Thursday, July 15, 2010


Íslenskt kálfakjöt

Ég keypti íslenskt kalfakjöt síðustu helgi í Frú Laugu og hef verið að dásama það við alla sem hafa gaman af góðum mat. Reyndar var það þannig að Arnar, eigandi Laugu gaf svo miklar upplýsingar um kálfinn, hvað hann væri gamall þegar hann dó, hvar hann ólst upp og svo framvegis að við vorum bæði komin með tár í augun í búðinni þegar ég var að borga. Við hertum okkur upp heima og matreiddum þetta úrvalskjöt og bókstaflega sleiktum diskana á eftir, . Ég set hér inn hvernig við elduðum það því margir hafa spurt mig hvernig kálfakjöt er matreitt.

Kálfakjöt með fersku kryddi og sítrónu.
fyrir 4

1 kálfavöðvi (um 600 g)
2 msk. olía +1 msk. smjör
1 dl hveiti
salt og nýmalaður pipar
1 sítróna
nokkrir kvistir ferskar kryddjurtir, td. steinselja, timian eða estragon
50 g smjör

Skerið kálfavöðvann, þvert á vöðvann, í 2 sm sneiðar. Leggið sneiðarnar á bretti, setjið plastfilmu yfir og berjið létt á kjötið svo það fletjist aðeins út. Hitið olíu og smjör á pönnu, veltið sneiðunum upp úr hveiti og steikið 2 -3 mín á hvorri hlið, kryddið með salti og pipar. Passa að steikja ekki of lengi. Kreistið sítrónu og sáldrið kryddjurtum yfir og látið malla í 1 -2 mín. Bætið smjöri út í, minnkið hitann og látið bráðna svo úr verði svolítil sósa. Berið fram með góðu salati og nýjum íslenskum kartöflum. Gott að skera kartöflurnar í báta velta þeim upp úr olíu, maldonsalti og rósmarin og ofnsteikja við 200°C í 30-40 mín.

1 comment: