. Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið á hlýjum stað í klukkutíma eða yfir nótt í ísskáp. Setjið bökunarpappír á 2 ofnplötur og mótið bollur með því að setja kúfulla matskeið af deigi með góðu millibili á plöturnar, um 9 bollur á hverja plötu. Hitið ofninn í 230°C eða 210°C á blástur. Látið bollurnar hefast á meðan ofninn er að hitna, aðeins lengur ef þið hafið látið deigið hefast fyrst í ísskáp.
Bakið síðan bollurnar í 20 mín. Frábærar í frystinn.

Monday, October 10, 2011

Kjúklingaréttur leikarans Bob Hoskins

Kjúklingaréttir eru vinsælir á heimilinu. Hér er uppskrift að einum slíkum sem ég fékk hjá vinkonu minni, Guðný Þórarinsdóttur prentsmið. Hún er mikil gúrmekona og eldar mjög góðan mat. Hún sá um þátt í Gestgjafanum þar sem hún var með kjúklingarétti og þessi var einn af þeim. Þetta er mikill kósímatur, allt í einum potti, meiriháttar gott.


Bob Hoskins Kjúklingaréttur
fyrir 4

1 heill hvítlaukur
1 msk. Maldonsalt
1 stór kjúklingur, hlutaður niður eða samsvarandi magn af kjúklingabitum
2 msk. olía
12 meðalstórar kartöflur, skornar í 4 bita og forsoðnar í 10 mín
4 stórir tómatar, skornir í bita
2 dl góðar svartar ólífur (fást í Tyrknesku búðinni í Síðumúla)
1 msk. nýmalaður svartur pipar
nokkrar greinar ferskt rósmarin eða 2-3 tsk. þurrkað
3 msk ólífuolía

Hitið ofninn í 190°. Hlutið hvítlaukinn niður, hann á að vera í hýðinu, og setjið salt yfir hann á meðan annað er tekið til í réttinn. Brúnið kjúklingabitana fallega í olíu. Setjið kartöflur, kjúkling, ólífur, tómata og hvítlauksrif lagskipt í ofnfast fat eða pott. Hellið ólífuolíu yfir allt og stráið rósmarin yfir. Setjið lok eða álpappír yfir pottinn og bakið þetta í 30 mín. Takið lokið af og bakið áfram í 10-15 mín í viðbót.


Tuesday, October 4, 2011

Enskar skonsur á morgunverðarborðið

Þær bráðna í munninum þessar ensku skonsur. Ég smakkaði þær fyrst hjá syni mínum, sem er áhugasamur bakari, og mér fannst þær frábærar. Hann skoðar oft vefsíðu sem heitir joy of baking. Þar er mikið af góðum uppskriftum og kennslumyndböndum meðal annars af því hvernig á að gera þessar skonsur. Lykilatriði er að leyfa smjörinu í þeim að verða svolítið grófkornótt ekki blanda þar til það verður mjölkennt og líka að hnoða þær ekki of mikið því þá missa þær léttleikann og verða seigar.


Enskar skonsur (örlítið breytt útgáfa frá vefsíðunni)

260 g hveiti
40-50 g sykur
2 tsk. lyftiduft
80 g smjör, kalt, í litlum teningum
1 egg
1 tsk. vanilludropar
1/2 dl rjómi
3/4 dl mjólk

mjólk til að pensla skonsurnar með

Hitið ofninn í 190°C, 175°C á blástur. Setjið hveiti, sykur og lyftiduft í matvinnsluvél, látið vélina ganga í 1/2 -1 mín til að allt blandist saman. Setjið smjör út í og látið vélina ganga þar til smjörið hefur blandast vel saman við en þó þannig að það sé á stærð við smáar baunir, setjið blönduna í djúpa skál. Blandið eggi, rjóma, mjólk og vanilludropum saman í aðra skál. Hellið eggja/mjólkurblöndunni út í þurrefnin og blandið öllu saman með sleikju þar til deigið er samlagað. Hnoðið létt saman, ekki hnoða of mikið, og fletjið deigið létt út með flötum lófum þannig að það verði 1 1/2 sm að þykkt, notið hveiti til að deigið festist ekki við borðið. Stingið úr kringlóttar skonsur með formi eða glasi sem er um 5 cm í þvermál, hnoðið afskurðinn aftur og mótið skonsur úr öllu deiginu. Raðið skonsunum á bökunarpappír á ofnplötu, penslið ofan á með mjólk. Bakið í 15 -18 mín í miðjum ofni. Kælið á rist. Bestar nýbakaðar með léttum rjómaosti eða rjóma og sultu.


Sunday, September 25, 2011

Besta sítrónukakan

Sítrónukökur eru í miklu uppáhaldi hjá nokkrum fjölskyldumeðlimum á okkar heimili og eru bakaðar reglulega. Þessi uppskrift er nokkuð gömul og kemur upprunalega frá meistara Raymond Blanc. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hans. Hann er sjálflærður matreiðslumaður, segist samt hafa lært mest af mömmu sinni sem hann segir vera frábæran kokk. Raymond Blanc hefur í áraraðir rekið frábæran veitingastað í Bretlandi sem heitir Le Manoir Aux Quat'Saison
Ég hef ekki enn borðað hjá honum, á það vonandi eftir.

Sítrónukaka

10 -12 sneiðar
2 1/2 sítrónur, börkur af öllum og safi af einni
5 egg
350 g sykur
smá salt
1 1/2 dl rjómi
270 g hveiti
2 tsk lyftiduft
100 g smjör, brætt og kælt aðeins

glassúr:
safi af 1/2 sítrónu
100 g flórsykur

Hitið ofninn í 180°C, 165 á blástur. Setjið sítrónubörk, egg og sykur í skál og þeytið saman þar til létt og loftkennt, hellið sítrónuberki út í smám saman í restina. Sigtið hveiti og lyftiduft saman. Bætið rjóma, hveiti og lyftidufti út í og blandið saman við með sleikju. Bætið smjöri út í síðast í mjórri bunu og blandið saman við. Smyrjið eða setjið bökunarpappír í 30 cm langt jólakökuform. Hellið deiginu í formið og bakið þetta í miðjum ofni í 50-55 mín. Notið prjón til að athuga hvort kakan er bökuð. Losið kökuna varlega úr forminu og kælið hana á rist. Hrærið glassúrinn saman með því að hræra sítrónusafa og flórsykur saman. Smyrjið glassúrnum yfir kökuna. Skreytið e.t.v. með sítrónu eða límónuberki.

