Thursday, January 28, 2010

Frú Lauga á Laugalæk er uppáhalds matvörubúðin mín. Á föstudögum kemur sending af glænýjum krækling frá Hrísey. Það er orðin fastur liður hjá okkur á föstudögum að koma við og sækja skammtinn. Kræklingurinn er svo nýr að það eru aldrei afföll, hver einasti kræklingur er góður. Síðasta föstudag bakaði ég kartöflur í andarfitu og hafði með ásamt brauði til að dýfa í djúsið sem kom af kræklingnum. Fullkomið.- smellpassaði með, hér er uppskriftin....

Gufusoðinn kræklingur
fyrir 2-3
1 kg kræklingur
2 dl hvítvín eða vatn
2 saxaðir skarlottlaukar
slatti steinselja
2 sneidd hvítlauksrif
nýmalaður pipar

Setjið krækling í ískalt vatn. Sigtið. og fjarlægið þá sem eru alveg opnir. Setjið allt nema krækling í stóran pott og látið sjóða í um 5 mín. Setjið krækling út í, látið lok á pottinn og látið sjóða í 4-5 mín eða þar til allar skeljarnar hafa opnað sig. Hendið þeim sem eru lokaðar.

Bakaðar kartöflur
fyrir 2-3

Þessar kartöflur eru hriklega góðar. Passa með allskonar réttum.

800 g kartöflur, tegund eftir smekk
2-3 msk. andarfita, fæst í Frú Laugu og Nóatúni

Hitið ofninn í 200°C. Flysjið kartöflur og skerið í minni bita. Sjóðið í saltvatni í 5 mín og sigtið. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Setjið andarfituna á pappírinn, bregðið plötunni í ofninn og látið fituna bráðna. veltið kartöflunum upp úr andafitunni, saltið og piprið og bakið í 30 mín.


No comments:

Post a Comment