Monday, January 11, 2010

Kjötbolluspagettí
Þetta er búin að vera algjör "gúrmehelgi". Síðasta laugardag var gala-dinnerinn hjá klúbbi matreiðslumanna og þó hann hafi áður verið flottur sló þessi dinner allt út. Þemað var "íslenskt hráefni" og landsliðið kann þetta alveg. Sunnudag var farið í bíó - Julia and Julia - yndisleg mynd sem allir sem lifa fyrir að borða ættu að sjá. Það var vel við hæfi að fara síðan heim að elda kjötbolluspagettí, hendast úr skónum, berfætt í eldhúsinu með svuntu, sleif og setja ítalska tónlist í spilarann. Þetta er pastaréttur sem gaman er að gera þegar margir hjálpast að í eldhúsinu, hann er ekki fljótlegur en gaman að elda hann, maður fílar sig alveg eins og Sophiu Loren í eldhúsinu.

Kjötbolluspagettí
fyrir 6 svanga

Mér finnst gott að hafa mikið af bollum svo uppskriftin af þeim er rífleg. Það er gott að nota svínahakk með nautinu svo bollurnar verði fastari í sér.

Bollur:
400 g nautahakk
400 g svínahakk
2 egg
4 msk. parmaostur, rifinn (má sleppa)
2 hvítlauksrif, rifin
5-6 msk. brauðrasp
salt og nýmalaður pipar

Blandið öllu saman í skál og mótið litlar bollur á stærð við valhnetur, geymið.

Sósan:
2-3 msk. olía
1 laukur, saxaður smátt
2-3 hvítlauksrif, söxuð
1 -2 tsk. krydd, oreganó, merian eða blandað provence krydd eða blanda af öllu
2 dósir tómatar, Chirio eru bestir (800 g) maukaðir í matvinnsluvél
1/2 msk. púðursykur eða hrásykur
1 msk. tómat-tapernade
1/2 - 1 dl rauðvín (má sleppa)
salt og nýmalaður pipar

500 -600 g spagettí

Steikið laukinn í olíunni þar til hann fer að verða mjúkur, það er best að nota víðan djúpan pott. Bætið hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið kryddi út í og hrærið aðeins í (njótið ilmsins). Hellið tómötum, sykri, tapernade og víni út í, smakkið til með salti og pipar. Látið malla í um 10 mín, ekki hafa lok á pottinum. Bætið bollum úr í, látið lok á pottinn, hristið hann til öðru hverju og látið sjóða í 10 -15 mín. Sjóðið spagettíið á meðan eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Sigtið spagettíið og hellið í stóra skál, hellið kjötsósunni yfir. Berið fram með góðum slatta af parmaosti.

No comments:

Post a Comment