Saturday, January 21, 2012

Grillaður kræklingur

Ferskur kræklingur er mikið lostæti og er nú farinn að fást hér á landi. Hann kemur frá Breiðafirði og fæst í Frú Laugu. Annarstaðar á blogginu er uppskrift að hvítvínssoðnum krækling en hér er hann soðinn og grillaður. Eldaður á þennan hátt er hann flottur sem forréttur.

Grillaður kræklingur
forréttur fyrir 4

1 kg kræklingur
2 brauðsneiðar, allavega dagsgamlar svo auðveldara sé að tæta þær niður
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2 msk. steinselja, söxuð
3 msk. olía

Skolið kræklinginn í ísköldu vatni. Sjóðið hann í potti með botnfylli af vatni í 3-4 mín. Hafið lokið á pottinum. Kræklingurinn er tilbúinn þegar skeljarnar hafa opnast. Hendið þeim sem opnast ekki. Fjarlægið annan skelhluta af hverri skel og raðið skeljunum með krækling í í ofnskúffu. Skerið skorpuna af brauðinu og tætið það smátt niður í skál. Blandið hvítlauk, steinselju og olíu saman við. Stillið ofninn á grill. Setjið smávegis af brauðblöndunni á hvern krækling. Grillið undir heitu grillinu í nokkrar mínútur eða þar til brauðblandan fer að taka lit. berið fram strax.

1 comment:

  1. Mikið ofboðslega er þetta girnilegt mig langar í þennan rétt.

    Kiddý

    ReplyDelete