Friday, January 6, 2012

Girnilegur kjúklingur í sósu

Við erum með dellu fyrir kjúklingaréttuum í sósu á mínu heimili þessa dagana. Okkar skoðun er sú að janúar og febrúar séu mánuður fyrir "comfort food" . Við erum ekki alveg inni á þessari "hreinsun eftir allt jólaátið" enda borðuðum við dásamlegan, hollann og góðan íslenskan mat alla jólahátíðina og ætlum að halda áfram að borða hollann og góðan mat þetta árið og njóta hvers bita. Þessi paprikukjúlli er akkúrat svona kósí-matur, kjarnmikill og í djúsí sósu.


Kjúklingur i paprikusósu
fyrir 4-5

2 msk. smjör
1 msk. olía
6-7 kjúklingabitar, efri læri eru mjög góð í þennan rétt
25 g hveiti ( ca. 3 msk.)
2 msk. paprikuduft
4 -5 dl kjúklingasoð, best að nota tilbúið í fernu t.d. sem fæst í Kost, annars bara tening og vatn
2 msk. rifsberjahlaup
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
smávegis þurrkað timian
nýmalaður pipar
sjávarsalt
1 dl sýrður rjómi eða 1 dl rjómi

Hitið ofninn í 180°C. eða 160 á blástur. Steikið kjúklingabitana á báðum hliðum í blöndu af smjöri og olíu, takið þá upp úr pottinum og geymið. Ef mikið kemur af fitu af kjúllanum er gott að hella mestu af fitunni í pottinum, en skilja eftir smávegis eða sem samsvarar 4 msk. Kraumið paprikuna í því sem er eftir af feiti í pottinum í 1/2 mín, bætið hveiti út í og sláið saman. Hellið soðinu út í smátt og smátt og hrærið í á meðan. Bætið rifsberjahlaupi og sítrónuberki út í og smakkið til með timian, salti og nýmöluðum pipar. Setjið kjúklingabitana út í, veltið þeim í sósunni og látið þetta malla í ofninum í 40-50 mín, takið út úr ofninum og hrærið sýrðum rjóma saman við. Gott að bera fram með brauði hýðishrísgrjónum eða kartöflumús.

No comments:

Post a Comment