Wednesday, February 3, 2010

Heimalagað mæjónes á lítið skylt við bragðlausu mæjónesdrulluna sem fæst í boxum í verslunum. Þetta snýst, eins og alltaf ,um gæðahráefni. Góð olía, eggjarauða, Dijon-sinnep og sítróna er allt og sumt sem þarf og smá handafl.
Það er lítið mál að gera stóran skammt af mæjónesi en að gera lítinn skammt er allt annað. Flestar uppskriftir sem ég hef rekist á gera ráð fyrir því að maður noti matvinnsluvél en ég hef aldrei getað séð hvernig hægt er að þeyta eina eggjarauðu í þessari stóru könnu sem er á vélinni. Góð skál og pískur eða mortel er málið. (Það má líka nota handþeytara og nota minnsta hraða).Gott ráð er að nota 1/4 teskeiða málið á skeiðamálunum til að byrja með eða þegar fyrsti dl af olíunni er þeyttur út í eggjarauðuna því það er mikilvægt að setja olíuna hægt út í til að byrja með. Síðan er hægt að bragðbæta tilbúið mæjónesið með meiri sítrónu, hvítlauk og/eða fersku kryddi eins og söxuðu fáfnisgrasi. Svona mæjó er algjört gúrm..og svo ríkulegt í bragði að maður þarf ekki að nota nema örlítið af því. Örþunnt lag á grófa samloku með grænmeti gerir hana að upplifun og allskonar grænmeti skorið í stafi dýft í flauelsmjúka sósuna rennur ljúflega niður.

Mæjónes

1 eggjarauða
smá sítrónusafi
smá Maldon-salt
1/2 - 1 tsk. Dijon-sinnep
2 dl góð olía ( td.1 dl extra virgin og 1 dl venjuleg eða hvaða olía sem ykkur finnst holl og góð)

Setjið rauðu, sítrónusafa, salt og sinnep í skál eða mortel og þeytið saman í um 30 sek. Það er gott að nota þunga skál og setja rakt stykki undir svo skálin verði stöðug eða fá góða hjálp hjá einhverjum sem er flinkur við að setja olíuna út í. Notið 1/4 teskeiðamál og setjið eina skeið í einu,( í þrem áföngum fyrstu skeiðarnar, út í rauðuna á meðan þið hrærið stöðugt í. Þegar annar desilíterinn af olíunni er kominn úr í er í lagi að láta olíuna leka í bunu út í, þeytið stöðugt í. Bragðbætið með sítrónu og nýmöluðum pipar og eða ferskum kryddjurtum.


No comments:

Post a Comment