Sunday, March 21, 2010

Súkkulaði

Þessar súkkulaðikökur eru með þeim bestu sem ég fæ. Þær eru ekki ódýrar en úr uppskriftinni fást 18 stórar kökur og ein á mann er meir en nóg því þær eru fullar af súkkulaði og mjög bragðmiklar. Það er gott að frysta þær og eiga í eftirrétt með ís eða með afgangnum af rauðvíninu eftir vel heppnaða máltíð.

Stórar Súkkulaðikökur

80 g 70% súkkulaði
150 g suðusúkkulaði, venjulegt
80 g smjör
1-2 tsk. neskaffi, má sleppa
2 egg, stór
140 g sykur
1 tsk. vanilludropar
50 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 g súkkulaði, saxað eða dropar
150 g valhnetur, saxaðar gróft

Hitið ofninn í 180°C eða 160°C blástur. Bræðið báðar tegundir af súkkulaði og smjör saman í örbylgjuofni eða í vatnsbaði við vægan hita, leysið kaffiduftið upp í blöndunni. Þeytið egg og sykur saman þar til ljóst og létt. Blandið hveiti og lyftidufti saman. Blandið öllu saman og blandið saman með sleikju í samfellt deig. Setjið 2 arkir af bökunarpappír á 2 ofnplötur. Setjið deigið með tveim matskeiðum á pappírinn, þið eigið að fá 18 kökur, 9 á hverja plötu. Bakið kökurnar í 10-12 mín, 8-10 mín í blástursofni. Kökurnar má alls ekki ofbaka, þær eiga að vera þurrar að utan en mjúkar innan í. Kökurnar eru unaðslegar nýbakaðar en síðan gott að setja þær í box, setja smá bökunarpappír á milli þeirra og frysta.


No comments:

Post a Comment