Monday, February 8, 2010

Súkkulaðiástríða

Á mínu heimili er súkkulaði ástríða. Leitin að fullkomnu súkkulaðikökunni hefur staðið yfir í mörg ár. Mig grunar reyndar að heimilismeðlimir séu hræddir við að festa eina köku í sessi því vissulega hefur þessi leit haft hvetjandi áhrif og ófáar kökur verið bakaðar. Þessi er ein af þeim sem kemur sterklega til greina sem "númer eitt". Ég skreytti hana með því að klippa út hjarta, setja það á miðjuna og dusta flórsykur ofan á. Athugið að ekta súkkulaðikaka verður alltaf jafn góð súkkulaðinu sem er notað í hana.

Allt sem þarf er ást ....en örlítið súkkulaði við og við skaðar nú ekki.

Ekta Frönsk

250 g súkkulaði, 70 %
250 g smjör
6 eggjahvítur
6 eggjarauður
140 g sykur

Hitið ofninn í 160 (ekki blástur) og setjið litla ofnskúffu með vatni á botninn. Setjið bökunarpappír í botninn á 26 cm breiðu smelluformi og penslið inn á hliðarnar með olíu. Bræðið súkkulaði og smjör saman við vægan hita. Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að verða stífar og setjið helminginn af sykrinum ( 70 g) út í mjórri bunu, þeytið saman í um í 2-3 mín. Setjið eggjahvítumassann í skál, notið sleikju til að hreinsa skálina, það þarf ekki að skola hana. Setjið eggjarauður og afganginn af sykrinum í skálina og þeytið saman þar til ljóst og létt. Blandið súkkulaðiblöndunni saman við það. Blandið eggjahvítumassanum varlega út í með sleikju. Setjið deigið í formið. Bakið á neðstu rim í ofninum í 50 mín. Kælið aðeins og takið síðan úr forminu. Berið fram með léttþeyttum rjóma eða vanillusósu.

No comments:

Post a Comment