Monday, April 11, 2011

Eplakassinn ómótstæðilegi

Það er ekki sjéns að standast að kaupa svona eplakassa sem var í boði í Nettó um helgina, yndislega góð og safarík. Þegar allir voru búnir að fá nóg af ferskum eplum gerðum við múffur úr restinni og settum í frysti.


Það er svo auðvelt að gera múffur, enginn hrærivél og fljótlegt að blanda saman. Til að fá léttar og góðar múffur er atriði að hræra ekki of mikið saman, bara blanda létt með gaffli og leyfa klumpum að vera.

Eplamúffur
12 stk.

220 g hveiti eða blanda af hveiti og heilhveiti
2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt
130 g sykur
80 g smjör, kalt

1 1/2 epli, flysjað og skorið í teninga
3 msk. sykur
3/4 tsk kanell
1 stórt egg
2 dl jógúrt, mjólk eða ab-mjólk
1 tsk. vanillusykur

Hitið ofninn í 180°C eða 170°C á blástur. Blandið hveiti, lyftidufti, salti og sykri saman í skál. Skerið smjörið í bita og myljið saman við hveitiblönduna.
Blandið epli, sykri og kanel saman í skál.
Blandið eggi, jógúrt og vanilludropun saman í skál.
Hellið eggjablöndunni út í hveitiblönduna og hrærið saman með gaffli, ekki hræra of mikið bara svo það samlagist, má vera kekkjótt. Bætið eplum út í og blandið lauslega. Setjið pappírsmúffuform í múffuformið. Skiptið deiginu á milli í formið. Bakið kökurnar í 20 mín. Má frysta. Eru mjög góðar upphitaðar við 100°C í 10 mín í ofni eða setja smástund í örbylgjuofn.

No comments:

Post a Comment