Bolludagur
Uppáhalds dagurinn minn. Hugsa sér dagur þar sem allir sameinast um að borða rjómabollur....yummi-yumm. Í fyrsta sinn í sögunni voru blöðin ekki uppfull af fræðslu um hversu margar hitaeiningar eru í bollunum, tókuð þið eftir því ? Það er ekki allt vont í þessum heimi.
Vatnsdeigsbollur (pottþétt uppskrift)
Ef þið viljið gera fleiri bollur er best að margfalda ekki uppskriftina heldur gera hana aftur. Það er viss hætta á að hlutföllin riðlist til og deigið misheppnast frekar ef uppskriftin er margfölduð.
2 dl vatn
50 g smjör
120 g hveiti (pilsbury´s)
3 meðalstór egg eða 4 lítil
1 dl góð sulta
3 -4 dl rjómi, þeyttur
100 g súkkulaði
Hitið ofninn í 200°C. Setjið vatn og smjör í pott og bræðið smjörið. Látið sjóða vel upp á þessu. Takið pottinn af hellunni og bætið hveiti út í, sláið vel saman. Bætið eggjum út í, einu í einu. Það má líka setja jafninginn í hrærivél og bæta eggjum út í þar. Hrærið hvert egg vel saman við þannig að deigið verði samfellt. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og setjið 9-12 bollur á plötuna. Notið 2 matskeiðar til að móta bollurnar. Bakið í miðjum ofni í 20-30 mín. Það má alls ekki opna ofninn fyrstu 15-20 mínúturnar, bollurnar geta þá fallið saman.
Kælið bollurnar og leggið saman með góðri sultu og rjóma. Bræðið súkkulaði og hjúpið ofan á.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment