Fullkomnar Brúnkur
Það er búið að gera margar tilraunir að uppskriftum að Brownies kökum um dagana og oft allt súkkulaðibókasafnið kallað til. Mér finnst Brownies eiga að vera seigar, dökkar og djúsí og skilja eftir sig langt eftirbragð. Ég hef fundið það út að eitt af því sem skiptir mestu máli, fyrir utan það að nota gott hráefni, er bökunartíminn, það má ekki baka þær of lengi, því þá verða þær verða þurrar. Ég gef hér upp tímann og hitann á mínum ofni en ofnar eru misjafnir og þarf því að fylgjast með kökunum í lok bökunartímans. Þegar þið stingið prjóni í kökuna á smávegis af deigi að loða við hann, ekki blautu deigi heldur mylsnukenndu, ef prjónninn er alveg þurr er hún ofbökuð. Hér kemur mín útgáfa.
Fullkomnar brúnkur
20-24 stk.
120 g pilsburys-hveiti
2 msk. gott kakó
200 g gott súkkulaði td. Green & Black
160 g smjör
1/2 tsk. salt
250 g sykur
50 g púðursykur
4 stór egg
2 tsk. vanilludropar
Hitið ofninn í 160°C á blástur, annars 180°C. Sigtið hveiti og kakó saman í skál. Brytjið súkkulaðið og bræðið það og smjörið saman við vægan hita. Bætið salti og báðum tegundum af sykri út í súkkulaðiblönduna og hrærið vel saman. Bætið eggjum út í, einu í einu ásamt vanilludropum og hrærið vel saman. Bætið nú hveitiblönduni út í deigið og blandið varlega saman við með sleikju, ekki ofhræra. Fóðrið ferkantað form 33x24 cm stórt með bökunarpappír og hellið deiginu í það. Bakið í 18-20 mín og athugið að fylgjast vel með bökunartímanum. Kælið kökurnar og skerið í bita. Þær eru mjög góðar sama dag og þær eru bakaðar, frábærar sem eftirréttur með vanilluís og berjum. Næsta dag breytist áferðin og þær verða seigari, eins og mér finnst þær bestar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment