Tuesday, April 20, 2010

Súkkulaðikaka á sunnudegi

Þetta er alvöru súkkulaðikaka, ótrúlega bragðmikil og djúsí. Ég sá uppskriftina fyrst í bók eftir franska bakarann fræga Pierre Hermé en hef aðeins breytt henni að mínum smekk. Ef ykkur langar í alvöru súkkulaðiköku fyrir fullorðna sem passar líka með rauðvíni eftir matinn er þetta kakan. Bókin fæst á amazon.com

Súkkulaðiformkaka
100 g þurrkaðar apríkósur
150 g sykur
120 g marsípan
4 stór egg
180 g hveiti, pilsbury´s
40 g kakó
1/2 tsk. lyftiduft
150 g gott súkkulaði, saxað gróft
50 g sykrað engifer, saxað, fæst í heilsubúðum
1 1/2 dl mjólk
180 g smjör, brætt og kælt aðeins

Setjið apríkósur í skál og hellið sjóðandi vatni yfir þær, látið þær bíða í 5 mín. Sigtið þær, þerrið og klippið eða skerið í minni bita.
Hitið ofninn í 180°C, 165°C á blástur. Hrærið saman sykur, marsípan og egg þar til ljóst og loftkennt. Sigtið hveiti, kakó og lyftiduft saman. Blandið apríkósum, súkkulaði og engifer út í hveitiblönduna. Blandið þurrefnum ásamt mjólk og smjöri út í deigið og blandið saman með sleikju. Setjið smjörpappír í botn og með hliðum á stóru jólakökuformi (sjá mynd) og smyrjið endana á forminu með olíu. Hellið deiginu í formið og bakið kökuna neðst í ofni í um klukkutíma eða þar til deig festist ekki við prjón sem er stungið í kökuna miðja. Það er líka gott ráð að "hlusta" á kökuna í lok bökunartímans. Um leið og "hviss" hljóð er hætt að heyrast er kakan bökuð.

No comments:

Post a Comment