Wednesday, April 14, 2010

Pakkasósur "nei takk"

Ég vil ekki vera með leiðindi en....mér finnast pakkasósur ekki spennandi, lítið annað en lím og aukaefni og nota þær helst ekki. Með flösku af óáfengu hvítvíni (sem kostar eins og 3 sósupakkar og endist lengi), gróft sinnep, hunang og sýrðan rjóma að vopni er hægt að gera frábæra sósu á grísa eða kálfakjötsneið og kjúkling. Safinn af kjötinu blandast í sósuna og gerir hana ótrúlega góða.


Kjúklingabringur með sósu

fyrir 2-3

2 kjúklingabringur, má líka nota grísa eða kálfakjötsneiðar
2 msk. olía
1 tsk. smjör
1/2 -3/4 dl hvítvín, má vera óáfengt
1 kúfuð tsk. gróft sinnep
1 tsk. hunang
100 g sýrður rjómi
1/2 tsk. estragon eða 1 -2 tsk. estragon, (má sleppa)

Skerið hverja kjúklingabringu í tvær steikur með því að leggja lófan ofan á hana og skera þvert í gegnum hana með góðum hníf. Hitið olíu og smjör á pönnu og steikið bringusteikurnar á báðum hliðum þar til þær eru gegnumsteiktar, saltið og piprið. Lækkið aðeins hitann og hellið hvítvíni á pönnuna, bætið sinnepi og hunangi út í og látið malla vel saman. Bætið sýrðum rjóma og estragon út í og hrærið vel saman og látið sjóða 1 mín. Gott að borða ofnsteikt grænmeti með.

1 comment:

  1. Þetta er orðið uppáhaldsrétturinn okkar!
    Er farin að tíma að kaupa aftur kjúklingabringur!
    Skemmtilegt að lesa þessa síðu þótt ég kommenti aldrei;)
    Kveðja
    Hildur

    ReplyDelete