Sunday, September 18, 2011

Frönsk og frábær

Franska lauksúpan á sér langa sögu. Uppruni hennar er sennilega frá tímum Rómverja. Þeir suðu lauk, sem allir gátu ræktað, og vatn saman og þótti þetta vera mettandi fátækramannamatur. Frakkar þróuðu síðan snemma uppskriftina og bættu brauði og glóðuðum osti ofan á og varð þetta vinsæll matur þar í landi. Súpan komst síðan mjög í tísku í Ameríku um 1960 þegar franska matarmenningin varð vinsæl vestra og hefur Julia Child átt þar stóran þátt.
Þetta er sígild súpa, algjör drottning að mínu mati en eins góð og hráefnið sem fer í hana ( eins og allt annað). Gott soð, smá púrtari, vel af pipar og góður ostur ofan á eins og t.d. Ísbúi gerir þessa súpu vel hæfa í matarboðið.


Frönsk lauksúpa
fyrir 6

1 - 1 1/2 kg laukur
3-4 hvítlauksrif, söxuð
80 - 100 g smjör
slatti nýmalaður pipar
40 g hveiti
1 líter gott nautasoð ( fæst t.d. í Kost) má líka nota grænmetissoð
4-5 dl vatn
1-1 1/2 dl púrtvín
sjávarsalt

gott snittubrauð eða Ciabattabrauð
sterkur ostur

Afhýðið laukunn og skerið hann í tvennt, skerið hvern helming í tvo hluta og sneiðið hann niður. Þetta er mikið af lauk og mikið táraflóð. Steikið laukinn og hvítlaukinn í smjörinu í um 15 mín eða þar til laukurinn er glær og aðeins farin að taka lit. Piprið vel í pottinn og látið piparinn steikjast aðeins með, mér finnst piparinn njóta sín vel með þessari aðferð. Stráið hveitinu yfir laukinn og hrærið honum saman við með sleif. Hellið öllum vökva sem á að fara í súpuna út í, fyrst smávegis og svo öllu til að hveitið fari ekki í kekki. Sjóðið súpuna í 30 mín við meðalhita, smakkið til með pipar og sjávarsalti.
Hitið ofninn á grill. Skerið brauðið niður í teninga ( það er auðveldara að borða súpuna þannig) eða sneiðar og stráið rifnum osti yfir. Grillið brauðið þar til það er gullið og girnilegt. Hellið súpunni í skálar og setjið grillað ostabrauð í hverja súpuskál. Berið fram strax.

Sunday, September 11, 2011

Ódýr og fljótlegur

Er það ekki það sem allir vilja kunna, að gera ódýran mat sem er fljótlegt að elda og bragðast eins og besti veislumatur. Þetta er sá réttur á okkar heimili. Allt í ofnskúffu, tími til að kósa sig, sinna skylduverkum.............. eða skreppa í göngutúr og finna matarilminn koma á móti þér þegar inn er komið.


Fljótlegur kjúklingaréttur

3 bökunarkartöflur
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
1 sítróna í sneiðum (má sleppa)
3 msk olía
8-10 bitar af kjúkling, gott að nota efri læri
salt og nýmalaður pipar
gott krydd eftir smekk

Hitið ofninn í 200°C, 180 á blástur. Penslið ofnskúffu með olíu. Skerið kartöflur í sneiðar og raðið þeim í ofnsúffuna svo þær þeki hana. Skerið laukinn í skífur og raðið ofan á kartöflurnar. Raðið sítrónum ofan á ef þið notið þær. Saltið og piprið. Raðið kjúklingabitunum ofan á grænmetið, penslið aðeins með olíu, líka lauk og kartöflur þar sem kjúklingurinn er ekki ofan á. Kryddið kjúklinginn eftir smekk. Bakið þetta í ofninum í um það bil 30-40 mín eða þar til kjúklingurinn er fallega brasaður og kartöflurnar farnar að taka lit.


Thursday, September 8, 2011

Gott nesti !


Vefjur með reyktum laxi

Nesti er ofarlega í huga þessa dagana þegar berjaferðir og sveppaferðir eru í algleymingi. Ikea er með ýmislegt spennandi í matardeildinni, þar kaupi ég þetta þunna flatbrauð með smá anisbragði sem er góð tilbreyting frá venjulegu brauði. Ég smyr það með rjómaosti, set nokkrar sneiðar af reyktum laxi ofan á, smá klettakál, vel af pipar og ferskri piparrót og rúlla upp. Meiriháttar gott.

Monday, August 29, 2011

Sunnudagsmorgun


Morgunmatur á sunnudegi

Sunnudagsmorgnar eru alltaf sérstakir og gaman að útbúa eitthvað gott og dekra svolítið við sig. Þetta er það sem mér finnst ómótstæðilegt. Steiktir brauðteningar (gott að nota gróft brauð) með smá hvítlauk og steinselju, góð parmaskinka, 4 mínútna egg sem leka yfir diskinn og steiktir konfekt tómatar.....Mmmmm...........

Monday, August 22, 2011

Bomban !!

Æskuminningar um mat og kökur fylgja manni oft langt fram á fullorðinsár og eru mikilvægur þáttur í daglegu lífi. Kökurnar sem ég bakaði fyrir afmæli hér á árum áður er það sem kemur upp í hugann hjá mínum börnum þegar þau eiga afmæli, jafnvel þó þau séu flutt að heiman. Sonur minn fékk þessa köku í afmælisgjöf á 25 ára afmælisdaginn, hann óskaði einskins frekar en eiga hana einn í sínum ísskáp.


