Monday, May 3, 2010

Afmæliskakan ! Þetta er súkkulaðikakan sem var og er bökuð fyrir öll afmæli í fjölskyldunni. Ég hef notað sömu uppskriftina, sem var í smjörlíkisbækling sem mamma mín átti, síðan ég byrjaði að baka alvöru súkkulaðiköku með kremi. Það rifjast oft upp þegar ég set kremið á kökuna hvað mér þótti erfitt að gera það fyrst og ánægjan þegar það heppnaðist vel. Núna er sonur minn búin að halda upp á afmæli eins árs sonar síns og notaði að að sjálfsögðu sömu uppskrift, gaman þegar uppskriftir ganga til næstu kynslóðar.
Kremið á kökuna er ljóst súkkulaðikrem og það finnst öllum algjört "must" að hafa það.



Afmæliskaka
Ef þið viljið hafa kremið ljóst eins og hér verður að nota smjörlíki. Kremið er líka gott með smjöri er verður dekkra og þykkara. Í upprunalegu uppskriftinni eru notuð amerísk bollamál.
Botnar:
2 bollar hveiti
1 1/2 bolli sykur
4 msk. dökkt kakó
130 g smjör, mjúkt
1 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1 bolli mjólk
2 stór egg eða 3 minni

Hitið ofninn í 175°C, 165 á blástur. Setjið allt nema egg í hrærivélarskál og hrærið í 2 mín. Bætið eggjum út í, einu í einu og hrærið aðrar 2 mín. Setjið deigið í 2 smurð 26 cm breið kringlótt kökuform og bakið botnana í 25 mín ( um 20 á blæstri) kakan er tilbúin þegar hún losnar frá börmunum og prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn út. Kælið kökubotnana.

Krem:
300 g flórsykur
200 g smjörlíki
2 msk. vatn
3-4 msk. dökkt kakó
1 eggjarauða
1 tsk. vanilludropar

Sigtið flórsykur í hrærivélarskál. Takið 100 g af smjörlíkinu og setjið í pott með vatni og kakó þar til vel samlagað. Hellið út í flórsykurinn og hrærið vel saman. Bætið restinni af smjörlíkinu út í litlum bitum og hrærið þar til kalt. Kremið er fyrst dökkt en verður ljósara þegar það kólnar. Bætið eggjarauðu og vanillu út í. Smyrjið kreminu á kökuna og skreytið hana með nammi eða kókosmjöli.

No comments:

Post a Comment