Monday, March 15, 2010

Fiskur í matarboðið

Gremolata er kryddmauk sem er gott í allt mögulegt og sérlega gott til að smyrja ofan á fisk. Stórlúða með gremolata er frábær veislumatur en annar hvítur fiskur er líka góður. Hér er spriklandi ferskt lúðuflak notað og með kartöflum soðnum með spergilkáli alveg meiriháttar gott.

Fiskur með Gremolata
fyrir 4

800 g ferskur fiskur
1 sítróna
hnefafylli af ferskri steinselju
100 g grænar ólífur
4-5 msk. olía
1 tsk. maldonsalt
3 hvítlauksrif
smjörklípa

Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið ofnfast form með olíu og leggið fiskflakið í það. Setjið börk af sítrónu, steinselju, ólífur, salt og hvítlauk í matvinnsluvél og blandið vel saman. Bætið safa af 1/2 sítrónu og slatta af olíu út í. Smyrjið þessu á fiskinn. Setjið smávegis af smjöri í litlum klípum ofan á flakið. Bakið í um 15 mín. Lengur ef þið eruð með stórlúðu, svona um 20-25 mín eftir þykkt stykkjana. Berið fram með kartöflum soðnum í saltvatni og sjóðið spergilkálsbrúska með síðustu 3-4 mínúturnar. Setjið kartöflublönduna í skál og smá smjör og nýmalaðan pipar saman við.


No comments:

Post a Comment