Baby-Ruth kaka

Kakan:
3 eggjahvítur
3 dl sykur
2 1/2 dl saltmöndlur
20 stk. Ritz kex
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar

Hitið ofninn í 200°C, 180°C á blástur. Þeytið eggjahvítur og sykur saman í tandurhreinni skál þar til það er hvítur massi. Malið salthnetur gróft í matvinnsluvél og myljið Ritz kexið út í. Blandið lyftidufti saman við kexblönduna. Blandið kexblöndunni út í eggjahvíturnar og blandið saman ásamt vanilludropunum með sleikju. Skiptið deiginu í tvö 24 cm smurð form og bakið þetta í 20 mín. Kælið aðeins og hvolfið síðan á bökunarpappír.

Krem:
50 g smjör
100 g súkkulaði
3 eggjarauður
60 g flórsykur

Bræðið smjör og súkkulaði saman við vægan hita annað hvort í vatnsbaði eða í örbylgjuofninum. Þeytið eggjarauður og flórsykur mjög vel saman eða þar til það er ljóst og loftkennt. Blandið súkkulaðiblöndunni út í eggjamassann og hrærið vel saman.

Á milli:
4-5 dl rjómi, þeyttur

Setja saman:

Leggið kökuna saman með þeyttum rjóma. Smyrjið kreminu ofan á. Ef kremið er of mjúkt sem það getur orðið ef súkkulaðiblandar er of heit er ráð að kæla það þar til það er passlega stíft. Það er samt flott ef það lekur aðeins meðfram hliðunum.

Friday, July 29, 2011


Meira grænmeti



Svona kökubökur eru vinsælar í Frakklandi og margar uppskriftabækur verið gefnar út um þær. Þetta er frábær grænmetisréttur og góður í nestispakkann.


"Cake" eða Kökubaka
8 sneiðar

3 egg
3/4 dl olía
1 dl mjólk
1/2 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar
180 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
1 krukka fetaostur án olíunnar eða um 200 g mulinn fetaostur
150 g góðar ólífur
200 g konfekttómatar, skornir í tvennt
ferskt kryddjurtir, basil eða annað eða 1-2 tsk. þurrkað
3 msk. parmesanostur
3-4 msk. ostur til að setja ofan á

Hitið ofninn í 180°C. Setjið egg, olíu, mjólk, salt og pipar í skál og þeytið létt saman. Sigtið hveiti og lyftiduft saman og bætið út í. Setjið allt annað nema ostinn sem fer ofan á út í og hrærið saman með sleikju. Hellið í smurt jólakökuform um 20 cm langt og bakað í miðjum ofni í 40 mín. eða þar til kakan er stíf. Berið fram volga eða kalda með salati. Frábær í nestispakkann.

Wednesday, July 20, 2011

Butternut grasker hvernig á að elda ?

Þegar ég keypti þetta Butternut grasker í versluninni Víðí um daginn spurði stúlkan á kassanum mig hvernig ég eldaði það. Ég reyndi að útskýra það og þótti dálítið leiðinlegt að hún gæti ekki smakkað hvað er hægt að gera frábæran rétt úr þessu góða hráefni. Þessi er uppáhaldsgræni á mínu heimili og ekki síður til að hafa með í nesti næsta dag........ef það verður afgangur !!


Ofnbakað butternut grasker með grænmeti
fyrir 4-5

2 butternut grasker, ekki of stór
4 msk. olía
2 hvítlauksgeirar, marðir
1 tsk. timian
1 tsk. oreganó
sjávarsalt
nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 200°C. Skerið graskerin í tvennt eftir endilöngu og fjarlægið kjarnana. Skerið rákir ofan í aldinkjötið, raðið graskerunum á ofnskúffu með sárið upp. Setjið olíu, lauk og krydd í skál og blandið saman. Hellið kryddleginum ofan á graskerið, bakið þetta í ofninum í 35-40 mín.

Ofan á:

3 msk. olía
1 rauðlaukur, í sneiðum
2 hvítlauksrif, sneidd
1 -2 paprikur, í sneiðum, gjarnan 2 litir
200 g smátómatar
slatti fetaostur
3 msk. parmaostur
3 msk. brauðrasp
3 msk. steinselja, söxuð

Steikið rauðlauk og hvítlauk smá stund. Bætið papriku út í og steikið áfram. Takið af eldavélahellunni og bætið tómötum og fetaosti í. Skiptið blöndunni ofan á graskerið. Blandið osti, raspi og steinselju saman og sáldrið ofan á allt saman. Bakið áfram í 10-15 mín. Berið fram
með salati. Frábært líka kalt næsta dag. Ef þið eigið basil er gott að setja smá ofan á.

Friday, July 8, 2011

Póstfiskur

Þessi fiskréttur var oft í matinn á heimilinu þegar krakkarnir mínir voru litlir. Þau fundu upp nafnið, fannst sniðugt að pakka fisknum svona inn. Hollur, fljótlegur og góður fiskréttur, er það ekki uppskrift sem við viljum öll !


Póstfiskur
fyrir 4-5

700-800 g beinlaus fiskstykki, gott að nota þorsk, skötusel, keilu eða löngu
2 mossarellaostar, skornir í sneiðar
3 kvistar ferskt basil, eða góð handfylli blöð
4-5 tómatar, skornir í sneiðar
ólífuolía
nýmalaður pipar og salt

Hitið ofninn í 180°C. Klippið bökunarpappír niður í ferninga ca. 30x30 cm. Raðið fiskstykkjunum á bretti og raðið osti, tómötum og basil lagskipt ofan á fiskinn, saltið og piprið og hellið smávegis af ólífuolíu ofan á. Pakkið fisknum inn ( gott að hefta efst) og passið að samskeytin séu ekki undir svo holli safinn leki ekki úr. Raðið fispökkunum í ofnskúffu og bakið hann í 15 mín. Mér finnst gott að bera hýðisgrjón fram með fisknum, og bleyta þau í safanum sem kemur af fisknum, hollt og gott.

Sunday, June 26, 2011

17 júní !

Þessar kökur voru bakaðar á þjóðhátíðadaginn. Íslansk jarðaber frá Silfurtúni og flagg vakti lukku. Uppskriftina gerði ég upprunalega fyrir bollakökuþátt í Gestgjafann. Hún er hér í örlítið breyttri mynd.


