Monday, February 28, 2011

Grasker, fullt af mat !

Ég fékk þetta fallega grasker í Nettó um daginn. Það er ýmislegt gott hægt að gera úr svona graskeri eins og súpu, pastasósu, ofnrétti, kökur, rísottó, steikja í ofni penslað með olíu, sjóða og gera mauk og margt fleira. Ég bjó til súpu og ofnrétt. Súpuuppskriftin er hér fyrir neðan, ofnrétturinn kemur næst.


Þessi súpa er bæði ódýr, saðsöm og góð. Uppskriftin er hér fyrir neðan en þykktin á súpunni fer svolítið eftir graskerinu sjálfu. Stundum er hún þykk og matarmikil, sérstaklega ef ég nota stóru graskerin sem eru seld í sneiðum. Þessi tegund sem ég keypti í Nettó er ekki eins mjölmikil þannig að ef þið viljið hafa súpuna vel þykka er ráð að hræra 1 msk. kartöflumjöl út í vatni og þykkja hana þannig. Eða bara nota minna vatn.


Graskerssúpa
fyrir 6-8

2-3 msk. oía
2 stórir laukar, saxaðir
2 stór hvítlauksrif, söxuð
500-600 g grasker afhýtt og skorið í munnbitastærð
1-2 gulrætur, flysjaðar og sneiddar
1 rauð paprika, söxuð
1/2 ferskt chili, saxað
1/2 tsk. paprikuduft
1 1/2 líter vatn
2 súputeningar
1 tsk. salt
nýmalaður pipar

1 dl sýrður rjómi
4 msk. söxuð steinselja eða kóríander

Steikið lauk og hvítlauk í olíu við frekar vægan hita það til allt fer að mýkjast. Bætið graskeri, gulrótum, papriku og chili út í og látið krauma smástund saman. Bætið paprikudufti út í og blandið saman við. Hellið vatni út í og látið sjóða saman ásamt súputeningum, salti og pipar í 30-40 mín. Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkið til með salti og pipar. Berið hana fram með slettu af sýrðum rjóma og stráið steinselju eða kóríander yfir. Yndisleg í vetrarkuldanum !!!

No comments:

Post a Comment