Monday, February 28, 2011

Grasker, fullt af mat !

Ég fékk þetta fallega grasker í Nettó um daginn. Það er ýmislegt gott hægt að gera úr svona graskeri eins og súpu, pastasósu, ofnrétti, kökur, rísottó, steikja í ofni penslað með olíu, sjóða og gera mauk og margt fleira. Ég bjó til súpu og ofnrétt. Súpuuppskriftin er hér fyrir neðan, ofnrétturinn kemur næst.


Þessi súpa er bæði ódýr, saðsöm og góð. Uppskriftin er hér fyrir neðan en þykktin á súpunni fer svolítið eftir graskerinu sjálfu. Stundum er hún þykk og matarmikil, sérstaklega ef ég nota stóru graskerin sem eru seld í sneiðum. Þessi tegund sem ég keypti í Nettó er ekki eins mjölmikil þannig að ef þið viljið hafa súpuna vel þykka er ráð að hræra 1 msk. kartöflumjöl út í vatni og þykkja hana þannig. Eða bara nota minna vatn.


Graskerssúpa
fyrir 6-8

2-3 msk. oía
2 stórir laukar, saxaðir
2 stór hvítlauksrif, söxuð
500-600 g grasker afhýtt og skorið í munnbitastærð
1-2 gulrætur, flysjaðar og sneiddar
1 rauð paprika, söxuð
1/2 ferskt chili, saxað
1/2 tsk. paprikuduft
1 1/2 líter vatn
2 súputeningar
1 tsk. salt
nýmalaður pipar

1 dl sýrður rjómi
4 msk. söxuð steinselja eða kóríander

Steikið lauk og hvítlauk í olíu við frekar vægan hita það til allt fer að mýkjast. Bætið graskeri, gulrótum, papriku og chili út í og látið krauma smástund saman. Bætið paprikudufti út í og blandið saman við. Hellið vatni út í og látið sjóða saman ásamt súputeningum, salti og pipar í 30-40 mín. Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkið til með salti og pipar. Berið hana fram með slettu af sýrðum rjóma og stráið steinselju eða kóríander yfir. Yndisleg í vetrarkuldanum !!!

Thursday, February 24, 2011

Máltíð soldánsins

Soldánar í tíð Ottómanveldisins áttu gjarnan margar konur. Í þá daga var trú manna að menn sem áttu margar konur þyrftu að borða mikið af kjöti.....og eggjum. Þessi réttur var vinsæll því hann inniheldur bæði hráefnin. Það er skondið að við hér á norðurhveli skulum fara í kryddhilluna til að ná í kryddin eins og kanel sem laða fram stemmingu Mið-Asturlanda. Yndislegur réttur, tilvalinn í helgarmatinn.


Marokkóskar kjötbollur í tómat
fyrir 6

800 g nautahakk
1 laukur, fínt saxaður
3 msk. fersk steinselja, söxuð
1 1/2 tsk. kanell
1 tsk. cuminduft
1 tsk. paprikuduft
1/2 -1 tsk. engiferduft
smá chiliduft
salt og pipar

Hnoðið allt saman (hægt að gera í hrærivél) og mótið meðalstór buff. Brúnið buffin í olíu á pönnu í tveimur umgöngum og setjið þau í ofnskúffu. Geymið.

2 msk. olía
2 laukar saxaðir
2-3 hvítlauksrif, söxuð
1 tsk. kanell
1 tsk. paprika
1/2 tsk. cuminduft
smá chiliduft
2 dósir góðir tómatar í dós, saxaðir gróft
2 tsk. hrá eða púðursykur
salt og nýmalaður pipar
3 msk. söxuð steinselja eða kóríander
6 egg

Hitið ofninn í 200°C. Steikið lauk og hvítlauk í djúpri pönnu í olíu við hægan hita þar til laukarnir fara að mýkjast. Bætið kryddi á pönnuna og steikið í 1 mín saman. Bætið tómötum ásamt safa í dósinni ásamt sykri, salti og pipar út í. Látið malla saman í 20 mín. Smakkið til og bætið e.t.v. meira kryddi út í. Skellið bollunum í ofninn í 3-5 mín eða þann tíma sem tekur að elda þær ( það fer eftir því hvað þið viljið hafa kjötið vel steikt). Spælið eggin ofan í tómarsósuna, setjið lok eða álpappír á pönnuna og látið eggin eldast í 3-4 mín. Raðið bollunum á diska, hellið sósu og einu eggi á mann yfir. Sáldrið steinselju eða kóríander yfir réttinn og berið fram með kús-kús eða brauði.

Sunday, February 20, 2011

Sunnudagsbakstur

Þetta er skúffukakan sem mamma mín bakaði alltaf. Henni fannst þessi uppskrift þægileg því hún er fljótleg, tekur innan við 30 mín að gera hana tilbúna á diskinn. Uppáhald allra með ískaldri léttmjólk.


