Tuesday, October 4, 2011

Enskar skonsur á morgunverðarborðið

Þær bráðna í munninum þessar ensku skonsur. Ég smakkaði þær fyrst hjá syni mínum, sem er áhugasamur bakari, og mér fannst þær frábærar. Hann skoðar oft vefsíðu sem heitir joy of baking. Þar er mikið af góðum uppskriftum og kennslumyndböndum meðal annars af því hvernig á að gera þessar skonsur. Lykilatriði er að leyfa smjörinu í þeim að verða svolítið grófkornótt ekki blanda þar til það verður mjölkennt og líka að hnoða þær ekki of mikið því þá missa þær léttleikann og verða seigar.


Enskar skonsur (örlítið breytt útgáfa frá vefsíðunni)

260 g hveiti
40-50 g sykur
2 tsk. lyftiduft
80 g smjör, kalt, í litlum teningum
1 egg
1 tsk. vanilludropar
1/2 dl rjómi
3/4 dl mjólk

mjólk til að pensla skonsurnar með

Hitið ofninn í 190°C, 175°C á blástur. Setjið hveiti, sykur og lyftiduft í matvinnsluvél, látið vélina ganga í 1/2 -1 mín til að allt blandist saman. Setjið smjör út í og látið vélina ganga þar til smjörið hefur blandast vel saman við en þó þannig að það sé á stærð við smáar baunir, setjið blönduna í djúpa skál. Blandið eggi, rjóma, mjólk og vanilludropum saman í aðra skál. Hellið eggja/mjólkurblöndunni út í þurrefnin og blandið öllu saman með sleikju þar til deigið er samlagað. Hnoðið létt saman, ekki hnoða of mikið, og fletjið deigið létt út með flötum lófum þannig að það verði 1 1/2 sm að þykkt, notið hveiti til að deigið festist ekki við borðið. Stingið úr kringlóttar skonsur með formi eða glasi sem er um 5 cm í þvermál, hnoðið afskurðinn aftur og mótið skonsur úr öllu deiginu. Raðið skonsunum á bökunarpappír á ofnplötu, penslið ofan á með mjólk. Bakið í 15 -18 mín í miðjum ofni. Kælið á rist. Bestar nýbakaðar með léttum rjómaosti eða rjóma og sultu.


No comments:

Post a Comment