Saturday, January 2, 2010

Spínatbaka

Bökur eru eitt af uppáhaldsréttunum á heimilinu, nokkur sem öllum finnst frábært. Galdurinn felst í bökubotninum, stökkur og vel bakaður botn er lykilatriði í að bakan sé góð. Baka með þurrum og þykkum botni er aldrei góð. Aðferðin sem ég nota er einföld en aðalatriðið er að smjörklumparnir í deiginu séu það stórir að þegar þeir bráðna í hveitinu við bakstur myndist loftrými, það er það sem gerir deigskelina stökka og brakandi. Þetta hljómar eins og efnafræði en bakstur er hálfgerð efnafræði og þessi aðferð virkar. Annað sem þarf að passa er að hnoða ekki deigið of mikið í lokin, þá mýkist deigið upp, verður seigt og smjörklumparnin eyðileggjast. Þetta sýnist vera löng uppskrift en hér er skotheld aðferð að fullkominni bökuskel.


Bökuskel

260 g hveiti
1 tsk. salt
180 g kalt smjör í 3x3 cm bitum
3/4 dl ískalt vatn


Best er að laga bökudeig í matvinnsluvél því þá helst deigið kalt og smjörið verður jafnara í stærðinni. Setjið hveiti, salt og smjör í vélina og látið hana vinna í 30 sek.-1 mín, eða þar til smjörbitarnir eru á stærð við grænar baunir, sjáið myndina. Bætið vatninu út í og látið vélina vinna áfram í 30 sek. -1 mín á hægum hraða. Hvolfið úr skálinni á borðið, það er ennþá laust í sér, sjá myndina, og hnoðið deiginu saman. Ekki hnoða of mikið, þetta eru um 20 handtök, deigið á rétt að loða saman í klump og má alveg vera óreglulegt með smjörklumpum í. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í kæli í 20 mín. Það má líka hnoða deigið saman í höndunum, þá er sama aðferð notuð en siðugt er að skera smjörið í 2x2 cm teninga og passa að mylja deigið saman þannig að smjörið verði í baunastærð og hafa hraðar hendur svo smjörið verði ekki mjúkt..

Hitið ofninn í 180C°. Rúllið deigið út á hveitistráðu borði og setjið í bökuform, skerið afgangsdeig utanmeð en látið það helst vera upp á brúnum á forminu því deigið skreppur saman við bakstur. Pikkið í botninn og upp með hliðunum með gaffli. Forbakið bökuskelina í 10-15 mín eða þar til hún er gullin. Hér er uppskrift af einni af uppáhalds bökufyllingunni minni. Ég nota stundum fetaost, um 200 g í staðin fyrir paprikuna en þá þarf minna salt eða jafnvel ekkert.

Fylling

400 g spínat (þetta fíngerða sem fæst í pokunum)
4 dl matreiðslurjómi
2 egg
1 eggjarauða
3 msk. parmaostur, rifinn
1 hvítlauksrif, saxað
1 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar
200 g kirsuberjatómatar skornir í tvennt
1 lítil krukka afhýdd paprika í olíu, olía sigtuð frá og skorin í bita
smá parmaostur til að strá ofan á

Setjið upp fullan ketil af vatni. Setjið spínat í rúmgott sigti og hellið sjóðandi vatni yfir. Kreistið vatnið úr því þegar það hefur kólnað nóg til að höndla það, saxið það síðan gróft niður. Setjið allt hráefni nema tómatana saman í skál og þeytið létt saman með gaffli. Raðið tómötum í bökuskelina og hellið fyllingunni yfir. stráið parmaost yfir og malið smá pipar yfir líka. Bakið í 35-40 mín. berið fram með góðu salati.

No comments:

Post a Comment