Sunday, January 17, 2010

Ég hef ekki getað hætt að hugsa um smjör síðan ég sá myndina um Juliu Child síðustu helgi. Henni fannst smjör vera best af öllu og ég er svoooo... sammála. Allt með smjöri er ómótstæðilegt. Bara ein teskeið af smjöri út í olíuna á pönnuna gerir gæfumuninn og hversdagsmatinn betri. Möndlusteikt klaustursbleikja með brúnu smjöri upp á franska mátann er svo einfalt og auðvelt og algjört sælgæti. Soðnar kartöflur, spergilkál sett út í síðustu mínúturnar og brúnað smjör yfir herlegheitinn er fullkomin upplifun. Ég veit alveg að næringarráðgjafar fá gæsahúð á að sjá smjörið í uppskriftinni en mér finnst að það eigi að skoða allt í samhengi og svo er þetta alltaf spurning um magn og hversu oft............ og .......

Möndlusteikt bleikja með brúnuðu smjöri

Margir eru viðkvæmir fyrir beinunum í bleikjunni og sneiða hjá henni þess vegna. Ég hef alltaf plokkað beinin úr með augnabrúnaplokkara,af því ég þoli ekki fiskbein. Ég er nú búin að fjárfesta í þessari líka fínu græju sem tekur mörg bein í einu. Það fást nokkrar gerðir í Kokku bæði ódýrar (1200 kr.)og dýrari. Mér finnst bleikja rosalega góð þannig að græjan á eftir að borga sig fljótt.

4-6 bleikjuflök
20 -30 g möndlur í flögum
4-5 msk. hveiti
salt og nýmalaður pipar
4 msk olía
1 tsk. smjör

100 g smjör
2-3 msk. steinselja eða 1 tsk. þurrkuð
2-3 msk. gott vínedik

Slatti góðar kartöflur soðnar
Slatti spergilkál, sett út í kartöflupottin þegar 5 mín eru eftir af suðutímanum

Beinhreinsið bleikjuna, skafið roðið og skerið í tvo eða þrjá bita (eftir stærð hennar). Blandið hveiti og möndluflögum saman. hitið olíu og smjör á pönnu, veltið bleikjunni upp úr því og steikið hana á pönnu á báðum hliðum. Færið bleikjuna á fat og haldið heitri. Bræðið smjör á pönnunni þar til það fer að brúnast, bætið steinseljunni úr í. Hellið smjörinu í sósukönnu sem hefur verið hituð aðeins. Hellið edikinu á pönnuna, látið svolítið af vökvanum gufa upp og hellið edikinu síðan út í smjörið. Berið fram með bleikjunni og kartöflu-spergilkálblöndunni.

No comments:

Post a Comment