Sunday, September 5, 2010

Franskt er það !

Þessi karamellubúðingur er í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Við kynntumst þessum flauelsmjúka og sæta búðing þegar við bjuggum í Frakklandi. Þar í landi er hann jafnalgengur á eftirréttaseðli á veitingahúsum og súkkulaðikaka hér á landi ( sem sagt... alltaf). Í stórmörkuðum þar er síðan hægt að fá allskonar útgáfur.
En.......það jafnast ekkert á við heimalagaðann........að sjálfsögðu. Það má gera búðinginn í litlum formum til dæmis hvítu leirformunum sem eru oft notuð undir mjúka súkkulaðiköku eða í einu djúpu formi leir eða ál um 18-20 cm í ummál. Uppskriftin virkar löng en eftir að hafa gert búðinginn einu sinni er þetta með fljótlegri eftirréttum og hægt að hafa formin tilbúin í ísskáp eða hvolfa honum á diska eða fat og hafa hann tilbúinn þannig. Karamellubúðingurinn er bestur sama dag og hann er lagaður.




Franskur karamellubúðingur (Creme caramel)
fyrir 6-8

200 g sykur
6 dl mjólk
80 g sykur
1 vanillustöng
3 egg
3 eggjarauður
1 tsk. vanilludropar

Hitið ofninn í 180°C (170°C blástur). Setjið upp ketil af vatni til suðu ( til að hella í ofnskúffuna). Hellið sykrinum á pönnu og hitið hann þar til hann verður dökkbrún og fljótandi. Hellið sykrinum í ofnföst form annaðhvort 6-8 lítil eða eitt sem er djúpt og um það bil 20 cm að ummáli. Notið pottaleppa eða handska og veltið forminu þannig að sykurinn nái upp með formunum til hálfs.
Skerið vanillustöngina í tvennt eftir endilöngu og skafið kornin úr. Hitið mjólkina að suðu með kornum úr vanillustönginni og stönginni sjálfri, látið þetta standa með lokið á pottinum í 10 mín. Setjið egg, eggjarauður og sykur í skál og þeytið létt saman. Hellið mjólkinni út í í gegn um sigti og þeytið þar til samlagað. Bætið vanilludropum út í og hellið blöndunni í sykurklæddu formin.
Finnið ofnskúffu eða fat sem rúmar formin vel og raðið formunum í það. Setjið formin í ofninn og hellið vatni í ofnskúffuna svo nái upp á formin til hálfs. Bakið í 5 mínútur og lækki þá hitann í 160°C (150°C blástur). Bakið í um það bil 40 mínútur eða þar til búðingurinn er stífur viðkomu. Kælið vel og hvolfið síðan á diska. Það er gott að bera rjóma með og þá er gott að hella smá af karamellunni sem kemur af búðingnum út í hann.

No comments:

Post a Comment