Sunday, September 25, 2011

Besta sítrónukakan

Sítrónukökur eru í miklu uppáhaldi hjá nokkrum fjölskyldumeðlimum á okkar heimili og eru bakaðar reglulega. Þessi uppskrift er nokkuð gömul og kemur upprunalega frá meistara Raymond Blanc. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hans. Hann er sjálflærður matreiðslumaður, segist samt hafa lært mest af mömmu sinni sem hann segir vera frábæran kokk. Raymond Blanc hefur í áraraðir rekið frábæran veitingastað í Bretlandi sem heitir Le Manoir Aux Quat'Saison
Ég hef ekki enn borðað hjá honum, á það vonandi eftir.

Sítrónukaka

10 -12 sneiðar
2 1/2 sítrónur, börkur af öllum og safi af einni
5 egg
350 g sykur
smá salt
1 1/2 dl rjómi
270 g hveiti
2 tsk lyftiduft
100 g smjör, brætt og kælt aðeins

glassúr:
safi af 1/2 sítrónu
100 g flórsykur

Hitið ofninn í 180°C, 165 á blástur. Setjið sítrónubörk, egg og sykur í skál og þeytið saman þar til létt og loftkennt, hellið sítrónuberki út í smám saman í restina. Sigtið hveiti og lyftiduft saman. Bætið rjóma, hveiti og lyftidufti út í og blandið saman við með sleikju. Bætið smjöri út í síðast í mjórri bunu og blandið saman við. Smyrjið eða setjið bökunarpappír í 30 cm langt jólakökuform. Hellið deiginu í formið og bakið þetta í miðjum ofni í 50-55 mín. Notið prjón til að athuga hvort kakan er bökuð. Losið kökuna varlega úr forminu og kælið hana á rist. Hrærið glassúrinn saman með því að hræra sítrónusafa og flórsykur saman. Smyrjið glassúrnum yfir kökuna. Skreytið e.t.v. með sítrónu eða límónuberki.

1 comment:

  1. Hæ Sirrý,

    Var að detta inn á síðuna þína, snilld!
    :)

    ReplyDelete