Skúffubitar

2 egg
3 dl sykur (180 g)
4 1/2 dl hveiti (270 g)
2 1/2 tsk. lyftiduft
2 tsk. vanillusykur
2 msk. kakó
150 g smjör, brætt
1 1/2 dl mjólk

Hitið ofninn í 225°C (210°C á blástur). Þeytið egg og sykur vel saman eða þar til það er léttur og loftkenndur massi. Sigtið hveiti, lyftiduft og kakó saman í skál, bætið vanillusykri út í. Bætið bræddu smjöri og mjólk í eggjamassann og blandið öllu vel saman. Hellið deiginu í smurt form 30x30 cm eða sambærilega stærð og jafnið því í formið. Bakið kökuna í 8-10 mín. Kælið smástund.

krem:
3 1/2 dl flórsykur (180 g)
2 msk. kakó
2 tsk. vanillusykur
4 msk. smjör, brætt
4 msk. lagað kaffi
4-5 msk. kókosmjöl til að setja ofan á kremið

Sigtið flórsykur og kakó saman í skál. Bætið vanillusykri, smjöri og kaffi út í. Smyrjið kreminu á kökuna og sáldrið kókosmjöli yfir.

Tuesday, February 15, 2011

Sætur endir


Þetta er einn af uppáhaldseftirréttunum á heimilinu. Jafnvel meðal þeirra sem annars eru ekki mikið fyrir kaffi, merkilegt nokk ! Það er auðvelt að laga Tiramisu, enginn bakstur en smá fyrirhöfn við að hræra saman. Mér finnst hún best svona, ostakremið frekar þykkt og kökurnar passlega blautar af sætum, sterkum kaffileginum.


Tiramisu

1 pakki fingurkökur (Ladyfingers)
2-3 dl sterkt kaffi
2 msk. sykur
1/2 dl masalavín (má sleppa)

1 peli rjómi
400 g rjómaostur
3 eggjarauður
6 msk. sykur
2-3 msk. Masalavín (má sleppa)
2 tsk. vanilludropar
60-80 g súkkulaði, rifið fínt


Raðið fingurkökum í fallegt fat. Blandið kaffi, sykri og víni saman. Dreypið kaffiblönduni yfir kökurnar. Léttþeytið rjómann og setjið í skál. Hrærið ostinn í sömu skál (óþarfi að þvo skálina)þar til hann er mjúkur og setjið í aðra skál. Þvoið skálina og þeytið egg, sykur og vín saman þar til létt og loftkennt. Blandið osti og vanilludropum út í og hrærið þar til samfellt. Bætið 1/3 af rjómanum út í ostinn. Smyrjið ostakreminu ofan á fingurkökurnar. Jafnið rjómanum þar ofan á. Stráið rifnu súkkulaði yfir rjómann. Góð samdægurs en líka daginn eftir. Kakan geymist í 4-5 daga.


Thursday, February 10, 2011


Tómatar í dós, ekki sama og tómatar í dós.


Þessir tómatar eru í uppáhaldi. Þeir eru 100 kr dýrari en hin merkin en eru svo miklu bragðmeiri og betri. Mæli með því að splæsa í góða tómata þegar verið er að gera rétti það sem þeir eru í aðalhlutverki eins og tómatsúpur og fleira.

Saturday, February 5, 2011

Laugardagsmaturinn

Það er hægt að finna endalausa möguleika á að matreiða kjúkling en samt endar maður oft í því sama sem er fljótlegast að baka hann í ofni. Hér er uppskrift sem ég gerði í Gestgjafann fyrir nokkrum árum. Hann er bakaður í ofni en með mjög bragðgóðum kryddhjúp. Alveg komin tími til að rifja þessa upp.

Kjúklingur með kryddhjúp

4 kjúklingalæri eða samsvarandi af bitum
3 msk. brætt smjör
70 g kartöfluflögur - Kettler´s eru vandaðastar og bestar en dýrastar
50 g rifinn parmaostur (1 dl)
1 msk. ferskt estragon eða 1-2 tsk. þurrkað
salt og nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 180°C. Myljið kartöfluflögur frekar fínt í skál. Blandið parmaosti og kryddi út í mylsnuna. Penslið kjúklingalærin á báðum hliðum með bræddu smjöri. Veltið kjúklingalærunum upp úr mylsnunni og raðið þeim á smjörpappír á ofnskúffu. Notið alla mylsnuna, klessið því sem er afgangs ofan á kjúllann. saltið og piprið. Bakið bitana í 40 mín eða þar til þeir eru eldaðir í gegn. Berið fram með góðu salati.