Monday, September 13, 2010

Súkkulaðikaka án samviskubits ?

Við erum mjög veik fyrir súkkulaði og súkkulaðikökum á mínu heimili (vægt til orða tekið). Mig grunar að það eigi við um ansi marga. Þessi uppskrift kom til í ljúfri tilraun til að leyfa sér súkkulaðiköku en hafa hana aðeins hollari og næringaríkari. Ég hef bakað hana margoft og hún er sjaldnast eins því úrvalið af þurrkuðu ávöxtunum er mismunandi í skápunum mínum. Trönuber, apríkósur, ljósar rúsínur, döðlur, epli, perur, mangó eða gráfíkjur er til dæmis gott að nota. 2-3 tegundir er gott. Trönuber passa rosa vel með súkkulaði. Stundum set ég 1-2 msk. sultað engifer sem fæst í heilsubúðum, það er mjög gott. ....djúsí súkkulaðikaka sem er allra uppáhald.


Hollari súkkulaðikaka


4 stór egg eða 5 lítil
80 g hrásykur
40 g kókosmjöl
60 g fínt spelt
1/2 tsk. lyftiduft
200 g þurrkaðir ávextir og/eða hnetur
100 g 70% súkkulaði, saxað gróft
40 g smjör, mjúkt

Hitið ofninn í 170°C. Hrærið egg og sykur saman þar til það er ljóst og loftkennt. Blandið kókosmjöli, spelti og lyftidufti saman í skál. Saxið eða klippið ávextina niður og saxið hnetur gróft ( ef þið notið þær). Blandið þessu ásamt súkkulaðinu út í hveitiblönduna. Blandið hveitinu með ávöxtunum út í eggjahræruna og blandið saman með sleikju. Passið að hafa smjörið vel mjúkt, næstum bráðið og bætið því út í deigið. Það fellur aðeins en það er allt í lagi, það gerir hana klesstari. Setjið smjörpappír í botninn á 24 cm smelluformi og hellið deiginu í það. Bakið kökuna í 15-20 mín. Hún er tilbúin þegar hættir að "hvissa" í henni. Losið um barmana á kökunni og takið hana úr forminu, látið hana kólna aðeins á tertudisk.

Krem:

100 g súkkulaði 70 %
2 msk. smjör
1 msk. hlynsíróp

Bræðið allt saman í vatnsbaði eða í örbylgjuofni hellið yfir kökuna.

2 comments:

  1. MMMM... ég ætla svo sannarlega að prófa þessa :)

    ReplyDelete
  2. Er með þessa í ofninum. Takk fyrir frábæran vef!

    ReplyDelete