Wednesday, June 30, 2010

Eplakaka á rigningardegi

Það er alveg nauðsynlegt að kunna eina uppskrift að góðri eplaköku. Nýbökuð eplakaka getur gert kraftaverk. Hörðustu karlmenni geta breyst í mjúka bangsa, bara við kökuilminn. Þessi uppskrift er frekar hefðbundin og kemur frá vinkonu hennar mömmu minnar. Ég kaupi 1/2 líter af rjóma, nota smávegis í deigið og léttþeyti restina. Það þarf mikinn rjóma með svona góðri köku.

Hnetueplakaka

125 g smjör
1 1/2 dl sykur
2 egg
rifið hýði af einni sítrónu
2 1/2 dl hveiti
1 tsk. lyftiduft
2-3 msk. rjómi
2-3 epli, td. jónagold eða græn

2 msk. sykur
1 tsk. kanill
50 g valhnetur eða pecanhnetur

Stillið ofninn á 180°C. Hrærið smjör og sykur saman. Bætið eggjum út í einu í einu og síðan allt eftir röðinni. Flysjið eplin og skerið í þykka báta. Setjið deigið í 24-26 cm smurt form. Raðið eplum ofan á. Blandið saman sykri og kanel og sáldrið sykrinum og hnetum ofan á. Bakið í 35-40 mín. Berið fram með léttþeyttum rjóma bragðbættum með vanillusykri.

1 comment:

  1. Þú ert alger snillingur
    kveðja Ásta Björg

    ReplyDelete