Vinkona mín fór að segja mér frá bestu brúnköku sem hún hafði nýlega smakkað. Kakan fékk hana til að hugsa um æskuna, sveitina og einhverjar frænkur sem hún hafði greinilega einhverja matar- og kökuást á. Ég á sjálf góðar minningar um svona köku en hef ekki bakað hana í mörg ár. Mér datt í hug að sjá hvort ég fyndi uppskrift í bók eftir Helgu Sigurðardóttir. Bókin heitir Bökun í heimahúsum og er gefin út 1930. Að sjálfsögðu var hún þar, og frábær uppskrift. Ég minnkaði sykurinn aðeins og breytti uppskriftinni örlítið að mínum smekk en finnst meiriháttar gott að setja sítrónubörk í hana. Nýbökuð með ískaldri léttmjólk sló hún algjörlega í gegn.
Brúnkaka
250 g smjör
320 g púðursykur
2 egg
500 g hveiti
1 full tsk. kanell
1 full tsk. negull
1 tsk. matarsódi
100 g kúrenur
rifið hýði af 1 sítrónu
2 1/2 dl mjólk
Hitið ofninn í 170°C. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og loftkennt, það skiptir miklu máli í formkökubakstri að hræra smjör og sykur mjög vel saman. Bætið eggjum út í einu í einu, hrærið vel saman. Sigtið hveiti, kanel, negul og matarsóda saman og bætið út í ásamt öllu öðru sem er í uppskriftinni. Hrærið saman þar til allt er vel samlagað. Smyrjið 30 cm langt jólakökuform með smjöri eða olíu og jafnið deiginu í formið. Bakið kökuna í um það bil klukkutíma. Kakan er tilbúin þegar prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn út.
No comments:
Post a Comment