Sandkakan hennar ömmu minnar er sú besta sem ég hef smakkað. Minningar um að sitja í hlýju eldhúsi maulandi nýbakaða kökuna eru dýrmætar. Í minningunni heyrðist alltaf svona "hviss" hljóð þegar bitið var í hana hún var svo safarík og full af eggjum. Einu sinni vorum við amma, sem bjó á Skólavörðustígnum, á leið í lautarferð og vorum að hlaða nestinu (sandkökunni) í skottið á Cortínunni. Við skruppum inn eftir einhverju sem vantaði og á meðan var nestinu stolið. Amma, þessi kjarnakvenmaður, tók á rás eftir þjófunum og náði þeim upp á Lokastíg, þar sem þeir voru byrjaðir að gæða sér á kökunni, gátu greinilega ekki hamið sig. Í barnsminni var þetta ægilegt og var oft rifjað upp síðar.
Amma skrifaði aldrei upp uppskriftina að þessari köku en ég lærði hana sem unglingur og hér er hún.
Sandkakan
250 g smjör, mjúkt
250 g sykur
5 egg
250 g hveiti, pilsbury´s
1/2 tsk. lyftiduft
Hitið ofninn í 175°C. Fóðrið botn og hliðar á stóru sandkökuformi með bökunarpappír og penslið inn í endana á forminu með olíu. Hrærið saman smjör og sykur þar til það er ljóst og létt. Bætið eggjum út í einu í einu og hrærið vel saman. Ef blandan skilur sig, sem gerist oft, er ráð að setja smávegis af hveitinu út í og hræra áfram. Sigtið hveiti og lyftiduft saman og bætið út í. Hrærið saman í 2-3 mín. Jafnið deiginu í formið og bakið kökuna í um klukkutíma. Fylgist með í lok bökunatímans og takið kökuna út þegar prjóni sem stungið er í hana er hreinn og kakan farin að losna í forminu. Passið að ofbaka ekki, það heyrist svona hvisshljóð í kökum sem eru í bakstri, það er best að taka formkökur út úr ofninum þegar þetta hljóð er nýhætt að heyrast.
No comments:
Post a Comment