Jarðaberjakökur
12 stórar kökur

100 g smjör, mjúkt
150 g sykur
3 egg, meðalstór
180 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
1/2 dl sítrónusafi
2 tsk. sítrónubörkur
100 g sýrður rjómi

safi til að vökva kökurnar:
1 1/2 dl vatn
3/4 dl sítrónusafi
3/4 dl sykur
3 tsk. sítrónubörkur

Ofan á:
4-5 dl rjómi, þeyttur
400 g fersk jarðaber
sykur eða vanillusykur

Hitið ofninn í 180°C, 165°C á blástur. Hrærið saman smjör og sykur þar til ljóst og loftkennt. Bætið eggjum út í einu í einu og blandið öllu vel saman. Bætið öllu öðru sem fer í kökurnar út í og blandið vel. Setjið pappírsmúffuform í holurnar á múffuformi og skiptið deiginu jafnt í formin. Bakið kökurnar í miðjum ofni í 20 mín. Fjarlægið pappírinn og setjið kökurnar í meðaldjúpt fat, helst svolítið þétt.

Sjóðið safann sem fer í að væta kökurnar saman á meðan kökurnar eru að bakast og kælið hann aðeins. Dreypið honum yfir kökurnar, þetta er ríflegt magn en ég vil hafa kökurnar blautar og með milku sítrónubragði svo ég nota hann nær allan. Kælið kökurnar í ísskáp.

Takið frá 12 jarðaber til að setja ofan á kökurnar og maukið restina. Blandið saman við rjóman og smakkið til með sykri eða vanillusykri eftir smekk. Setjið jarðaberjarjóna á hverja köku og setjið hana á nýtt múffubréf. Skreytið með jarðaberi og flaggi ef við á.

Friday, June 10, 2011

Besta samlokan


Samlokan í lautarferðina

Nesti er háalvarlegt mál, allavega hjá mér. Að borða úti í guðsgrænni er alltaf yndislegt. Leyndarmálið að góðri samloku er smávegis af gæðamæjónesi og að salta og pipra áleggið.

Samlokan

Gott nýtt gróft brauð, smurt með smá smjöri
smá majones (Hellemans) hrært út með smá grófu sinnepi
avokadosneiðar
tómatasneiðar eða rauð paprika
gúrkusneiðar
harðsoðin egg, sneidd
klettakál
nýmalað salt og nýmalaður pipar

Sunday, May 15, 2011

Veisla í húsinu

Ferskur aspas er veisla í mínum huga. Þennan aspas keypti ég í Kost í síðustu viku og hann bragðaðist unaðslega ! Kostur fær sendingu af fersku grænmeti frá Ameríku á fimmtudögum og ýmislegt spennandi í boði. Það er hægt að matreiða aspasinn á ótal vegu en þegar maður fær hann svona sjaldan eins og hér á landi ( og hann er ekki ódýr) finnst mér best að njóta hans svona á einfaldan hátt með feitri og fitandi smjörsósu. Mmmmmm............


Aspas með hollandaise sósu
aðalréttur fyrir 2

800 g ferskur aspas
vatn, salt

Skerið um 1 cm af á neðsta partinum af stönglinum. Flysjið aspasinn upp á hálfan stöngul (sjá mynd). Sjóðið vatn með salti, setjið aspasinn út í sjóðandi vatnið og sjóðið hann í 4-5 mín.

Hollandaise sósa

120 g smjör, brætt og kælt aðeins
3 eggjarauður
1 1/2 msk. vatn
1 msk. sítrónusafi
salt og nýmalaður pipar

Setjið eggjarauður og vatn í skál og þeytið saman yfir vatnsbaði þar til það er þykkt og freyðandi. Hellið smjörinu í mjórri bunu út í og þeytið í á meðan. Passið að sósan hitni ekki of mikið, takið hana af hitanum ef hún fer að verða of heit. Bætið sítrónusafa út í og smakkið til með salti og pipar. Berið fram strax.


Sunday, May 8, 2011

Bakaðir bananaskalotlaukar
forréttur fyrir 4-6

12 stk. bananaskalotlaukur
smá olía til að pensla laukinn
olía til að hella í laukinn eða 1/2 krukka fetaostur
sjávarsalt og nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 200°C. Penslið laukinn með olíu og setjið í ofnskúffu. Bakið hann í 30 -40 mín. Skerið rauf ofan í hvern lauk með beittum hníf. Hellið olíu eða fetaost í raufina og saltið og piprið yfir. Berið gott brauð með.


Einfalt og gott

Það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að gera góðan mat á einfaldan hátt. Þessir bananaskalotlaukar sem nú fást í flestum stórmörkuðum eru algjört sælgæti bakaðir í ofni. Eina sem þarf að gera er að setja smá sjávarsalt og góða olíu og veislan er tilbúin.

Saturday, April 23, 2011

Gleðilega Páska !


Ég var með einhverjar hugmyndir um að gera bananabrauð úr þroskuðu banönunum sem ég átti en það var samstundis slegið út af borðinu af fjölskyldumeðlimum sem langaði ótrúlega í bananarúllutertu. Þessi rúlluterta er búin að vera í uppáhaldi í mörg ár. Uppskriftin er frá mömmu eins og svo margt annað sem er vinsælt á heimilinu en ég stækkaði uppskriftina svo hún passar í ofnskúffuna sem fyllir út í ofninn. Það tekst ekki alltaf jafn vel að fletta pappírnum af henni og oft verður smá kökuhúð eftir á pappírnum en þegar búið er að setja rjóma og banana ofan á og strá smá súkkulaði líka er hún alltaf falleg og girnileg.



Bananarúlluterta

fyrir 8

4 egg
160 g sykur
65 g kartöflumjöl
2 tsk. lyftiduft
3 msk. kakó
4 bananar
4 dl rjómi
20 g súkkulaði, saxað eða rifið gróft
sítrónusafi til að kreista yfir bananana

Hitið ofninn í 250°C, 220 á blástur. Þeytið egg og sykur mjög vel saman eða þar til það er létt og loftmikið. Blandið kartöflumjöli, lyftidufti og kakó saman og sigtið út í eggjamassann, blandið varlega saman með sleikju. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, smyrjið pappírinn með matarolíu. Hellið deiginu í formið og bakið kökuna í miðjum ofni í 4 -5 mín. Setjið örk af bökunarpappír á borðið, stráið svolitlum sykri á hann. Hvolfið kökunni á pappírinn, látið kólna smástund og flettið pappírnum síðan varlega af. Ef það reynist erfitt að ná pappírnum af er ráð að setja rakt viskustykki ofan á smástund og fletta kökkunni af pappírnum með hníf. Látið kökuna kólna.
Þeytið rjómann, takið smávegis frá til að skreyta með. Stappið 3 banana og blandið saman við rjómann sem fer í fyllinguna. Smyrjið bananarjómanum á kökuna og rúllið henni upp. Sprautið eða setjið rjóma ofan á rúlluna með skeið og skreytið með banananasneiðum. Kreistið sítrónusafa yfir bananana svo þeir verði ekki brúnir. Stráið súkkulaði ofan á.

Monday, April 11, 2011

Eplakassinn ómótstæðilegi

Það er ekki sjéns að standast að kaupa svona eplakassa sem var í boði í Nettó um helgina, yndislega góð og safarík. Þegar allir voru búnir að fá nóg af ferskum eplum gerðum við múffur úr restinni og settum í frysti.


Það er svo auðvelt að gera múffur, enginn hrærivél og fljótlegt að blanda saman. Til að fá léttar og góðar múffur er atriði að hræra ekki of mikið saman, bara blanda létt með gaffli og leyfa klumpum að vera.

Eplamúffur
12 stk.

220 g hveiti eða blanda af hveiti og heilhveiti
2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
130 g sykur
80 g smjör, kalt

1 1/2 epli, flysjað og skorið í teninga
3 msk. sykur
3/4 tsk kanell
1 stórt egg
2 dl jógúrt, mjólk eða ab-mjólk
1 tsk. vanillusykur

Hitið ofninn í 180°C eða 170°C á blástur. Blandið hveiti, lyftidufti, salti og sykri saman í skál. Skerið smjörið í bita og myljið saman við hveitiblönduna.
Blandið epli, sykri og kanel saman í skál.
Blandið eggi, jógúrt og vanilludropun saman í skál.
Hellið eggjablöndunni út í hveitiblönduna og hrærið saman með gaffli, ekki hræra of mikið bara svo það samlagist, má vera kekkjótt. Bætið eplum út í og blandið lauslega. Setjið pappírsmúffuform í múffuformið. Skiptið deiginu á milli í formið. Bakið kökurnar í 20 mín. Má frysta. Eru mjög góðar upphitaðar við 100°C í 10 mín í ofni eða setja smástund í örbylgjuofn.

Friday, March 25, 2011

Er vorið að koma ?

Þetta girnilega salat er alveg til þess fallið að bræða hjarta elskunnar þinnar og öll höfum við löngun til þess að dekra við hann eða hana. Nú þegar vorið er á næsta leiti, jú jú það er að koma, er góð stemming í því að hafa þetta djúsí salat í helgarmatinn.



Salat með lambafille
fyrir 2

1/2 eggaldin, skorið í fingurþykkar sneiðar
3 msk. olía
300 g lambafille, 1 stórt eða tvö minni
1 poki blandað salat, gjarnan með spínati og klettakáli saman við
3 msk. furuhnetur, þurrristaðar (nb. ekki kúlulaga heldur ílangar td. frá Náttúru)
1 -2 dl sólkysstir tómatar (frá Ítalía)
1/2 granatepli, kjarnar úr því (má sleppa)
6 msk. góð olía
2 msk hindberjaedik eða balsamsdik
Maldonsalt og nýmalaður pipar


Hitið ofninn í 180°C. Steikið eggaldinsneiðarnar á báðum hliðum í olíu, Geymið á disk. Það er smávandi að steikja eggaldin best er að nota teflohúðaða pönnu og pensla sneiðarnar með olíunni áður er þið byrjið að steikja, pensla svo aftur á miðri leið. Ekki bæta meiri og meiri olíu á pönnuna eins og virðist þurfa.
Steikið lambafille á pönnu með fituhliðina niður fyrst og síðan á öllum hliðum þar til þær eru brúnaðar. Setjið í ofninn í 10-15 mín, tími fer eftir stærð. Hrúgið salatinu á fat. Rífið eða skerið eggaldinsneiðar í tvennt og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið líka ofan á. Dreifið sólkysstum tómötum, furuhnetum og granateplakjörnum ofan á og hellið olíu og hindberjaediki yfir. Saltið og piprið. Berið fram með góðu brauði og rauðvíni.

Monday, March 21, 2011

Frábær eftirréttur með lítilli fyrirhöfn

Það er ekki mikil fyrirhöfn að gera þennan flotta og ljúffenga eftirrétt. Það er meira að segja minnsta mál að gera hann í sumarbústað.........og slá í gegn.


Tiramisu í glösum
fyrir 2

100 g rjómaostur
1 msk. hrásykur
1 eggjarauða
1 -1 1/2 dl rjómi, léttþeyttur
6 fingurkökur
3 msk. sterkt lagað kaffi
3 msk. kaffilíkjör
50 g súkkulaði 70%, saxað mjög fínt

Hrærið rjómaost þar til hann fer að verða mjúkur. Hrærið eggjarauðu og hrásykur þar til blandan verður létt og loftkennt. Blandið þessu saman með sleikju. Blandið næstum öllum rjómanum saman við, geymið smávegis til að skreyta með. Brjótið 3 fingurkökur í hvort glas. Hellið jafnt af kaffi og kaffilíkjör ofan á kökurnar, ef ég á ekki kaffi læt ég bara líkjör, nammi-namm. Bíðið smástund meðan vökvinn er að blandast kökunum. Hellið rjómakremi varlega ofan á kökurnar. Stráið vel af söxuðu súkkulaði ofan á rjómakremið. Skreytið með rjómatopp og smá af súkkulaði. Kælið.

Saturday, March 12, 2011

Helgarbaksturinn

Mamma mín var mikill sælkeri og var svolítið veik fyrir döðlubrauði. Hún prófaði sig áfram með nokkrar uppskriftir og fannst þessi koma best út. Þetta sætabrauð er mikið uppáhald á okkar heimili og er oft bakað.


Döðlubrauð

Hér er notað amerískt bollamál.

