Þessar kökur voru bakaðar á þjóðhátíðadaginn. Íslansk jarðaber frá Silfurtúni og flagg vakti lukku. Uppskriftina gerði ég upprunalega fyrir bollakökuþátt í Gestgjafann. Hún er hér í örlítið breyttri mynd.
Jarðaberjakökur
12 stórar kökur
100 g smjör, mjúkt
150 g sykur
3 egg, meðalstór
180 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
1/2 dl sítrónusafi
2 tsk. sítrónubörkur
100 g sýrður rjómi
safi til að vökva kökurnar:
1 1/2 dl vatn
3/4 dl sítrónusafi
3/4 dl sykur
3 tsk. sítrónubörkur
Ofan á:
4-5 dl rjómi, þeyttur
400 g fersk jarðaber
sykur eða vanillusykur
Hitið ofninn í 180°C, 165°C á blástur. Hrærið saman smjör og sykur þar til ljóst og loftkennt. Bætið eggjum út í einu í einu og blandið öllu vel saman. Bætið öllu öðru sem fer í kökurnar út í og blandið vel. Setjið pappírsmúffuform í holurnar á múffuformi og skiptið deiginu jafnt í formin. Bakið kökurnar í miðjum ofni í 20 mín. Fjarlægið pappírinn og setjið kökurnar í meðaldjúpt fat, helst svolítið þétt.
Sjóðið safann sem fer í að væta kökurnar saman á meðan kökurnar eru að bakast og kælið hann aðeins. Dreypið honum yfir kökurnar, þetta er ríflegt magn en ég vil hafa kökurnar blautar og með milku sítrónubragði svo ég nota hann nær allan. Kælið kökurnar í ísskáp.
Takið frá 12 jarðaber til að setja ofan á kökurnar og maukið restina. Blandið saman við rjóman og smakkið til með sykri eða vanillusykri eftir smekk. Setjið jarðaberjarjóna á hverja köku og setjið hana á nýtt múffubréf. Skreytið með jarðaberi og flaggi ef við á.
No comments:
Post a Comment