Friday, July 23, 2010

Minning um Frakkland

Ég elska bökur...... allskonar.... ávaxta, súkkulaði, spínat........Mmmmmmm...... Sá nýjar apríkósur í búðinni í gær og stóðst þær ekki. Þær eru ekki mjög bragðmiklar einar sér en bakaðar í ofni með sykri eða í svona böku eru þær alveg meiriháttar góðar. Það má nota hvaða ávexti sem er í þessa uppskrift, ferskjur, nektarínur, perur, plómur, bláber, rifsber eða það sem ykkur finnst best.
Það er ekki vandi að gera góða bökuskel, bara að passa að mylja smjörið ekki of smátt, þá verður hún þurr og óspennandi. Það er auðvelt að gera deigið í matvinnsluvél, bara passa að hnoða ekki of lengi í restina, gott að taka deigið úr vélinni og klára að hnoða á borðinu og kæla í 30 mín áður en þið fletjið það út.


Ávaxtabaka

Sæt bökuskel:

180 g hveiti
2 msk. flórsykur
100 g smjör, ískalt
1 eggjarauða
1/2 dl ískalt vatn

Setjið hveiti og flórsykur í rúmgóða skál og blandið saman. Saxið kalt smjör í litla teninga og bætið út í. Myljið smjörið saman við hveitið þar til það er eins og litlar baunir. Hrærið eggjarauðu og vatn saman og bætið út í. Hnoðið saman þar til samlagað, ekki hnoða of lengi. Setjið deigið í plastfilmu og látið bíða í kæli í 30 mín. Hitið ofninn í 180°C. Fletjið deigið út á hveitistráðu borði og setjið í bökuform. Pikkið með gaffli á botninn á deigskelinni og bakið síðan í 12-15 mín eða þar til hún er farinn að taka lit.

Fylling:

500 g apríkósur
2 egg
1 dl sykur
2 dl rjómi
2 tsk. vanillusykur

smá meiri sykur

Skolið og skerið apríkósurnar í tvennt og fjarlægið steininn. Raðið þeim í forbakaða bökuskelina, flott að raða þétt og upp á rönd. Þeytið egg, sykur, rjóma og vanillusykur saman og hellið yfir apríkósurnar. Stráið smá sykri yfir þær og bakið bökuna í um það bil 30 mín eða þar til fyllingin er orðin stíf. Best nýbökuð en hægt að hita upp daginn eftir í 15 mín í 100°C heitum ofni.

No comments:

Post a Comment