1 bolli púðursykur
1 1/2 bolli hveiti
1 msk. brætt smjör
2 bollar saxaðar döðlur
1 bolli saxaðar hnetur eða möndlur
1 bolli sjóðandi vatn
1 tsk. matarsódi
2 egg

Hitið ofninn í 170°C. Setjið allt í hrærivélaskál og hrærið saman í 3-5 mín. Setjið deigið í stórt smurt jólakökuform, líka gott að setja bökunarpappír meðfram hliðunum á forminu. Bakið brauðið í 50 mín. Athugið hvort það sé bakað með því að stinga prjóni í það. Ef hann kemur hreinn út er það bakað. Borðið smurt með smjöri.

Monday, March 7, 2011

Bolludagur !!

Skotheld uppskrift og góð ráð eru á blogginu síðan í fyrra, í dálkinum um bakstur. Myndina af þessum bollum tók Rakel Ósk http://rakelosk.com/ einn af okkar frábæru ljósmyndurum á Gestgjafanum.


Frábært, einn dagur á ári þar sem allir borða rjómabollur, góður siður. Vinkona mín sem á sykursjúka dóttir segir að maður eigi að borða fersk ber með sætindum. Berin eru ekki bara gómsæt heldur hjálpa líkamanum að vinna úr sykrinum. Gott að vita á bolludaginn.

Saturday, March 5, 2011

Vænt og grænt

Hér er annar réttur úr fallega graskerinu sem ég keypti um daginn.


Graskers eggjabaka
fyrir 4-6

2-3 msk. olía
600 g grasker í bitum, munnbitastærð
300 g kartöflur, í bitum, svipuð stærð
sjávarsalt og nýmalaður pipar
6 egg
1 paprika, skorin í litla bita eða 1 krukka papprikur í olíu, saxaðar
100 g spínat
100 g fetaostur
100 g rifinn ostur
1 tsk. sjávarsalt

olía til að smyrja formið með

Hitið ofninn í 180°C. Dreifið graskers og kartöflubitum á smjörpappír í ofnskúffu, veltið upp úr olíu, saltið og piprið. Bakið í um 25 mín. Sláið eggin létt saman í skál. Setjið allt út í skálina, grasker og kartöflur líka, og blandið saman. Smyrjið ofnfast form með olíu og hellið blöndunni í það. Bakið í 40 mín. Berið gott salat með.

Monday, February 28, 2011

Grasker, fullt af mat !

Ég fékk þetta fallega grasker í Nettó um daginn. Það er ýmislegt gott hægt að gera úr svona graskeri eins og súpu, pastasósu, ofnrétti, kökur, rísottó, steikja í ofni penslað með olíu, sjóða og gera mauk og margt fleira. Ég bjó til súpu og ofnrétt. Súpuuppskriftin er hér fyrir neðan, ofnrétturinn kemur næst.


Þessi súpa er bæði ódýr, saðsöm og góð. Uppskriftin er hér fyrir neðan en þykktin á súpunni fer svolítið eftir graskerinu sjálfu. Stundum er hún þykk og matarmikil, sérstaklega ef ég nota stóru graskerin sem eru seld í sneiðum. Þessi tegund sem ég keypti í Nettó er ekki eins mjölmikil þannig að ef þið viljið hafa súpuna vel þykka er ráð að hræra 1 msk. kartöflumjöl út í vatni og þykkja hana þannig. Eða bara nota minna vatn.


Graskerssúpa
fyrir 6-8

2-3 msk. oía
2 stórir laukar, saxaðir
2 stór hvítlauksrif, söxuð
500-600 g grasker afhýtt og skorið í munnbitastærð
1-2 gulrætur, flysjaðar og sneiddar
1 rauð paprika, söxuð
1/2 ferskt chili, saxað
1/2 tsk. paprikuduft
1 1/2 líter vatn
2 súputeningar
1 tsk. salt
nýmalaður pipar

1 dl sýrður rjómi
4 msk. söxuð steinselja eða kóríander

Steikið lauk og hvítlauk í olíu við frekar vægan hita það til allt fer að mýkjast. Bætið graskeri, gulrótum, papriku og chili út í og látið krauma smástund saman. Bætið paprikudufti út í og blandið saman við. Hellið vatni út í og látið sjóða saman ásamt súputeningum, salti og pipar í 30-40 mín. Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkið til með salti og pipar. Berið hana fram með slettu af sýrðum rjóma og stráið steinselju eða kóríander yfir. Yndisleg í vetrarkuldanum !!!

Thursday, February 24, 2011

Máltíð soldánsins

Soldánar í tíð Ottómanveldisins áttu gjarnan margar konur. Í þá daga var trú manna að menn sem áttu margar konur þyrftu að borða mikið af kjöti.....og eggjum. Þessi réttur var vinsæll því hann inniheldur bæði hráefnin. Það er skondið að við hér á norðurhveli skulum fara í kryddhilluna til að ná í kryddin eins og kanel sem laða fram stemmingu Mið-Asturlanda. Yndislegur réttur, tilvalinn í helgarmatinn.


Marokkóskar kjötbollur í tómat
fyrir 6

800 g nautahakk
1 laukur, fínt saxaður
3 msk. fersk steinselja, söxuð
1 1/2 tsk. kanell
1 tsk. cuminduft
1 tsk. paprikuduft
1/2 -1 tsk. engiferduft
smá chiliduft
salt og pipar

Hnoðið allt saman (hægt að gera í hrærivél) og mótið meðalstór buff. Brúnið buffin í olíu á pönnu í tveimur umgöngum og setjið þau í ofnskúffu. Geymið.

2 msk. olía
2 laukar saxaðir
2-3 hvítlauksrif, söxuð
1 tsk. kanell
1 tsk. paprika
1/2 tsk. cuminduft
smá chiliduft
2 dósir góðir tómatar í dós, saxaðir gróft
2 tsk. hrá eða púðursykur
salt og nýmalaður pipar
3 msk. söxuð steinselja eða kóríander
6 egg

Hitið ofninn í 200°C. Steikið lauk og hvítlauk í djúpri pönnu í olíu við hægan hita þar til laukarnir fara að mýkjast. Bætið kryddi á pönnuna og steikið í 1 mín saman. Bætið tómötum ásamt safa í dósinni ásamt sykri, salti og pipar út í. Látið malla saman í 20 mín. Smakkið til og bætið e.t.v. meira kryddi út í. Skellið bollunum í ofninn í 3-5 mín eða þann tíma sem tekur að elda þær ( það fer eftir því hvað þið viljið hafa kjötið vel steikt). Spælið eggin ofan í tómarsósuna, setjið lok eða álpappír á pönnuna og látið eggin eldast í 3-4 mín. Raðið bollunum á diska, hellið sósu og einu eggi á mann yfir. Sáldrið steinselju eða kóríander yfir réttinn og berið fram með kús-kús eða brauði.

