Tuesday, January 31, 2012


Heimalagað pasta

Pastavél og semolína hveiti er eiginlega nauðsynlegt við pastagerð svo vel takist til. Það má þó rúlla deigið út með kefli en það er seinlegt. Kannski á einhver vinur eða kunningi vél sem hann vill lána til að prófa. Semolínahveiti fæst í Kost.

Látið deigið fara gegnum vélina nokkrum sinnum og stillið alltaf í minna bil á milli.
Setjið fyllinguna á með jöfnu millibili.
Koddarnir tilbúnir
Fylltir pastakoddar ( Ravioli)

Það er eins og að fara í jógatíma að laga sjálfur sitt eigið pasta. Það borgar sig að hafa tímann fyrir sér og anda ofan í maga allan tímann því þetta er talsvert tímafrekt. Það er þó fyrirhafnarinnar virði og gott að kúpla sig út úr daglegu stressi, einn sunnudag eða svo og njóta þess að gera svona hversdagslegan og undurgóðan pastarétt.

Ferskt pasta

500 g brauðhveiti
5 egg
semolina hveiti til að rúlla út með

Setjið hveiti og egg í matvinnsluvél og látið vélina ganga í 30 sekúndur. Hellið deiginu á borðið og hnoðið áfram í 2 mín. eða þangað til það er komið saman í fallega kúlu. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í kæli í klukkutíma.
Skiptið deiginu í 4 parta. Rúllið einn part í einu út fyrst þykkt og svo þynnra og þynnra, notið semolinahveitið til að fletja út með. Setjið fyllingu með góðu millibili á 2 af lengjunum, klippið eða skerið á milli svo þið fáið ferninga. Bleytið með vatni í kringum fyllinguna. Skerið ferninga úr deiginu sem ekki er með fyllingu og látið ferning af deigi ofan á fyllinguna. Þéttið með fingrum í kring um fyllinguna. Setjið deigkoddana á ofnplötu og stráið ríkulega af semolínahveiti á milli koddana. Sjóðið deigkoddana í ríkulegu magni af saltvatni í 4-6 mín.
Það er mjög gott að borða koddana með bræddu smjöri með ferskri salvíu út í og að sjálfsögðu parmaosti.

Fylling í Ravioli (pastakoddar)

300 g kotasæla
2 msk. ólífuolía
80-100 g parmaostur, rifinn
hnefafylli af basil, saxað
1/2 tsk. oreganó
1/4 tsk. salvía
salt og pipar

Blandið öllu saman og notið til að fylla pastakoddana.

No comments:

Post a Comment