Sunday, February 20, 2011

Sunnudagsbakstur

Þetta er skúffukakan sem mamma mín bakaði alltaf. Henni fannst þessi uppskrift þægileg því hún er fljótleg, tekur innan við 30 mín að gera hana tilbúna á diskinn. Uppáhald allra með ískaldri léttmjólk.


Skúffubitar

2 egg
3 dl sykur (180 g)
4 1/2 dl hveiti (270 g)
2 1/2 tsk. lyftiduft
2 tsk. vanillusykur
2 msk. kakó
150 g smjör, brætt
1 1/2 dl mjólk

Hitið ofninn í 225°C (210°C á blástur). Þeytið egg og sykur vel saman eða þar til það er léttur og loftkenndur massi. Sigtið hveiti, lyftiduft og kakó saman í skál, bætið vanillusykri út í. Bætið bræddu smjöri og mjólk í eggjamassann og blandið öllu vel saman. Hellið deiginu í smurt form 30x30 cm eða sambærilega stærð og jafnið því í formið. Bakið kökuna í 8-10 mín. Kælið smástund.

krem:
3 1/2 dl flórsykur (180 g)
2 msk. kakó
2 tsk. vanillusykur
4 msk. smjör, brætt
4 msk. lagað kaffi
4-5 msk. kókosmjöl til að setja ofan á kremið

Sigtið flórsykur og kakó saman í skál. Bætið vanillusykri, smjöri og kaffi út í. Smyrjið kreminu á kökuna og sáldrið kókosmjöli yfir.

Tuesday, February 15, 2011

Sætur endir


Þetta er einn af uppáhaldseftirréttunum á heimilinu. Jafnvel meðal þeirra sem annars eru ekki mikið fyrir kaffi, merkilegt nokk ! Það er auðvelt að laga Tiramisu, enginn bakstur en smá fyrirhöfn við að hræra saman. Mér finnst hún best svona, ostakremið frekar þykkt og kökurnar passlega blautar af sætum, sterkum kaffileginum.


Tiramisu

1 pakki fingurkökur (Ladyfingers)
2-3 dl sterkt kaffi
2 msk. sykur
1/2 dl masalavín (má sleppa)

1 peli rjómi
400 g rjómaostur
3 eggjarauður
6 msk. sykur
2-3 msk. Masalavín (má sleppa)
2 tsk. vanilludropar
60-80 g súkkulaði, rifið fínt


Raðið fingurkökum í fallegt fat. Blandið kaffi, sykri og víni saman. Dreypið kaffiblönduni yfir kökurnar. Léttþeytið rjómann og setjið í skál. Hrærið ostinn í sömu skál (óþarfi að þvo skálina)þar til hann er mjúkur og setjið í aðra skál. Þvoið skálina og þeytið egg, sykur og vín saman þar til létt og loftkennt. Blandið osti og vanilludropum út í og hrærið þar til samfellt. Bætið 1/3 af rjómanum út í ostinn. Smyrjið ostakreminu ofan á fingurkökurnar. Jafnið rjómanum þar ofan á. Stráið rifnu súkkulaði yfir rjómann. Góð samdægurs en líka daginn eftir. Kakan geymist í 4-5 daga.


Thursday, February 10, 2011


Tómatar í dós, ekki sama og tómatar í dós.


Þessir tómatar eru í uppáhaldi. Þeir eru 100 kr dýrari en hin merkin en eru svo miklu bragðmeiri og betri. Mæli með því að splæsa í góða tómata þegar verið er að gera rétti það sem þeir eru í aðalhlutverki eins og tómatsúpur og fleira.

Saturday, February 5, 2011

Laugardagsmaturinn

Það er hægt að finna endalausa möguleika á að matreiða kjúkling en samt endar maður oft í því sama sem er fljótlegast að baka hann í ofni. Hér er uppskrift sem ég gerði í Gestgjafann fyrir nokkrum árum. Hann er bakaður í ofni en með mjög bragðgóðum kryddhjúp. Alveg komin tími til að rifja þessa upp.

Kjúklingur með kryddhjúp

4 kjúklingalæri eða samsvarandi af bitum
3 msk. brætt smjör
70 g kartöfluflögur - Kettler´s eru vandaðastar og bestar en dýrastar
50 g rifinn parmaostur (1 dl)
1 msk. ferskt estragon eða 1-2 tsk. þurrkað
salt og nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 180°C. Myljið kartöfluflögur frekar fínt í skál. Blandið parmaosti og kryddi út í mylsnuna. Penslið kjúklingalærin á báðum hliðum með bræddu smjöri. Veltið kjúklingalærunum upp úr mylsnunni og raðið þeim á smjörpappír á ofnskúffu. Notið alla mylsnuna, klessið því sem er afgangs ofan á kjúllann. saltið og piprið. Bakið bitana í 40 mín eða þar til þeir eru eldaðir í gegn. Berið fram með góðu salati.

Monday, January 31, 2011

Gamla góða

Ég er búin að prófa margar uppskriftir að gulrótarköku en alltaf hefur gamla góða uppskriftin frá mömmu vinninginn.

Gulrótarkaka

150 g sykur
1 1/4 dl olía
3 egg, stór
150 g hveiti
1/2 tsk. kanell
1/2 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. vanillusykur
1/4 tsk. salt
1-2 tsk. sítrónubörkur
250 g fínt rifnar gulrætur
75 g rúsínur
50 g heslihnetur, saxaðar gróft

Hitið ofninn í 170°C, 160 á blástur. Þeytið sykur og olíu vel saman. Bætið eggjum út í einu í einu og hrærið vel saman við. Setjið hveiti, kanel, matarsóda og lyftiduft í skál, blandið því aðeins saman og sigtið það út í. Bætið síðan vanillusykri, salti, sítrónubörk, gulrótum, rúsínum og heslihnetum í deigið og blandið öllu saman. Setjið bökunarpappír á botninn á 22-24 cm smelluformi. Hellið deiginu í það. Bakið kökuna í um 50 -60 mín. Fylgist vel með kökunni í lok bökunartímans, kúnstin við djúsí gulrótarköku og svona matarkökur almennt er að baka þær ekki of lengi, taka þær úr ofninum rétt eftir að hætt er að "hvissa" í henni.
Losið kökuna úr forminu , setjið hana á tertudisk og látið hana kólna.

Krem:
80 g rjómaostur
80 g smjör
80 g flórsykur
1 tsk. vanilludropar

Hrærið allt vel saman og smyrjið ofan á kökuna.

Monday, January 24, 2011


Kássukelling........

Ég er mjög veik fyrir kássum sem eru búnar að elda í óratíma. Sérstaklega eins og þessari sem er full af bragðmiklum kryddum frá fjarlægum löndum. Nú er einmitt tíminn fyrir pottrétti sem ylja og næra.


Marokkóskur pottréttur
ætti að duga fyrir 4

3 msk. olía
2-3 laukar, saxaðir
2 stór hvítlauksrif, söxuð
1 kg. lambakjöt til dæmis lærissneiðar, skorið í bita
1 tsk. engifer
1 tsk. paprika
1 tsk. cuminduft
1 tsk. nýmalaður pipar
2 tsk. sjávarsalt
1-2 kanelstöng, eftir stærð
2 lárviðarlauf
3 stjörnuanísar
1 msk. hunang eða hlynsíróp
6 dl vatn
----
250 g sveskjur
250 g apríkósur


Steikið laukinn við vægan hita í olíu þar til hann fer að verða gullinn, steikið hvítlaukinn með síðustu mínúturnar. Setjið kjöt út í og steikið dágóða stund eða þar til það er brúnað. Bætið kryddi út í og steikið saman þar til allt fer að ilma eins og á arabískum veitingastað. Hellið vatni út í , hrærið vel í og látið allt malla í 50 mín til klukkutíma. Bætið þá sveskjum og apríkósum út í og látið malla í 30 mín í viðbót. Berið fram með kús-kús.

Friday, January 21, 2011

Dekrað við bóndann

Á mínu heimili er ekki dekrað við bóndann með súrum mat. Þessar ostastangir er það sem hann valdi sér enda er þær ótrúlega góðar. Þær er gerðar úr blaðdeigi og eru frábærar sem snakk fyrir matinn þegar eitthvað stendur til eða hluti af rétt á smáréttaborðið.




Ostastangir

3 msk. olía
2 laukar, þunnt sneiddir
2 hvítlauksrif, söxuð fínt
1 dl hvítvín, má vera óáfengt
2 tsk. sykur
1 dós ansjósur, 6-8 flök, þerrið mestu olíuna af og fínsaxið
hnefafylli steinselja, söxuð
2 dl bragðmikill ostur, td Ísbúi, rifinn niður
6 blöð blaðdeig, fílódeig
70 g smjör brætt

Hitið ofninn í 230°C, 210 á blástur. Steikið laukinn í olíunni við hægan hita þar til hann fer að verða glær og mjúkur, bætið hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið hvítvíni og sykri út á pönnuna og látið malla í 5 mín. Setjið laukinn í skál og blandið ansjósum, steinselju, og ost saman við smakkið til með salti og pipar. Leggið 3 arkið af blaðdeigi á borð með bræddu smjöri á milli. Breiðið laukblöndunni á deigið. Setjið aðrar 3 arkið af deigi ofan á, smyrjið á milli. Skerið deigið í 3 hluta, á breiðari kantinn og síðan í fingurþykkar stangir. Setjið bökunapappír á ofnplötu. Snúið upp á stangirnar og raðið á ofnplötuna. Bakið í 8-10 mín. Best að borða samdægurs. Má frysta og pakkið þá vel í box.

Wednesday, January 12, 2011

Ómótstæðileg !!

Ég hef verið aðdáandi matargúrúsins Nigel Slater í mörg ár og á flestar matreiðslubækurnar hans. Maðurinn er í hálfgerðu ástarsambandi við mat og bækurnar hans bera þess merki. Hann ber svo mikla virðingu fyrir hráefninu og fer svo vel með það. Á vefsíðunni hans sá ég uppskrift að espressóköku þar sem heslihneturnar eru ristaðar og malaðar. Það kveikti í mér og útkoman var þessi líka girnilega og gómsæta kaka. Ég breytti henni smá og notaði hrásykur sem gerði hana dekkri, blautari og meira karmellukenndari og jók við hneturnar. Mæli alveg með þessari og ekki láta ykkur detta í hug að sleppa því að rista hneturnar, það er fyrirhafnarinnar virði.


Espressó-súkkulaðikaka

250 g smjör, mjúkt
250 g hrásykur
100 g heslihnetur
4 egg
120 g hveiti (pilsbury´s)
4 tsk. lagað espressó eða 4 tsk. sterkt lagað skyndikaffi
120 g súkkulaði 70%, saxað gróft

Hitið ofninn í 185°C, 175°C á blástur.Hrærið smjör og sykur mjög vel saman. Ristið hneturnar á meðan á pönnu, setjið þær á eldhúspappír eða viskustykki og nuddið hýðinu af þeim. Malið þær fínt í matvinnsluvél. Bætið eggjum út í smjörblönduna, einu í einu og hrærið vel saman. Ef blandan ystir ( sem getur gerst af því þetta er mikið smjör) er gott að setja 2 msk af hveitinu út í og hræra svolítla stund áfram. Bætið hveiti, espressó, hnetumjöli og súkkulaði út í og blandið varlega saman við. Setjið bökunarpappír á botninn á 22 cm smelluformi og jafnið deiginu í það. Bakið kökuna í 50 mín, 40-45 mín á blæstri. Þessi kaka geymist vel eða í tæpa viku í loftþéttum umbúðum.